Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Síur fyrir stjörnuskoðunina

Efnisyfirlit

Bestu aukahlutir sjónauka eru augngler en án þeirra væri sjónaukinn gagnslaus. Bestu aukahlutirnir fyrir augngler eru aftur á móti góðar síur og geta þær skipt sköpum þegar verið er að skoða dauf fyrirbæri á himninum. Síur hleypa aðeins í gegnum sig ákveðinni öldulengd ljóssins, eftir því hvernig síu er um að ræða, og draga þannig úr ljósinu sem kemst að auga þínu. Þannig er hægt að draga fram smáatriði á reikistjörnum eða í stjörnuþokum sem ella sæjust illa eða alls ekki. Rauð sía dregur til dæmis úr öllum öldulengdum ljóssins nema rauðri. Það þýðir að ef þú horfir í gegnum rauða síu á fyrirbæri eins og Mars, sem er að mestu rauður á litin, verður hann mjög rauðleitur og svæði sem ekki eru rauð á litin sjást skýrar vegna þess að sían skerpir þau.

Stjörnuáhugamenn nota gjarnan nokkrar tegundir af síum, sem hver þjónar sínum tilgangi:

  • Sólarsíur eru notaðar til að draga verulega úr ljósinu frá sólinni, svo unnt sé að skoða hana með öruggum hætti.

  • Tunglsíur eru notaðar til þess draga úr birtu ljóssins frá tunglinu enda er það afar bjart. Þannig er hægt að skerpa á smáatriðum sem sjást á yfirborðinu.

  • Reikistjörnusíur (litsíur) eru notaðar til að draga fram smáatriði á yfirborðum eða í lofthjúpum reikistjarnanna.

  • Ljósmengunarsíur draga úr glýjunni frá borgarljósunum, dekkja himininn þegar stjörnuskoðun er stunduð frá ljósmenguðum stöðum.

  • Þokusíur eru notaðar til að auka skerpuna þegar verið er að skoða þokur.

Þegar síur eru notaðar er mikilvægt að skoða svokallaða VLT-tölu sem stendur á síunum. VLT stendur fyrir Visible light transmission og lýsir talan ljósmagninu sem sían hleypir í gegn. Því lægri sem talan er þeim mun dimmari verður myndin. Ekki er mælt með notkun á síum sem hafa VLT-tölu innan við 40% með sjónauka sem hefur innan við 15 cm (6 tommu) ljósop.

Flestar síur eru skrúfaðar aftan á augnglerin. Þær eru merktar með sérstöku Kodak Wratten-númeri sem notað er í ljósmyndun. Wratten #80A reikistjörnusía er þannig af sama lit og Wratten ljósmyndasía #80A.

Mikilvægir þættir til að greina betur smáatriði

Þótt síur gagnist vel í stjörnuskoðunina er mikilvægt að taka fram að nokkra þjálfun þarf til þess að greina smáatriði. Þessi þjálfun krefst þolinmæði af stjörnuskoðandanum. Sá sem skoðar næturhiminninn verður að gefa sér góðan tíma til þess.

Fyrir utan þetta verður sjónaukinn að fá sinn tíma til að kólna, en algengt er að það taki 20 til 40 mínútur. Eftir það ætti sjónaukinn að sýna skírar myndir. Öll truflun af ljósmengun hefur áhrif og því nauðsynlegt að koma sér sem lengst frá henni. Að lokum er nauðsynlegt er að venjast myrkrinu og tekur það augun venjulega um 20 til 30 mínútur.

Sumar síur henta ekki fyrir allar tegundir sjónauka. Virkni síanna veltur á nokkrum þáttum, þar á meðal stærð ljósops og brennivídd sjónaukans, stækkunina sem verið er að nota og skoðunaraðstæður hverju sinni.

Sólarsíur

Það er auðvelt að gera sér í hugarlund hvers vegna síur eru nauðsynlegar fyrir sólskoðun. Á sólríkum degi nota margir sólgleraugu til að draga úr styrk sólarljóssins og verja þannig augun í sér. Sólgleraugun hleypa minna sólarljósi í gegnum sig og dekkja flesta liti.

Sólarsíurnar sem við bjóðum upp á frá Orion eru úr gleri sem gefur bjarta, skýrar og skarpa mynd. Í gegnum sólarsíuna er sólin gulleit á litin og himinninn í bakgrunni er kolsvartur. Sían hleypir einungis í gegnum sig 100.000 hluta (0,001%) af sólarljósinu í gegnum sig, drekkur í sig allt útfjólublátt ljós og endurkastar innrauðu ljósi burt sem gerir hana mjög örugga.

Með sólarsíum getur þú séð smáatriði í sólblettum og flekkótt svæði sem kallast sólýrur. Sólin tekur sífelldum breytingum svo mjög gaman getur verið að skoða hana frá degi til dags. Stærð sjónauka skiptir þar litlu máli.

Til eru sérstakir sólarsjónaukar sem eingöngu eru ætlaðir til sólskoðunar og eru þeir að jafnaði mun dýrari en hefðbundnar sólarsíur. Munurinn er sá að sían í sólarsjónaukunum hleypir aðallega í gegn vetnis-alfa geislun frá vetni í lithvolfi sólarinnar. Þar sjást t.d. sólstrókar sem ekki er hægt að greina með hefðbundnum sólarsíum.

Sólarsíur eru ekki settar á augnglerin heldur framan á sjónaukana og þar sem sólskoðun krefst sérstakrar árvekni er nánar fjallað um sólarsíur hér.

Sjá nánar: Að skoða sólina

Tunglsíur

Tunglsía fæst hjá Sjónaukar.is

Tunglsíur eru nokkurs konar sólgleraugu fyrir sjónaukann. Þegar tunglið er fullt er það ansi bjart og erfitt að skoða það mjög lengi. Tunglsíur draga úr glýjunni, draga fram smáatriði á yfirborðinu og auka skerpuna. Til eru tvær tegundir af tunglsíum: síur með hlutlausan þéttleika (e. neutral density) og skautaðar (e. polarizing).

Síur með hlutlausan þéttleika draga ákveðið úr ljósinu sem kemur frá tunglinu. Þær eru misþéttar og hleypa þar af leiðandi mismiklu ljósi í gegn. Sía með háan þéttleika dregur mest úr ljósinu á meðan sía með lágan þéttleika hleypir meira ljósi í gegn.

Skautaðar síur eru stillanlegar sem gerir manni kleift að hleypa mismiklu ljósmagni í gegn. Þetta þýðir að einungis ein sía er nauðsynleg til að fá mismikið ljós. Skautaðar síur koma oft tvær í pakka því þegar þeim er snúið hvor á aðrar breytist ljósmagnið sem þær hleypa í gegn.

Hafi sjónaukinn þinn hornspegil (e. diagonal), eins og linsusjónaukar og linsu- og spegilsjónaukar hafa, getur þú fest eina skautaða síu á augnglerið og aðra á hornspegilinn. Með því að snúa augnglerinu þegar þú skoðar tunglið getur þú stillt birtuna þannig að þér þykir þægilegast.

Reikistjörnusíur - litsíur

Í stórum sjónaukum geta reikistjörnurnar Venus, Júpíter og Mars stundum orðið svo bjartar að erfitt getur reynst að greina á þeim smáatriði. Þar að auki er lofthjúpur jarðar á stöðugri hreyfingu sem gerir fíngerð smáatriði óskýrari. Þess vegna nota stjörnuáhugamenn oft reikistjörnusíur til að draga örlítið úr birtunni án þess þó að skerða upplausnina. Megintilgangur reikistjörnusía er því að skerpa á smáatriðum þegar verið er að skoða reikistjörnurnar. Af þessari ástæðu koma reikistjörnusíur í nokkrum litum og eru þar af leiðandi stundum kallaðar litsíur.

Litsía hleypir einungis í gegnum sig tilteknum lit en síar burt alla aðra liti. Rauð sía hleypir þannig einungis í gegn ljósi frá rauða hluta litrófsins en ekki bláu eða grænu. Ef smáatriði á reikistjörnu hefur ákveðinn lit má skerpa á því með því að nota síu af sama lit. Sem dæmi eru skýin á Mars venjulega bláleit. Ef þú skoðar Mars með ljósblárri síu kemst bláa ljósið frá skýjunum í gegn á meðan appelsínugult eða brúnleitt ljós frá yfirborðinu kemst ekki í gegn. Skýin verða þar með skarpari.

Það er ekki nauðsynlegt að eignast allar síurnar til að skoða reikistjörnurnar. Hér fyrir neðan er listi yfir litsíur sem algengastar eru í stjörnuskoðun og notkunarmöguleikar.


#8 Ljósgul – 83% VLT
Ljósgul sía eykur smáatriði á dökkum svæðum á Mars. Hún dregur einnig fram smáatriði í skýjabeltum Júpíters, eykur upplausn stórra sjónauka þegar verið er að skoða Neptúnus og Úranus og dregur fram smáatriði á tunglinu í smærri sjónaukum.


#11 Gul-græn – 78% VLT
Gul-græn sía dregur fram dökkleit smáatriði á Júpíter og Satúrnusi. Hún dekkir dökk svæði á Mars og skerpir á smáatriðum á Neptúnusi og Úranusi í stórum sjónaukum.


#12 Gul – 74% VLT
Gul sía hjálpara mikið til í athugunum á Mars og dregur til dæmis fram pólhetturnar, bláleit ský í lofthjúpnum og lýsir og eykur skerpu ljósra svæða á yfirborðinu. Gul sía dregur einnig fram rauð og appelsínugul smáatriði á Júpíter og Satúrnusi og dekkir smáatriði á miðbaugssvæði Júpíters.


#21 Appelsínugul – 46% VLT
Appelsínugul sía eykur skerpuna milli dökkra og ljósra svæða á Mars. Með henni er auk þess auðveldara að koma auga á rykstorma. Sían hjálpar einnig til við að greina Rauða blettinn og eykur skerpu Júpíters.


#23A Ljósrauð – 25% VLT
Ljósrauð sía hjálpar manni við að greina Merkúríus og Venus á bláum himni að degi til. Ljósrauð sía skerpir Mars þegar hún er notuð með stórum sjónaukum. Hún skerpir einnig skýjabelti Júpíters og smáatriði á Satúrnusi.


#25A Rauð – 14% VLT
Rauð sía skerpir mest á kennileitum og smáatriðum á yfirborði Mars, svo sem pólhettum og rykskýjum. Sían dregur líka úr glýju þegar verið er að skoða Venus. Í stórum sjónauka skerpir hún skýin á Júpíter.


#38A Dökkblá – 17% VLT
Dökkblá sía dregur fram ský í lofthjúpi Mars, smáatriði á yfirborðinu og dekki rauð svæði. Dökkblá sía eykur ennfremur skerpu Venusar, Satúrnusar og Júpíters þegar þessar reikistjörnur eru skoðaðar með stórum sjónaukum.


#47 Fjólublá – 3% VLT
Einungis er mælt með notkun á fjólublárri síu þegar stórir sjónaukar eru notaðir. Fjólublá sía dregur fram smáatriði á tunglinu, skerpir hringa Satúrnusar, dekkir skýjabelti á Júpíter og auðveldar athugun á Venusi. Með henni má líka greina pólhetturnar á Mars.


#56 Ljósgræn – 53% VLT
Ljósgræn sía hentar vel til athugana á Mars, hringum Satúrnusar og skýjabeltum Júpíters. Hún virkar einnig vel fyrir athuganir á tunglinu.


#58 Græn – 24% VLT
Dökkgræn sía eykur skerpu á ljósum fyrirbærum í lofthjúpi Júpíters, smáatriðum í lofthjúpi Venusar og pólhettum Mars. Sían auðveldar manni líka að sjá skýjabelti og pólsvæði Satúrnusar.


#80A Blá – 30% VLT
Blá sía dregur fram smáatriði í lofthjúpi Mars og eykur skerpu tunglsins. Hún dregur fram smáatriði í beltum og pólsvæðum Satúrnusar og eykur skerpu ljósra svæða á Júpíters og mörkum skýjabeltanna.


#82A Ljósblá – 73% VLT
Ljósblá sía virkar að mestu leyti á sama hátt og #80A blá en viðheldur birtu myndarinnar. Ljósblá sía hjálpar manni ennfremur að greina smáatriði í vetrarbrautum.

Geta má þess að CCD-myndavélar taka svarthvítar myndir í gegnum rauða, græna og bláa síu. Myndunum er síðan staflað saman og litmynd útbúin.

Það er ekki nauðsynlegt að eignast allar síurnar til að skoða reikistjörnurnar. Hér fyrir neðan er tafla með þeim síum sem sérstaklega er mælt með.

Fyrirbæri

Síur

Athugasemdir

Merkúríus

#25A Rauð

Sýnir Merkúríus í dagsljósi eða við rökkur

 

#21 Appelsínugul

Sýnir kvartilaskiptin með mestu stækkun

Venus

#47 Fjólublá

Dregur úr glýju, auðveldar að sjá kvartilaskipti

 

#58 Græn og #80A Blá (saman)

Dregur úr glýju, auðveldar að sjá kvartilaskipti

Mars

#25A Rauð

   
 

#21 Appelsínugul

Dregur úr glýju og skerpir smáatriði

 

#15 Dökkgul

Dregur fram pólhetturnar

 

#80A Blá

Dregur fram pólhetturnar

 

#58 Græn

 


Júpíter

#11 Gul-græn

Dregur fram skýjabelti, lykkjur og rauða blettinn

 

#80A Blá eða #82 Ljósblá

Dregur fram skýjabelti, lykkjur og rauða blettinn

 

#58 Græn

Dregur fram skýjabelti, lykkjur og rauða blettinn

 

#21 Appelsínugul

Dregur fram skýjabelti, lykkjur og rauða blettinn

Satúrnus

#15 Dökkgul

Eykur smáatriði, skerpir Cassini-geilina

 

#25A Rauð

Sýnir birtumun á hringunum

 

#11 Gul-græn

Sýnir birtumun á hringunum

 

#58 Græn

Sýnir birtumun á hringunum

 

#80A eða #82 Ljósblá

Sýnir betur mörk ljósra og dökkra belta

Eins og fram kemur í umfjöllun Björns Jónssonar um athuganir á Júpíter eru síur afar gagnlegar við athuganir á honum. Án sía er stundum aðeins hægt að greina tvö skýjabelti á Júpíter en með síu koma sjö eða fleiri í ljós. Séu tvær síur notaðar saman er hægt að draga úr glýju. Mörk dökkra og ljósra belta sjást betur ef ljósblá sía (#80A eða 82A) er notuð.

Á Satúrnusi dekkir appelsínugul eða ljósrauð sía (#21 eða 23A) pólsvæðin.

Ljósmengunarsíur

Öll ljósmengun gefur frá sér ljós með ákveðinni öldulengd sem unnt er að sía burt. Ljósmengunarsíur eru því mjög gagnleg vopn í baráttunni við ljósmengun því þær dekkja himinninn og gera þannig kleift að stunda stjörnuskoðun á þokum, þyrpingum og vetrarbrautum frá ljósmenguðum stöðum. Til eru tvær megintegundir af ljósmengunarsíum: breiðbandssíur og mjóbandssíur.

Breiðbandssíur kemur í veg fyrir að allt ljós sem stafar af glóperum, natríum- og kvikasilfursljósum komist í gegn um augngler sjónaukans. Þær hleypa aftur á móti gegn frá vetrarbrautum og ljómþokum (H-alfa, H-beta og OIII-geislun) til dæmis frá Sverðþokunni í Óríon. Breiðbandssíur virka vel fyrir stjörnuskoðun af öllu tagi en mjóbandssíur virka best fyrir hringþokur, til dæmis M57, og ljómþokur eins og M42.

Einnig er hægt að nota breiðbandssíur í stjörnuljósmyndun til að halda ljósmenguninni fyrir utan myndina. Ekki er nauðsynlegt að nota ljósmengunarsíur þegar verið er að skoða reikistjörnurnar frá ljósmenguðum stöðum.

Ljósmengunarsíurnar frá Celestron og Orion eru UHC síur (Ultra High Contrast) sem gefa einstaklega góða skerpu. Þessar síur hentar mjög vel til að skoða hringþokur á borð við M1, M42, M57, M76 og M97 svo nokkur dæmi séu tekin.

Þokusíur

Þokusíur eru afbrigði af ljósmengunarsíum. Þær eru hannaðar til að hleypa ekki í gegn geislun frá ljósmengun, heldur aðeins ljós frá stjörnuþokum. Stjörnuþokur eru risastór gasský á víð og dreif um Vetrarbrautina okkar; svæði þar sem stjörnur fæðast og deyja. Margar stjörnuþokur eru afar fallegar á að líta í gegnum stjörnusjónauka.

Þokusíur eru mjóbandssíur. Það þýðir að þær hleypa einungis í gegn ljósi frá mjóum eða litlum hluta litrófsins. Þetta er vegna þeirrar staðreyndar að þokur senda einungis frá sér ljós af tilteknum hluta litrófsins. Þess vegna hleypa þær að sama skapi ekki í gegn geislun frá ljósmengun.

Stjörnuþokur senda frá sér ljós ákveðnum öldulengdum. Stærstur hluti ljóssins kemur frá græna hluta litrófsins, frá svokallaðri OIII-línunni (Oxygen-III), og á rauða enda litrófsins, frá svonefndri H-alfa línu. Ljós frá OIII-línunni kemur frá súrefnisatómum í gasskýinu en þar sem þokur eru að stærstum hluta úr vetni, líkt og meirihluti alheimsins, kemur ljósið að mestmegnis frá vetnisatómum eða með svokallaðri H-alfa geislun.

Augu okkar eru mjög ónæm fyrir rauðu ljósi í litlu magni, líkt og frá vetninu í þessum daufu þokum. Þess vegna virðast allar þokur, sem eru rauðar eða bleikar á myndum, út fyrir að vera gráleitar í gegnum sjónauka. Augu okkar eru hins vegar mjög næm fyrir gul-grænu ljósi svo margar stjörnuþokur, til dæmis Sverðþokan í Óríon, virðast vera grænar á litinn í gegnum sjónauka. Vinsælasta þokusían er því OIII-sía.

Þokusíur gera þokurnar ekki bjartari heldur deyfa þær aðeins. Að sama skapi dekkja þær himinninn í bakgrunni sem veldur því að skerpan eykst og stendur þokan út úr. Á þennan hátt er mögulegt að greina fleiri smáatriði. Síurnar geta haft mikil áhrif en mikilvægt er að temja sér nokkrar reglur þegar þær eru notaðar. Augun þurfa að hafa aðlagast myrkrinu áður en sían er notuð og maður verður að vera viss um að hún hleypir ekki í gegn neinu ljós frá nálægum götuljósum, þær virka með öðrum orðum langbest undir mjög dimmum himni.

Mjóbandssíur henta ekki vel til athugana á vetrarbrautum og endurskinsþokum.

Fjárfestu í síum

Þökk sé síum getum við notið þess að virða fyrir okkur sólbletti á bjartasta fyrirbæri himinsins eða tættra og daufra leifa sprunginna stjarna. Jafnvel þótt þú stundir ekki stjörnuskoðun að staðaldri geta þær nýst þér afar vel. Síur bæta nánast alltaf athuganir þínar.

Hjá Sjónaukar.is er hægt að kaupa margar tegundir af síum frá Celestron og Orion. Margir freistast til þess að safna þeim öllum þótt þess þurfi ekki. Við mælum með því að þú fjárfestir í sólarsíu fyrir sjónaukann þinn, OIII eða UHC síu, tunglsíu og pakka sem inniheldur fjórar reikistjörnusíur.

Heimildir:

  1. Terence Dickinson. Nightwatch: A Practical Guide to Viewing the Universe.
  2. Terence Dickinson og Alan Dyer. The Backyard Astronomer's Guide.
  3. David Kinsley. Filter Performance Comparisons for Some Common Nebulae
  4. Filters Filters Filters - How Different Filters Can Better Your View
  5. Starizona: Adventures in Astronomy and Nature
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook