Sólkerfið
Juno

Juno (geimfar)

 • Juno, Júpíter
  Geimfarið Juno við Júpíter

Juno er fyrirhugaður ómannaður rannsóknarleiðangur NASA til Júpíters. Geimfarinu verður skotið á loft mað Atlas V eldflaug í ágúst 2011 og komast á braut um Júpíter árið 2016.

Helstu upplýsingar
Skotið á loft: ágúst 2011
Brautarinnsetning:
2016
Eldflaug:
Atlas V
Tegund:
Brautarfar
Hnöttur:
Júpíter
Geimferðastofnun: NASA
Heimasíða:
Juno

Juno er hluti af New Frontiers verkefni NASA sem gengur út á meðalstóra könnunarleiðangra út í sólkerfið. Fyrsti leiðangurinn í þessu verkefni er New Horizons geimfarið sem flýgur framhjá Plútó árið 2015.

Ferðalagið til Júpíters

Juno er stórt og þungt geimfar. Ekki er til nægilega kröftug eldflaug til að koma því beina leið til Júpíters. Eftir geimskot í ágúst 2011 fer Juno fyrst á sporöskjulaga braut um sólina. Í október 2013 flýgur geimfarið framhjá jörðinni, stelur hverfiþunga til að auka hraðann svo það drífi til Júpíters. Fyrir vikið hægir pínulítið á snúningi jarðar.

Árið 2016, eftir fimm ára ferðalag, kemst Juno loks á braut um Júpíter. Brautin verður sporöskjulaga, um póla Júpíters og umferðartíminn ellefu dagar. Árlega hringsólar Juno því 32 sinnum umhverfis Júpíter. Sporöskjulaga pólbrautin gerir stjörnufræðingum kleift að rannsaka uppbyggingu innviða Júpíters, dýpri lög lofthjúpsins og segulhvolfið. Með mælitækjum sínum mun Juno mæla magn súrefnis í reikistjörnunni, fylgjast með staðbundum breytingum á vatns- og ammóníakmagni sem rekja má til veðurfarsins. Juno mun auk þess rannsaka þau ferli sem knýja áfram hringrás lofthjúpsins.

Stjörnufræðingar geta kortlagt þyngdarsvið Júpíters með því að fylgjast nákvæmlega með breytingum á braut Junos þegar geimfarið gengur umhverfis reikistjörnuna. Pólbrautin gerir stjörnufræðingum kleift að kortleggja þyngdarsvið hans nákvæmlega með þessum hætti. Kortlagning á þyngdarsviðinu segir til um massadreifingu í innviðum hans og leiðir þannig í ljós upplýsingar um kjarna Júpíters og innri byggingu.

Mælitæki

Um borð í Juno eru átta mælitæki:

Microwave Radiometer (MWR)

Jovian Infrared Auroral Mapper (JIRAM)

Fluxgate Magnetometer (FGM)

Advanced Stellar Compass (ASC)

Jovian Auroral Distribution Experiment (JADE)

Jovian Energetic Particle Detector Instrument (JEDI)

Radio and Plasma Wave Sensor (WAVES)

Ultraviolet Imaging Spectrograph (UVS)

JunoCam

Sólarhlöð

Juno er fyrsta geimfarið sem notar sólarrafhlöður til raforkuframleiðslu við Júpíter. Hingað til hafa öll geimför sem heimsótt hafa Júpíter framleitt orku í kjarnaofni. Framfarir í tækninni síðustu ár gerir þetta mögulegt, en áður þótti ekki fýsilegt að nota sólarrafhlöður í meira en 5 stjarnfræðieininga fjarlægð.

Við Júpíter er sólarljósið 27 sinnum daufara en í innra sólkerfinu. Þess vegna þarf mjög stórar sólarrafhlöður til að framleiða nægjanlega orku. Á Juno verða því þrjár einingar af sólarrafhlöðum, sem hver um sig er um 2 metra breið og 9 metra löng; samanlagt 60 fermetrar af sólarrafhlöðum. Á tveimur einingum eru fjórar sólarrafhlöður, en á þrjár á einni þeirra því segulmælirinn er fastur á henni, eins og sjá má á myndinni. Við jörðina framleiða sólarrafhlöðurnar 18 kílówött en rétt yfir 400 wött á braut um Júpíter.

Heimildir

 • Heimasíða Juno leiðangursins

Hvernig vitna skal í þessa grein

 • Sævar Helgi Bragason (2010). Juno. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/geimferdir/juno (sótt: DAGSETNING).Leita á vefnum


 

Fleygar setningar

- Carl Sagan

„Ef þú vilt baka eplaköku frá grunni þarftu fyrst að finna upp alheiminn.“
 

Vinir okkar

 • Hugsmiðjan
 • Sjónaukar.is
 • Portal To The Universe
 • Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness
 • Vísindavefurinn
 • Hubble spacetelescope
 • European Southern Observatory - ESOPóstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica