Sólkerfið
Hellas dældin

Hellas dældin á Mars

Hellas Planitia

  • hellas dældin, hellas planitia
    Hellas dældin á Mars er risavaxinn árekstragígur

Hellas-dældin er risavaxinn árekstragígur á suðurhveli Mars. Dældin er um 2.300 km í þvermál (vegalengdin milli Reykjavíkur og Berlínar!) og því meðal stærstu árekstradælda sólkerfisins. Talið er að Hellas hafi myndast fyrir meira en 3,9 milljörðum ára þegar stórt smástirni varð í vegi fyrir Mars. Við áreksturinn kastaðist gríðarlegt magn efnis upp úr skorpunni sem bæði þaut út í geiminn og lenti aftur á yfirborðinu. Efnismagnið nægði til að þekja Bandaríkin með 3,5 km þykku lagi. Við áreksturinn mynduðust ennfremur sterkar höggbylgjur sem urðu sennilega til þess að eldfjallið Alba Patera á gagnstæðri hlið varð til.

Hellas-dældin sést nokkuð auðveldlega frá jörðinni í gegnum litla áhugamannasjónauka (helst 6 tommur og stærri). Dældin sést þá sem stórt ljósleitt svæði sem sker sig nokkuð frá dökkleitari landsvæðum í kring. Hellas dældin var raunar eitt fyrsta kennileitið sem menn sáu á yfirborði Mars ásamt Syrtis Major enda stór og áberandi. Ítalski stjörnufræðingurinn Giovanni Schiaparelli nefndi dældina Hellas sem þýðir Grikkland.

Dældin er talsvert djúp en hæðarmunurinn milli gígbrúnarinnar og botnsléttunar er rúmir níu km. Frá meðalhæð yfirborðsins niður á botn dældarinnar eru hins vegar sjö km en engu að síður en Hellas dældin lægsti staður Mars. Á botni dældarinnar er 89% hærri loftþrýstingur en við meðalhæð yfirborðsins eða um 11,6 millíbör á móti 6 millíbörum. Við slíkan loftþrýsting gæti vatn haldist fljótandi um skamma stund ef lofthitinn færi yfir 0°C.

Árið 1971 brotlenti sovéska könnunarfarið Mars 2 í Hellasdældina og varð um leið fyrsta geimfarið sem komst að yfirborði Mars.

hellas dældin, hellas planitia
Hæðarkort MOLA í Mars Global Surveyor sýnir hér Hellasdældina á suðurhveli Mars. Fyrir ofan er þverskurður dældarinnar sem sýnir stærðin og dýpið.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Hellas dældin á Mars. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/mars/hellas-daeldin (sótt: DAGSETNING).
Leita á vefnum


 

Fleygar setningar

- Gylfaginning, 8. kafli

Sól það né vissi - hvar hún sali átti,
máni það né vissi - hvað hann megins átti,
stjörnur það né vissu - hvar þær staði átti.

 

Vinir okkar

  • Hubble spacetelescope
  • Portal To The Universe
  • European Southern Observatory - ESO
  • Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness
  • Vísindavefurinn
  • Sjónaukar.isPóstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica