Velkomin í sólkerfið Haumea, Hi’iaka og Namaka!

Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

18. september 2008

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Þann 17. september útnefndi Alþjóðasamband stjarnfræðinga (IAU) útstirnið 2003 EL61 fimmtu dvergreikistjörnu sólkerfisins. Hlaut hnötturinn við það tilefni nafnið Haumea og bætist því við sívaxandi hóp dvergreikistjarna, sem Ceres, Plútó, Eris og Makemake skipa nú þegar. Haumea er mjög óvenjuleg dvergreikistjarna svo ekki sé dýpra í árinni tekið enda minnir hún frekar á amerískan fótbolta en hefðbundinn kúlulaga hnött.

Haumea fannst á myndum sem stjörnufræðingarnir Mike Brown, David Rabinowitz og Chad Trujillo tóku þann 28. desember 2004, en tilkynnt var um uppgötvunina hálfu ári síðar eða í júlí 2005. Haumea tilheyrir svonefndum útstirnum, hópi tiltölulega smárra íshnatta handan brautar Neptúnusar. Þessi útstirni eru því óralangt frá sólu en þannig er Haumea um 35 sinnum lengra frá sólu en jörðin þegar minnst er, en yfir 50 sinnum fjarlægari þegar mest er (5,26 til 7,7 milljarða km fjarlægð).

Haumea er afar sérkennilegur hnöttur svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Til þess að geta flokkast sem dvergreikistjarna þarf hnötturinn að vera nógu stór (nógu massamikill) til þess að eigin þyngdarkraftur hnoði hann saman í kúlu, en er samt ekki það stór að hann yfirgnæfi nánasta umhverfi sitt, líkt og hinar eiginlegu reikistjörnur gera. Haumea er fjarri því að vera kúlulaga og minnir raunar miklu frekar á amerískan fótbolta, eða jafnvel eins og þversnið af M&M nammi. Ástæðan þessarar einkennilegu lögunar er sú að Haumea snýst mjög hratt um möndul sinn. Þannig er einn dagur á Haumea aðeins 3,9 klukkustunda langur og þeir hnettir sem snúast svona hratt eru gjarnan talsvert feitari við miðbaug en pólanna. Haumea flest því út af sömu ástæðu og pizzadeig sem hent er upp í loftið stækkar við jaðrana.

Haumea snýst mjög hratt um möndul sinn sem veldur því að hnötturinn aflagast og minnir frekar á amerískan fótbolta. Þessi mynd er tölvulíkan af lögun Haumea. Mynd: Mike Brown.

Haumea er nefnd eftir gyðju fæðinga og frjósemi í goðafræði Hawaiieyja. Nafnið á vel við því Haumea er líka jarðgyðja þar sem hún táknar bergið. Athuganir benda nefnilega til þess að Haumea sé að mestu úr bergi með ísskorpu sem er harla óvenjulegt þegar um útstirni er að ræða þar sem flest þeirra er mestmegnis úr ís.

Samkvæmt goðafræði Hawaiieyja spruttu mörg önnur goðmögn úr mismunandi líkamshlutum Haumea. Dvergreikistjarnan Haumea hefur svipaða sögu að segja því á sveimi um hana eru tungl sem urðu þegar hluti hnattarins þeyttist út í geiminn við stóran árekstur í fyrndinni.

Stærra tunglið hlaut nafnið Hi’iaka eftir verndargyðju Hawaiieyja sem varð til úr munni Haumeu og var sögð hafa stigið fyrsta Hula dansinn á strönd Puna á Hawaiieyju (sem er betur þekkt sem Big Island). Smærra tunglið var nefnt Namaka eftir vatnsgyðjunni sem sögð var hafa orðið til úr líkama Haumeu. Þær Hi’iaka og Namaka eru systur eldgyðjunnar Pele og þegar hún sendir glóandi hraunið sitt út í hafið, kælir systir hennar Namaka það svo úr verður nýtt land.

Ítarlegri grein um þessa nýju dvergreikistjörnu er væntanlega á Stjörnufræðivefinn innan tíðar. Á meðan bjóðum við Haumea, Hi’iaka og Namaka velkomin í sólkerfið!

Viltu vita meira?

Heimildir

  • News Release - IAU0807: IAU names fifth dwarf planet Haumea
  • Mike Brown's Planets: Haumea
- Sævar Helgi Bragason

 

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook