Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook
Dvergreikistjarnan Plútó

 

Plútó

 

Dvergreikistjarnan 134340 Plútó

Efnisyfirlit
Meira um Plútó

Plútó er næst stærsta þekkta dvergreikistjarnan í sólkerfinu, miklu minni en reikistjörnurnar átta. Sjö fylgitungl í sólkerfinu stærri en Plútó, þ.e. tunglið okkar, Íó, Evrópa, Ganýmedes, Kallistó, Títan og Tríton. Plútó líkist á margan hátt síðastnefnda tunglinu að stærð, efnasamsetningu og má vera að uppruni þeirra sé af sama toga.

Í goðafræði rómverja var Plútó undirheimaguðinn og svaraði til Hadesar í grískum trúarbrögðum. Plútó var sonur Satúrnusar, bróðir Júpíters, og dæmdi þá látnu eftir að Karon ferjaði þá niður með ánni Styx til undirheimanna. Kona Plútós hét Prosperína (Persefóna hjá Grikkjum) sem hann rændi og tók með sér til undirheima.

Hægt er að sjá Plútó með stórum áhugamannasjónauka á næturhimninum, en það er mjög vandasamt verk. Til þess þarf að verða sér úti um vönduð kort sem sýna nákvæma staðsetningu. Síðan þarf að fylgjast með sama staðnum á himninum í nokkra daga til þess að sjá hann áreiðanlega.

Uppgötvun

Eftir að Neptúnus fannst árið 1846 komu í ljós að truflanir á braut reikistjörnunnar sem voru of miklar til að aðeins Úranus gæti valdið þeim. Menn hófu því fljótt leit að „Reikistjörnunni X“ en hún bar engan árangur. Útreikningar sýna að það er í raun engin óútskýrð truflun á braut Neptúnusar og það er því ekkert skrítið að engin reikistjarna fannst á þeim stað sem stjörnufræðingarnir William Pickering, Percival Lowell og fleiri höfðu spáð fyrir um. Samt hélt leitin áfram, aðallega í Lowell-stjörnustöðinni í Flagstaff í Arizona í Bandaríkjunum.

Fyrir andlát sitt árið 1916 hafði Lowell búið þannig um hnútana að stjörnumyndavél með 33 cm ljósopi var sérsmíðuð á sjónaukann í Flagstaff fyrir leitina að Reikistjörnunni X. Eftir nokkra seinkun var smíði hennar loks lokið árið 1929 og komið fyrir á Lowell-sjónaukanum. Þetta ár réði stjórnandi stjörnustöðvarinnar, Vesto Slipher, ungan stjörnuáhugamann að nafni Clyde Tombaugh (1906-1997) - sem þá var aðeins 22 ára - sérstaklega til að leita að reikistjörnunni.

Verkefni Tombaugh var að ljósmynda kerfisbundið ákveðin svæði á himninum á tveggja vikna fresti, grannskoða myndirnar og kanna hvort eitthvað fyrirbæri á ljósmyndaplötunum hefði færst úr stað miðað við fastastjörnurnar. Leit hans bar loks árangur 18. febrúar 1930 þegar Tombaugh fann Plútó í Tvíburamerkinu á myndum sem teknar höfðu verið 23. og 29. janúar það ár. Reikistjarnan var afar dauf af 15. birtustigi, sem hægt og rólega breytti um staðsetningu meðal fastastjarnanna í bakgrunni. Hún var þúsund sinnum daufari en daufustu stjörnurnar sem sjást með berum augum og 250 sinnum daufari en Neptúnus þegar best lætur. Þegar Tombaugh hafði staðfest eiginhreyfingu hnattarins, gekk hann inn á skrifstofu Sliphers og sagði: „Doktor Slipher, ég hef fundið Reikistjörnuna X.“

Myndirnar sem Clyde Tombaugh uppgötvaði Plútó á þann 18. febrúar 1930.

Þann 13. mars 1930, 149 árum eftir að Úranus fannst, tilkynntu stjörnufræðingar um uppgötvun níundu reikistjörnu sólkerfisins. Reikistjarnan hlaut nafnið Plútó eftir uppástungu 11 ára skólastúlku frá Oxford á Englandi, Venetiu Burney að nafni, en stungið hafði verið upp á mörgum öðrum nöfnum, t.d. Atlas, Zymal, Artemis, Perseus, Vúlkan, Tantalus, Idana og Krónus. New York Times stakk upp á nafninu Mínerva, fréttamenn stungu upp á Ósíris, Bakkus, Apollo og Erebus. Ekkja Lowells stakk upp á Seifi en snerist síðar hugur og stakk þá upp á Constance. Margir töldu réttast að nefna reikistjörnuna Lowell en starfsfólkið í Flagstaff, þar sem Plútó fannst, stungu upp á Krónus, Mínerva og Plútó. Þess má líka geta að upphafstafir nafnsins, PL, eru einnig skammstöfun á nafni Percival Lowell.

Plútó er þess vegna ekki nefndur eftir hundinum hans Mikka eins og margir halda. Sá góði hundur kom fyrst fram í teiknimyndinni „The Chain Gang“ árið 1930 - sama ár og plánetan fannst. Disney hundurinn Plútó hlaut nafnið sitt ári síðar, svo meiri líkur eru á að hundurinn hafi hlotið nafn reikistjörnunnar, enda var hún sífellt í fréttum á þeim tíma.

Braut og snúningur

Braut Plútós um sólina hefur meiri miðskekkju og brautarhalla en brautir reikistjarnanna í sólkerfinu. Miðskekkjan er svo mikil að stundum er Plútó nær sólu en Neptúnus, þá um 20 ára skeið. Seinast fór Plútó inn fyrir braut Neptúnusar 21. janúar 1979 og var næst sólu 5. september 1989. Tæplega tíu árum síðar eða 11. febrúar 1999 fór Plútó aftur út fyrir braut Neptúnusar og verður fjær sólu en Neptúnus þar til í september 2226.

Þótt brautir Neptúnusar og Plútó skerist, er engin hætta á árekstri milli þeirra. Brautirnar eru einfaldlega of ólíkar. Í raun kemst Plútó aldrei nær Neptúnusi en 17 stjarnfræðieiningar, sem er um það bil 2,5 milljarðar km.

Dvergreikistjarna

Samanburður á stærðum jarðar, tunglsins, Plútó og útstirnunum Sednu og Quaoar.

Þegar bandaríski stjörnufræðingurinn Clyde Tombaugh uppgötvaði Plútó árið 1930 töldu flestir að þar hefði fundist níunda reikistjarna sólkerfisins. Stjörnufræðingar komust þó fljótt að því að Plútó er talsvert frábrugðinn hinum átta. Hann er til dæmis miklu minni en nokkur önnur reikistjarna (minni en tunglið okkar!) og á braut sem er mun sporöskjulagaðri en annarra, það er að segja að brautin hefur meiri miðskekkju (e. eccentricity) eins og það heitir á máli stærðfræðinnar. Reyndar var Plútó lengi talinn stærri en hann er í raun og veru, eða þar til Karon, einn þriggja fylgihnatta hans, fannst árið 1978.

Vegna þess að Plútó er svo ólíkur fyrri reikistjörnum sólkerfisins töldu margir stjörnufræðingar að ekki ætti að telja hann til þeirra. Ekki var þó til nein sérstök vísindaleg skilgreining á „reikistjörnu“ svo að erfitt var að meta eða rökræða hvort Plútó ætti heima í hópi þeirra.

Á síðustu árum hafa fundist handan Neptúnusar fjölmargir hnettir sem eru bæði á svipaðri braut og Plútó og álíka stórir. Frægastur er líklega hnötturinn 2003 UB313 sem heitir nú Eris, en uppgötvun hans var gerð opinber árið 2005. Meðal stjörnufræðinga voru skiptar skoðanir á því hvernig flokka ætti þennan nýfundna hnött, og skiptust menn í tvo hópa. Sumir vildu kalla Eris tíundu reikistjörnu sólkerfisins af þeirri einföldu ástæðu að hann er stærri en Plútó, en aðrir vildu svipta Plútó reikistjörnutitlinum og fækka þeim niður í átta. Þessar deilur voru illleysanlegar þar sem engin skilgreining á reikistjörnu lá fyrir.

Til tíðinda dró á 26. þingi Alþjóðasambands stjarnfræðinga sem haldið var í Prag í Tékklandi í ágúst 2006. Til undirbúnings hafði verið skipuð sérstök nefnd um málið á vegum sambandsins og lagði hún fram tillögu um skilgreiningu á reikistjörnum. Samkvæmt henni hefðu þrír hnettir bæst strax í hóp þeirra níu reikistjarna sem þegar voru þekktar. Þetta voru Ceres, sem hingað til hefur verið talinn til smástirna, Karon sem er í grennd við Plútó og útstirnið Eris. Hefði sú tillaga hlotið náð fyrir augum stjörnufræðinga hefði reikistjörnum sólkerfisins fjölgað úr níu í tólf og fjöldinn ef til vill náð hundraði ef ekki þúsundum innan nokkurra ára.

Tillagan var felld og ný skilgreining samin í staðinn. Sú skilgreining batt enda á 76 ára vist Plútós í þeim hópi sem menn kalla reikistjörnur. Samkvæmt henni verður himinhnöttur að uppfylla þrjú skilyrði til að geta talist reikistjarna: Hann verður að vera á braut um sólina, hafa nægilegan þyngdarkraft til að vera því sem næst hnattlaga og hafa fjarlægt allt efni í næsta nágrenni við braut sína.

Plútó er ekki ráðandi fyrirbæri á braut sinni um sólina og deilir henni með öðrum fyrirbærum, til dæmis Karon og Neptúnusi. Plútó uppfyllir því ekki þriðja skilyrðið og telst ekki lengur reikistjarna. Þar af leiðandi eru nú taldar átta reikistjörnur í sólkerfi okkar: Merkúríus, Venus, jörðin, Mars, Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus. Skilgreiningin er þannig úr garði gerð að ólíklegt er að reikistjörnurnar verði nokkurn tímann fleiri en átta.

Á þingi Alþjóðasambands stjarnfræðinga var einnig samþykkt að skilgreina nýjan flokk svokallaðra dvergreikistjarna (e. dwarf planets). Til þess að teljast dvergreikistjarna þarf fyrirbæri aðeins að uppfylla tvö af þessum þremur skilyrðum: Það verður að vera á braut um sólina og því sem næst hnöttótt. Auk þess má dvergreikistjarna hvorki vera reikistjarna né tungl.

Plútó uppfyllir þessi skilyrði og er því dvergreikistjarna. Þessum hópi tilheyra líka tveir aðrir hnettir, Eris og Ceres. Nú þegar eru þekktir tugir hnatta sem gætu talist dvergreikistjörnur og því má búast við að sá hópur stækki mjög hratt á næstu árum.

Sjá nánar: Skilgreining á reikistjörnu
Sjá nánar: Dvergreikistjörnur

Innri gerð

Lítið er vitað um innviði Plútó. Engu að síður hafa litrófsmælingar frá jörðu leitt í ljós að reikistjarnan er þakin metanís, yfirborðshitinn er -230°C og frosið metan framkallar birtubreytingar á yfirborðinu.
(Mynd: Lunar and Planetary Institute/Stjörnufræðivefurinn)

Vegna gífurlega mikillar fjarlægðar er mjög erfitt að rannsaka yfirborð Plútós, jafnvel með Hubblessjónaukanum og stærstu sjónaukum jarðar, og því er enn margt á huldu um eðli hans. Snemma tókst mönnum þó að mæla snúningstímann, sem er 6,387 jarðardagar, og í ljós kom að snúningsásinn hallar um 120°. Þegar fylgitungl Plútó, Karon, fannst árið 1978 jókst þekking okkar til muna því þá var loks hægt að mæla massa Plútós út frá umferðartíma og fjarlægð Karons (með Keplerslögmálunum).

Svo heppilega vildi til að fljótlega eftir uppgötvun Karons, urðu stjörnufræðingar vitni að uppröðun tvíeykisins sem gerist aðeins á 124 ára fresti. Frá febrúarmánuði 1985 til 1990 lá kerfið á rönd frá jörðu séð, sem gerði stjörnufræðingum kleift að fylgjast með reglulegum myrkvum á hnöttunum. Plútó myrkvaði Karon á sex daga fresti og öfugt. Fyrstu myrkvarnir urðu við norðurpólssvæðin en síðari myrkvar við miðbaugssvæðin og svo loks suðurpólssvæðin. Út frá mælingum á 100 myrkvum komust stjörnufræðingar að því að þvermál Plútó var um 2300 km og þvermál Karons 1190 km eða rétt rúmur helmingur af stærð Plútós. Karon er því hlutfallslega stærsta tungl sólkerfisins miðað við móðurreikistjörnuna. Tunglið okkar er nánast jafnstórt og Plútó og Karon til samans. Meðalfjarlægðin milli hnattanna er aðeins 19.640 km eða næstum átta sinnum þvermál Plútós. Fjarlægðin milli þeirra og umferðartíminn var svo nýtt til útreikninga á massa Plútós sem er 1,3 x 1022. Þetta er næstum sjöfaldur massi Karons en aðeins 0,0021 jarðarmassar eða einn fimmti af massa tunglsins.

Út frá stærðar- og massamælingunum má álykta að eðlismassi Plútós er á milli 1,8 og 2,1 g/cm3. Það þýðir að Plútó er 50 til 75% berg og ís. Eðlismassi Karons er 1,2 til 1,3 g/cm3 sem bendir til þess að Karon innihaldi lítið af bergi. Munurinn gæti þó sagt okkur að Plútó og Karon hafi myndast í sitt hvoru lagi en menn greinir enn á um það. Uppruni Plútós og Karon er því enn óljós.

Yfirborð

Þegar myrkvatímabilið stóð yfir voru gerðar birtumælingar á yfirborðinu. Í ljós kom að yfirborðið er tiltölulega bjart og endurvarpar um 60% sólarljóssins. Hitastigið á yfirborðinu er þar af leiðandi lágt, aðeims um -230°C að degi til þegar best lætur. Hátt endurvarp segir okkur að yfirborðið er tiltölulega ungt, því gamall ís er sjaldan þetta bjartur, vegna þess að ryklag sest ofan á hann með tímanum. Því er talið líklegt að metanhrímlag þekji ísinn.

Yfirborðið er líklega 98% nitur og afgangurinn sennilega metan og kolmónoxíð. Litrófsmælinga benda til að yfirborðið sé nokkuð rauðleitt (samanber yfirborð Sednu) en óljós merki um mislit svæði á yfirborðinu hafa sést á óskýrum myndum Hubblesjónaukans. Ef til vill er um tvískipt yfirborð að ræða; annars vegar úr björtum metanís og hins vegar eitthvað annað dökkt yfirborðslag, en það kemur í hlut New Horizons geimfarsins að skera úr um það. Stöðug uppgufun metans veldur því að landslag getur bókstaflega gufað upp, ef metan er á annað borð aðaluppistaða yfirborðsins. Fjöll og dalir hverfa á meðan önnur myndast í staðinn, allt eftir því hvar á braut sinni um sólina Plútó er.

Breytingar á yfirborðinu

Samanburður á kortum af yfirborði Plútós frá árunum 1994 og 2002/3
Samanburður á kortum af yfirborði Plútós frá árunum 1994 og 2002/3.
Mynd: NASA, ESA, og M. Buie (Southwest Research Institute)

Í febrúar 2010 birti NASA ný kort af Plútó. Nýju kortin eru endurunnar ljósmyndir Hubble geimsjónaukans frá árunum 2002 og 2003. Þegar þau eru borin saman við eldri kort, sem gerð voru árið 1994, sést að yfirborð Plútós hefur breyst umtalsvert og ört.

Kortin sýna að norðurhvelið orðið ljósara á síðustu árum á meðan suðurpóllinn hefur dökknað. Á sama tíma virðist sem yfirborðið í heild hafi orðið rauðara. Rauða litinn má sennilegast rekja til kolefnis. Þegar útfjólublátt ljós frá hinni fjarlægu sól brýtur upp metanísinn á yfirborði Plútós situr kolefnið í metaninu eftir. Kolefnið er dökkt eða rauðleitt. En hversu nákvæm eru þessi nýju kort? Kortin líkjast mjög því hvernig við greinum tunglið okkar með berum augum frá jörðinni. Með berum augum sjáum við dökk og ljós svæði á tunglinu en greinum engin smáatriði í landslaginu. Nýju kortin eru of ónákvæm til þess að við getum áttað okkur á jarðfræði Plútós en nógu nákvæm til að sýna okkur að dvergreikistjarnan er dílóttur hnöttur með ljósu, dökk-appelsíngulu og biksvörtu landslagi.

Nýju kortin eru hin nákvæmustu sem við höfum af Plútó þar til New Horizons geimfar NASA flýgur framhjá honum og tunglunum Karon, Nix og Hýdra árið 2015. Nýju kortin eru vísindamönnum, sem starfa við þennan leiðangur, ómetanleg. Með þeim er hægt að skipuleggja framhjáflug geimfarsins árið 2015. New Horizons ferðast svo hratt framhjá Plútó að aðeins önnur hlið hans verður ljósmynduð í mestu mögulegu upplausn, svo mikilvægt er að velja hvor hliðin er áhugaverðari.

Með kortunum geta vísindamenn líka reiknað út réttan lýsingartíma fyrir ljósmyndirnar. Við framhjáflugið verður New Horizons svo langt frá jörðinni að það tekur skilaboð frá geimfarinu næstum sex klukkustundir að berast til jarðar. Þess vegna er ómögulegt að ljósmynda sömu svæði tvisvar, ef svo óheppilega vildi til að fyrri myndin misheppnaðist. Þess vegna er mikilvægt ljósmyndir geimfarsins verði hvorki undir- eða yfirlýstar.

Yfirborð Plútós
Nákvæmustu kort sem gerð hafa verið af Plútó. Myndin er ekki nógu skörp til að leiða í ljós landslag á borð við gíga, fjöll og dali, en sýnir að yfirborðið er fjölbreytt. Appelsínugulleitu og dökku svæðin eru líklega af völdum kolefnis sem situr eftir þegar útfjólublátt ljós frá sólinni brýtur niður metanís á yfirborðinu. Mynd: NASA, ESA, og M. Buie (Southwest Research Institute)  

Lofthjúpur

Þegar Plútó nálgast sólnánd hitnar hrímlagið og gufar að einhverju leyti upp. Þá myndast örþunnur lofthjúpur sem frýs síðan aftur eftir því sem Plútó færist fjær sólu, og þá snjóar lofthjúpurinn á yfirborðið. Þannig er lofthjúpurinn mestmegnis frosinn þegar Plútó er hvað fjærst sólu.

Lofthjúpurinn fannst árið 1988 þegar Plútó gekk fyrir stjörnu í bakgrunni (svokallaður stjörnumyrkvi (e. occultation)) og ljósstyrkur hennar var mældur í þann mund sem hún hvarf á bak við Plútó. Ljósið minnkaði ekki snögglega, eins og búast má við ef enginn lofthjúpur er til staðar, heldur dofnaði hún smám saman. Litrófsmælingar benda til þess að hann sé líklega 98% nitur, 1,5% metan og 0,5% koldíoxíð. Lofthjúpurinn er e.t.v. um 60 km þykkur og loftþrýstingurinn mjög lágur, líklega milli 3-40 míkróbör, sem er 100.000 sinnum minna en við yfirborð sjávar á jörðinni.

Árið 2002 myrkvaði Plútó á ný stjörnu frá jörðu séð. Stjörnufræðingar nýttu þá tækifærið og beindu sjónaukum sínum að Plútó. Í ljós kom að loftþrýstingurinn á yfirborðinu væri um 0,3 Pascal, þrátt fyrir að Plútó væri lengra frá sólu en 1988 og ætti því að vera örlítið þynnri. Ein útskýring á þessu er sú að árið 1987 kom suðurpóll Plútós úr skugga í fyrsta sinn í 120 ár. Það olli því að auka nitur steig upp af pólhettunni og þykkti lofthjúpinn. Þetta nitur verður nokkra áratugi að þéttast í lofthjúpnum og falla aftur niður á yfirborðið.

Lofthjúpur Pútós er eitt meginrannsóknarefni New Horizons geimfarsins sem heimsækir dvergreikistjörnuna í júlí 2016.

Þegar Plútó gengur fyrir fastastjörnu í bakgrunni, myrkvast stjarna frá jörðu séð. Með því að skoða ljósferil stjörnunnar er Plútó gengur fyrir hana er hægt að afla ýmissa upplýsinga um lofthjúp, sé hann til staðar. Í júní 1988 gekk Plútó fyrir stjörnu og myrkvaði hana frá jörðu séð. Þá komu fram fyrstu beinu vísbendingarnar um lofthjúp Plútós. Í stuttan tíma við upphaf og enda myrkvans var ljósstyrkur stjörnunnar í bakgrunni mældur og kom þá í ljós að birtan minnkaði ekki snögglega, heldur dró smátt og smátt úr henni. Það bendir til að lofthjúpur sé til staðar.
(Mynd: Hubbard, Yelle og Lunine, Icarus, v. 84, p. 1, 1989; Elliot o.fl.,
Icarus, v. 77, p. 148, 1989)

Fylgitungl

Umhverfis Plútó ganga þrjú fylgitungl þau Karon, sem er stærst, og auk þess smátunglin Nix og Hýdra sem fundust árið 2005.

Karon

Karon er stærst af þremur þekktum fylgitunglum Plútós og eitt stærsta tungl sólkerfisins sé miðað við stærð móðurreikistjörnunar. Munurinn milli þessara tveggja hnatta er raunar svo lítill að margir stjörnufræðingar kalla tvíeykið tvíreikistjörnu. Þvermál Karons er 50% af þvermáli Plútós eða milli 1207 og 1212 km og er hann átta sinnum massaminni.

Karon fannst fyrir slysni í júní 1978 þegar stjörnufræðingarnir James Christy og Robert Harrington (báðir við stjörnustöð bandaríska sjóhersins) voru að rannsaka ljósmyndir af Plútó í von um að bæta þekkingu okkar á braut þessa fjarlægar hnattar.

Fjarlægð Karons frá Plútó er aðeins 19.640 km, en til samanburðar er fjarlægðin milli jarðar og tunglsins í kringum 380.000 km. Snúningur Karons umhverfis Plútó er bundinn þannig að sama hlið beggja hnatta snýr ætíð að hvor annarri. Þetta þýðir að snúningstíma beggja hnatta og umferðartími Karons er sex dagar, níu klukkustundir og sautján mínútur eða 6,387 dagar. Geimfari á yfirborði Plútós sæi Karon aðeins frá annarri hlið reikistjörnunni en aldrei hinni sama hversu lengi hann beði eftir því. Á þeirri hlið Plútó sem snýr að Karon er tunglið sjö sinnum stærra á himninum en tunglið okkar séð frá jörðinni (þótt það sé miklu minna er það mun nær). Þar að auki svifi Karon alltaf á sama stað, hreyfingarlaus á himninum án þess að rísa hvorki né setjast, en ganga engu að síður í gegnum kvartilaskipti á 6,4 dögum. Hinum megin á Plútó rís tunglið aldrei yfir sjóndeildarhringinn.

Sjá nánar: Karon

Nix og Hýdra

Þann 31. október 2005, tilkynntu stjörnufræðingar um fund á tveimur agnarsmáum tunglum á sveimi í kringum Plútó. Þessi tungl voru til bráðabirgða kölluð S/2005 P1 og S/2005 P2 en fengu nöfnin Nix og Hýdra árið 2006. Tunglin fundust á myndum sem teknar voru með Hubblessjónaukanum í 15. og 18. maí árið 2005.

Lítið er vitað um þessi tungl annað en að bæði eru á næstum hringlaga brautum umhverfis Plútó, í sama brautarfleti og Karon, en mun utar eða í tæplega 49.000 og 64.000 km fjarlægð frá Plútó. Sé fjarlægðin rétt áætluð er umferðartími þeirra (sá tími sem það tekur þau að ljúka einni hringferð um Plútó) um það bil 25 og 38 dagar.

Stærð tunglanna er ekki heldur vel þekkt en margt bendir til að Nix sé á bilinu 110 til 160 km í þvermál en Hydra sé 100 til 140 km í þvermál.

Sjá nánar: Nix og Hýdra

Könnun Plútós

Enn sem komið er hefur ekkert geimfar heimsótt Plútó. Það mun þó senn breytast því í janúar árið 2006 sendi NASA af stað leiðangur sem nefnist New Horizons áleiðis til Plútó og Karons og þaðan út til Kuipersbeltisins.

Verkefnið er hannað til að hjálpa okkur að skilja útverði sólkerfisins og verður fyrsta könnunarferðin að fyrirbæri úr Kuipersbeltinu. Geimfarið mun fljúga framhjá Júpíter í febrúar 2007 og koma til Plútó í júlí 2015 og þaðan heldur það út í Kuipersbeltið. Verkefnu er stjórnað af Stofnun John Hopkins-háskólans í nytjaeðlisfræði í Maryland í Bandaríkjunum.

Hvað skyldi New Horizons sjá þegar það flýgur framhjá Plútó í júlí 2015?
Sjá nánar: New Horizons

Tölulegar upplýsingar

Meðalfjarlægð frá sólu: 5.916.000.000 km = 39,54 SE
Mesta fjarlægð frá sólu:
7.389.000.000 km = 49,39 SE
Minnsta fjarlægð frá sólu:
4.442.000.000 km = 29,70 SE
Miðskekkja brautar:
0,249
Meðalbrautarhraði um sólu: 4,7 km/s
Umferðartími um sólu: 248,5 jarðár
Snúningstími: 6,387 dagar
Möndulhalli: 119,6°
Brautarhalli:
17,14°
Þvermál:
2.274 km
Massi:
1,3 x 1022 kg
Massi (jörð=1):
0,02
Eðlismassi:
2,05 g/cm3
Þyngdarhröðun:
0,58 m/s2 (0,059 g)
Lausnarhraði: 1,2 km/s
Meðalhitastig yfirborðs:
-230°C
Hæsti yfirborðshiti: -220°C
Lægsti yfirborðshiti:
-240°C
Endurskinshlutfall:
0,49-0,66
Sýndarbirtustig: +15
Hornstærð: 0,065" til 0,115"
Loftþrýstingur við yfirborð:
0,30 Pa (hámark)
Efnasamsetning lofthjúps: Nitur (N2)
  Metan (CH4)

Myndir:

Plútó og Karon borin saman við Bandaríkin

Þessi mynd sýnir stærð Plútó og Karon borin saman við mynd af Bandaríkjunum. Myndin af Plútó er byggð á myndum sem Hubblesjónaukinn tók í júní og júlí 1994.
(Mynd: Calvin J. Hamilton)

Plútó og Karon

Þetta er ein skýrasta myndin sem til er af Plútó og Karon en hana tók Hubblesjónaukinn þann 21. febrúar 1994. Plútó var þá í 4,4 milljarða km fjarlægð frá jörðu. Myndin var tekin þegar Karon var 0,9 bogasekúndur frá Plútó.

Með þessari mynd gátu stjörnufræðingar mælt að þvermál Plútós er 2320 km og Karons er 1270 km (skekkjumörkin eru innan við 1%).

Rannsóknir Hubbles sýna að Karon er blárri en Plútó sem þýðir að hnettirnir hafa ólíka yfirborðssamsetningu og byggingu.
(Mynd: NASA/ESA/ESO)

Plútó

Hubblesjónaukinn tók þessar myndir af Plútó. Á þeim sést í fyrsta skipti yfirborðið á þessari fjarlægu reikistjörnu. Myndirnar voru unnar úr bláu ljósi og sýna stórbrotnar birtubreytingar víðsvegar á yfirborðinu. Ástæðan gæti verið dældir eða árekstrargígar. Andstæð hvel Plútó sjást á þessum myndum. Litlu myndirnar eru einnig af Plútó en á þeim má sjá tólf stór svæði þar sem yfirborðið er annað hvort bjart eða dökkt.
(Mynd: NASA/ESA/ESO)

Kort af yfirborði Plútó

Hér sést fyrsta kortið af yfirborði Plútós. Kortið nær yfir 85% af yfirborði reikistjörnunnar og staðfestir að Plútó hefur dökkt miðbaugsbelti og bjartar pólhettur, en myrkvarannsóknirnar frá 9. áratugnum höfðu einmitt bent til þess. Birtubreytingarnar eru líklega tilkomnar vegna dælda og árekstrargíga á yfirborðinu.
(Mynd: NASA/ESA/ESO)

Plútó meðal stjarnanna

Hér sést Plútó færast fyrir tvær stjörnur þann 20. júlí 2002. Þegar þetta gerist varpar Plútó skugga á jörðina sem veldur því að stjarnan sést ekki. Hægt er að nýta atburð eins og þennan til að læra ýmislegt um hinn örþunna lofthjúp sem umlykur plánetuna.

Myndin var tekin með hinum 8,2 metra breiða Yepun-sjónauka, sem er einn VLT-sjónaukanna (Very Large Telescope) á tindi Cerro Paranal-fjallsins í Atacama-eyðimörkinni í norðurhluta Síle. Eyðimörkin er talin einn þurrasti staður jarðar.
(Mynd: ESO/VLT)

 

Plútó með augum Norræna stjörnusjónaukans

Þessi mynd sýnir Plútó í gegnum Norræna stjörnusjónaukann, sem staðsettur er í um 2500 metra hæð á La Palma, einni Kanaríeyja. Sjónaukinn er fjármagnaður af öllum Norðurlöndunum, þar á meðal Íslandi. Þessi mynd er gott dæmi um bestu mögulega myndirnar sem hægt er að taka frá jörðu.
(© Nordic Optical Telescope)

Lykilorð:

dvergreikistjarna
stjörnumyrkvi
bundinn möndulsnúningur

Spurningar:

  1. Hvers vegna fellur Plútó ekki í hóp reikistjarna?
  2. Eru einhverjir aðrir hnettir sem líkjast Plútó í sólkerfinu?
  3. Hvers vegna geta Neptúnus og Plútó aldrei rekist saman þótt Plútó skeri braut Neptúnusar?
  4. Hvernig vitum við Plútó er með lofthjúp?

Heimildir:

  1. Freedman, Roger og Kaufmann, William. 2004. Universe, 7th Edition. W. H. Freeman, New York.
  2. Beatty, J. Kelly; Petersen, Carolyn Collins og Chaikin, Andrew (ritstj.). 1998. The New Solar System. Cambridge University Press, Massachusetts.
  3. McFadden, Lucy-Ann; Johnson, Torrence og Weissman, Paul (ritstj.). 2006. Encyclopedia of the Solar System. Academic Press, California.
- Sævar Helgi Bragason
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook