Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook
 

Mars Express

Mars Express er fyrsti rannsóknarleiðangur evrópsku geimferðastofnunarinnar til annarrar reikistjörnu. Geimfarinu var skotið á loft 2. júní 2003 frá Baikonur í Kasakstan með rússneskri Soyuz-Fregat eldflaug. Geimfarið var tvískipt, annars vegar Mars Express sporbaugsfar og hins vegar Beagle 2 lendingarfar. Nafnið á geimfarinu er tilkomið vegna þess að það var smíðað hraðar en nokkurt annað sambærilegt könnunarfar og kostaði einungis 150 milljón evrur. Lendingarfarið Beagle 2 er breskt og nefnt eftir skipinu sem Charles Darwin ferðaðist með árið 1831. Beagle 2 er einungis 71 kg og kostaði 42 milljón evrur. Verkefni þetta var gríðarspennandi tækifæri fyrir Evrópu til að stuðla að aukinni þekkingu á Mars og sér í lagi í leit að lífi á plánetunni.

Mars Express kom til Mars 25. desember 2003 eftir vel heppnað ferðalag frá jörðu. Sex dögum fyrr, eða 19. desember 2003, var lendingarfarinu Beagle 2 til að lenda á plánetunni. Hitaskjöldur, fallhlíf og loftpúðar áttu að koma farinu örugglega á Isidis-lágsléttuna sem er norðvestan við Syrtis svæðið. Isidis-sléttan var valin því vonast var að þar séu vísbendingar um fornt líf á Mars, jafnframt því að þar eru vorin nógu hlý til að Beagle 2 kæmist af. Beagle 2 átti að verja a.m.k. sex mánuðum í vatnsleit, líffræði- og jarðefnarannsóknir, samfara því að mynda og kanna umhverfið í kring.

Stuttu eftir að Beagle 2 fór inn í lofthjúp Mars misstu menn samband við það. Á myndum af Isidis-sléttunni sem teknar voru nokkrum dögum eftir að geimfarið sást síðast fara inn í lofthjúpinn sjást engin merki um geimfarið. Þann 5. janúar 2004 tók Mars Global Surveyor mjög skarpar myndir af lendingarsvæðinu en ekkert sást til geimfarsins. Þegar þetta er skrifað vita menn ekki enn hvað varð af farinu og munu menn halda áfram að kanna það þar til allt kemur í ljós.

Í farmi Beagle 2 voru bæði sólarrafhlöður og endurhlaðanlegar rafhlöður sem áttu að knýja mælitækin. Rafhlöðurnar þoldu allt að -100°C. Beagle 2 var vopnaður myndavélum sem áttu að taka margar myndir af landslaginu. Um borð var líka smásjá sem átti að kanna bergið og jarðveginn til hlítar í mikilli stækkun. Beagle 2 var þar að auki með lítinn fjarstýrðan arm sem átti að rannsaka bergmola í seilingarfjarlægð, en þar átti að reyna að finna lífræn efni, vatn og steintegundir.

Um borð var einnig lítil moldvarpa sem gat skriðið stuttar vegalengdir um yfirborðið með um 1 sm hraða á sex sekúndum, eða sex metra á klukkustund. Það gat jafnframt grafið sig undir stóra stein og tekið sýni fyrir greiningartæki sem það innihélt. Aðalmarkið tilraunanna var að kanna vísbendingar um líf eða steingervinga við lendingarstaðinn.

En þótt Beagle hafi týnst er Mars Express enn á braut um Mars þar sem það á að rannsaka yfirborð og lofthjúp reikistjörnunnar í tvö ár. Um borð í Mars Express eru sjö mælitæki sem eiga að varpa nýju ljósi á jarðfræði og byggingu yfirborðsins, lofthjúpinn og hugsanlegt líf á Mars. Sporbaugsfarið er í að meðaltali 260 km hæð yfir Mars og sveimar umhverfis plánetuna á 7½ klukkustund.

Markmið 

Vonast er til þess að rannsóknartækin um borð í Mars Express muni staðfesta tilvist vatns undir yfirborðinu, sem gæti verið til staðar í ám, hyljum eða sífrera undir yfirborðinu. Í heild eru meginmarkmið Mars Express að:

  • Taka þrívíðar ljósmyndir af yfirborðinu sem gera á mönnum kleift að öðlast frekari skilning á yfirborði og jarðfræði Mars
  • Líta á það “ósýnilega” undir yfirborðinu með ratsjárgeislum sem fara í gegnum jarðveginn. Ólík efni senda mismunandi ratsjárbergmál til baka sem gerir vísindamönnum kleift að búa til nákvæmt þrívíddarkort.
  • Ákvarða nákvæmlega hringrás og samsetningu lofthjúpsins með það fyrir augum að draga upp eins nákvæma mynd og auðið er af loftslagi og veðurfræði Mars.
  • Rannsaka gagnkvæm áhrif lofthjúpsins við geiminn.
  • Vera samskiptatæki milli jarðar lendingarfaranna Beagle 2, Marsjeppana Spirit og Opportunity og annarra leiðangra til Mars frá 2003-2007.

Að ná í upplýsingar um sögu Mars og aðstæður þar í dag getur bætt skilning okkar á þeim þáttum sem áhrif hafa á umhverfi okkar. Ef við komumst að því hvers vegna vatn Mars hvarf, gætum við lært meira um hvort svipuð örlög bíði hafa jarðar dag einn.

Þetta merkilega og spennandi verkefni er samstarf margra þjóða. Mælitækin koma t.d. frá Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu en ratsjártækið er sameiginlega smíðað á Ítalíu og af JPL í Kaliforníu. Auk þess taka hundruð vísindamanna frá næstum tuttugu löndum þátt í Mars Express verkefninu. Lok verkefnisins er áætluð í nóvember 2005 og því stendur það yfir í um eitt Marsár.

Beagle 2


Myndir frá Mars Express


Mars Express
Hér sést tölvumynd af Mars Express geimfarinu á braut umhverfis Mars. Geimfarið er útbúið hágæðamyndavélum sem mynda yfirborðið af gríðarlegri nákvæmni í þrívíðum litmyndum.

Beagle 2 á Isidis-sléttunni
Hér sést tölvumynd af Beagle 2 á Isidis-sléttunni að kanna yfirborðið. Geimfarið var útbúið tækjum sem áttu að kanna umhverfið í kring og leita eftir merkjum um líf í auðninni. Geimfarið týndist stuttu eftir að það kom inn í lofthjúp Mars þann 19. desember 2003.


Marinerdalirnir
Á þessari stórglæsilegu mynd sést aðeins brot af Marinerdölunum á mynd sem evrópska geimfarið Mars Express tók. Miklugljúfur í Bandaríkjunum væru eins og einn dalur inn í þessum hrikalegu gljúfrum.

Reull-dalir
Þessi þrívíða litaljósmynd var tekin 15. janúar 2004 úr 273 km hæð yfir Mars. Staðsetningin er austur af Hellasdældinni. Svæðið er 100 km í þvermál og sýnir rás sem (Reull-dali) sem líklega myndaðist með fljótandi vatni. Norður er upp á myndinni.

Albor Tholus
Þessi þrívíða litmynd var tekin 19. janúar 2004 af tindi öskjunnar Albor Tholus sem er eldfjall á Elysium-svæðinu. Askjan er 30 km í þvermál og 3 km djúp. Þvermál eldfjallsins alls er 160 km og hæð þess er 4,5 km. Þetta er afar áhugaverð jarðmyndun þar sem dýpi öskjunnar er næstum hin sama og hæð eldfjallsins. Á vinstri brún öskjunnar fjær virðist sem bjart “ryk” sé að falla inn í öskjuna.

Askja Ólympusfjalls
Hér sést mynd af öskjunni á toppi Ólympusfjalls, hæsta eldfjalls sólkerfisins. Ólympusfjall er dyngja eins og Skjaldbreiður á Íslandi og Mauna Loa á Havaí og rís 26 km yfir slétturnar í kring. Everestfjall er því aðeins þriðjungur þess. Dýpi öskjunnar er um 3 km og á botni hennar sjást greinilega sprungur. Myndin var tekin úr 273 km hæð á 37 hring Mars Express umhverfis Mars þann 21. janúar 2004.

• Vefsíða ESA um Mars Express

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook