Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Makemake (dvergreikistjarna)

Efnisyfirlit
Meira um dvergreikistjörnur
Útstirnið (136472) Makemake er þriðja stærsta þekkta dvergreikistjarna sólkerfisins og annar stærsti hnöttur Kuipersbeltisins, um 2/3 af þvermáli Plútós.

Uppgötvun

Hópur stjörnufræðinga, sem Mike Brown við Caltech fór fyrir, uppgötvaði Makemake á myndum sem teknar voru þann 31. mars árið 2005. Tikynnt var um uppgötvun Makemake og Erisar þann 29. júlí sama ár.

Sýndarbirtustig Makemake er +16,5 þegar mest er (hægt að koma auga á í stórum áhugamannasjónaukum (14 tommur og stærri)) og er hann því næst bjartasta útstirnið í Kuipersbeltinu á eftir Plútó. Þrátt fyrir það uppgötvaðist hann ótrúlega seint. Ástæðan er fyrst og fremst sú að flestar leitir eftir útstirnum hafa verið gerðar nálægt sólbaugnum eða brautarfleti sólkerfisins, þar sem meiri möguleiki er á að þar finnist hnettir. Braut Makemake hallar aftur á móti talsvert frá sólbaugnum, raunar svo mikið að þegar hnötturinn fannst var hann í stjörnumerkinu Bereníkuhaddur. Fáum hafði hreinlega dottið í hug að leita svo norðarlega á himinhvolfinu.

Að Plútó undanskildum er Makemake þar af leiðandi eina dvergreikistjarnan sem er nógu björt til þess að Clyde Tombaugh hefði getað fundið hann þegar hann leitaði kerfisbundið að reikistjörnu handan Neptúnusar. Á þeim tíma þegar leit Tombaugh stóð yfir var Makemake aðeins örfáar gráður frá sólbaugnum, við mörk Nautsins og Ökumannsins og hafði þá sýndarbirtustigið +16.  Þessi staðsetning var hins vegar mjög nærri Vetrarbrautarslæðunni og nánast ógjörningur að finna Makemake í stjörnuskaranum. Tombaugh hélt áfram leit sinni í nokkur ár eftir að hann fann Plútó en tókst ekki að finna fleiri hnetti.

Þann 11. júní 2008 færði Alþjóðasamband stjarnfræðinga Makemake loks formlega í flokk dvergreikistjarna.

Nafn

Þegar Makemake fannst skömmu eftir páska árið 2005 hlaut hnötturinn tímabundna heitið 2005 FY9. Brown og félagar kölluðu hnöttinn óopinberlega Easterbunny eða páskakanían með vísan til páskanna vitaskuld. Þegar braut hnattarins er vel þekktur fær hann varanlegt töluheiti; (136472) í tilviki Makemake.

Sá sem uppgötvar hnött í sólkerfinu nýtur þeirra forréttinda að leggja til nafn á hann sem nafnanefnd Alþjóðasambands stjarnfræðinga (IAU) þarf hins vegar að samþykkja. Um uppruna nafnsins Makemake segir Brown:

Við tökum nafnaveitingu hnatta í sólkerfinu mjög alvarlega. Yfirborð Makemake er þakið næstum hreinum metanís, sem er vísindalega mjög heillandi, en ekki auðvelt að tengja jarðneskri goðafræði. Skyndilega sló það mig: eyjan Rapa Nui [Páskaeyja]. Hvers vegna hafði mér ekki dottið það fyrr í hug? Ég þekkti ekkert til goðafræði eyjarinnar og varð því að fletta því upp og fann Makemake, æðsta guðinn, skapara mannkyns og guð frjósemi. Ég er hliðhollur frjósemisguðum. Eris, Makemake og 2003 EL61 fundust allir þegar konan mín var komin 3-6 mánuði á leið með dóttur okkar.

Nafnanefnd Alþjóðasambandsins samþykkti tillögu Browns og nefndi dvergreikistjörnuna efri pólýnesíska frjósemisguðinum Makemake, sem hafði mannsbúk en fuglshöfuð; skapara mannkyns í goðafræði Páskaeyju í sunnanverðu Kyrrahafinu. Brown tókst þannig að halda í tengsl Makemake við páskana.

Braut

Braut Makemake er nokkuð ílöng líkt og venjan er hjá útstirnum. Miðskekkjan brautarinnar er 0,159 sem þýðir að í sólnánd er Makemake í 38,509 stjarnfræðieininga fjarlægð (5,76 milljarðar km) frá sólu, en 53,074 stjarnfræðieiningar í sólfirð (7,94 milljarðar km). Brautarhallinn er nokkuð brattur eða 29 gráður miðað við sólbauginn. Umferðartíminn er nærri 310 ár en til samanburðar er umferðartími Plútós 248 ár. Makemake verður í fjærst sólu á braut sinni árið 2033.

Stærð, yfirborð og lofthjúpur

Makemake er næst bjartasti hnöttur Kuipersbeltisins á eftir Plútó. Hnötturinn endurvarpar næstum 80% þess sólarljóss sem á hann fellur sem bendir til þess að meðalhitastig yfirborðsins sé í kringum -240°C. Ekki er vitað hversu stór Makemake að þvermáli en innrauðar varmamælingar Spitzer geimsjónaukans benda til þess að hann sé um 1500 km í þvermál. Sé þetta raunin er Makemake þriðja stærsta þekkta útstirnið á eftir Eris og Plútó.

Snúningstími Makemakes er óþekktur vegna þess að engar greinilegar breytingar hafa sést á hnettinum með ljósmælingum. Hugsanlega er lofthjúpur Makemakes frosinn við yfirborðið (fallið sem snjór eða hrím) sem skýrir hvers vegna yfirborðið er svona einsleitt. Litrófsrannsóknir á ljósinu frá Makemake benda til þess að yfirborðsísinn sé að mestu metan líkt og á Plútó og Erisi. Aftur á móti finnst nánast ekkert nitur í litrófinu sem mikið er af á Plútó.

Tilvist metans og hugsanlega niturs bendir til þess að Makemake gæti búið yfir örþunnum lofthjúpi sem líkist lofthjúpi Plútós. Þessi lofthjúpur væri þá þykkastur þegar Makemake er við sólnánd en fallið sem snjór á yfirborðið við sólfirð, þegar fimbulkuldinn er slíkur að nitrið (sé það til staðar) er ekki lengur loftkennt. 

Fylgitungl

Engin fylgitungl hafa fundist við Makemake hingað til. Þetta kemur stjörnufræðingum nokkuð á óvart því önnur stærstu útstirnin virðast almennt séð hafa fylgitungl. Þannig hefur Eris eitt (Dysnómía), 2003 EL61 tvö og Plútó þrjú (Karon, Nix og Hýdra). Telja menn líklegt að milli 10 til 20% allra útstirna hafi eitt eða fleiri fylgitungl. Fylgitungl gera mönnum kleift að nota lögmál Keplers til að mæla massa hnattar, en þar sem Makemake hefur ekkert fylgitungl svo vitað sé er mjög erfitt að finna út massa hans.

Heimildir

 

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook