Sólkerfið
Karon

Karon (fylgitungl Plútó)

 • Plútó, Karon
  Plútó og Karon

Karon er stærst af þremur þekktum fylgitunglum Plútós og eitt stærsta tungl sólkerfisins sé miðað við stærð móðurreikistjörnunar. Munurinn milli þessara tveggja hnatta er raunar svo lítill að margir stjörnufræðingar kalla tvíeykið tvíreikistjörnu. Þvermál Karons er 50% af þvermáli Plútós eða milli 1.207 og 1.212 km og er hann átta sinnum massaminni.

Tölulegar upplýsingar
Uppgötvað af:
James Christy
Uppgötvuð árið:
22. júlí 1978
Meðalfjarlægð frá Plútó: 19.571 km
Umferðartími um Plútó: 6dagar 9klst 17mín
Snúningstími: Bundinn möndulsnúningur
Þvermál:
1.172 km
Massi:
1,51 x 1021 kg
Massi (jörð=1):
0,00025
Eðlismassi:
1,65 g/cm3
Þyngdarhröðun:
0,278 m/s2
Lausnarhraði: 0,58 km/s
Meðalhitastig yfirborðs:
-230°C
Endurskinshlutfall:
0,36-0,39
Sýndarbirtustig:
+16,8
Hornstærð:
0,0055"

Tilgátur hafa verið settar fram sem gefa til kynna að Karon hafi myndast við risaárekstur fyrir um 4,5 milljörðum ára, á svipaðan hátt og tungl jarðarinnar myndaðist. Stjörnufræðingar telja að stór hnöttur úr Kuipersbeltinu hafi rekist á Plútó, tvístrast og þeytt burtu stórum hluta af ytri möttli Plútós. Úr afgangsleifunum myndaðist svo Karon. Slíkur árekstur hefði þó sennilega haft í för með sér að efnasamsetning hnattanna væri aðeins ólíkari, þ.e. að Karon hefði meiri ís en Plútó meira berg.

Uppgötvun

Karon fannst fyrir slysni í júní 1978 þegar stjörnufræðingarnir James Christy og Robert Harrington (báðir við stjörnustöð bandaríska sjóhersins) voru að rannsaka ljósmyndir af Plútó í von um að bæta þekkingu okkar á braut þessa fjarlægar hnattar. Þeir Christy og Harrington voru því ekki í leit að neinum fylgihnetti.

Þegar Christy skoðaði myndina gaumgæfilega tók hann eftir bungu sem virtist skaga út úr annarri hlið Plútós. Í fyrstu töldu þeir þetta stafa af sjónaukanum sjálfum; hann gæti hafa hreyfst svo myndin Plútó virtist ílangur. Sá möguleiki var fljótt útilokaður þegar þeir sáu að aðrar stjörnur á myndinni litu eðlilega út. Það sem meira var virtist bungan sjálf fylgja snúningstíma Plútós sem er sex dagar. Annað hvort hafði Plútó gífurlega hátt fjall eða fylgitungl á jafntímabraut, það er að segja að umferðartími tunglsins var jafn snúningstíma Plútós.

Þegar Christy fann og leit á myndir af Plútó sem teknar höfðu verið nokkrum árum áður, fann hann fleiri dæmi þess að Plútó sýndist sérkennilega ílangur. Eina rökrétta skýringin var sú að þarna væri um áður óséðan fylgihnött að ræða Sá grunur fékkst staðfestur 2. júlí þetta sama ár þegar myndir voru teknar með 61 tommu sjónauka bandaríska sjóhersins í Flagstaff í Arizon. Uppgötvunin var síðan formlega tilkynnt þann 7. júlí 1978 og fékk tunglið heitið S/1978 P1 til bráðabirgða.

Nafn

Fljótlega eftir uppgötvunina stakk Christy upp á að það skildi kallað Karon, eftir ferjumanninum sem ferjaði sálir hinna látnu yfir ána Akeron. Akeron var eitt fimm fljóta sem umlyktu og runnu í gegnum undirheimana til Hadesar eða Plútós. Christy stakk upp á þessu nafni að hluta til vegna þess að á ensku hljómar það svipað og nafn konu hans Charlene (“Sharon og Sharlene”). Nafnið var samþykkt árið 1985 þegar uppgötvun tunglsins var formlega staðfest.

Karon var sonur Erebusar og Nyx, gyðju næturinnar. Honum var gjarnan lýst sem hrörlegum, öldnum manni eða vængjuðum djöfli. Karon tók við sálum látinna frá Hermesi, en aðeins þeim sem höfðu verið brenndir eða grafnir við tilheyrandi trúarathafnir og borgað honum fyrir aðganginn. Af þeirri ástæðu var peningur alltaf lagður undir tungnu hins látna. Þeir sem áttu ekki fyrir aðganginum, eða Karon hleypti ekki í gegn af einhverri ástæðu, voru dæmdir til að reika um bakka fljótsins Styx í hundrað ár.Eðlismassi Karons er 1,71 sinnum meiri en eðlisamassi vatns. Það bendir til þess að tunglið sé að hálfu leyti úr bergi og að hinn helmingurinn sé úr ís. Af einhverjum ástæðum inniheldur Karon 10% minn af bergi en Plútó. Það er líka kaldhæðnislegt að hugsa til þess að eðlismassi Karons er nú betur þekktur en eðlismassi Plútós.

Nýlegar rannsóknir stjörnufræðinga benda til að Karon hafi engan lofthjúp. Úr því verður skorið í eitt skipti fyrir öll þegar New Horizons geimfarið svífur framhjá tunglinu í júlí 2015. Hafi Karon hins vegar lofthjúp er yfirborðsþrýstingurinn þar hundrað sinnum minni en loftþrýstingurinn við yfirborð Plútós og innan við milljónasti af loftþrýstingi á yfirborði jarðar.

Talið er að Karon, og tunglin Nix og Hýdra, hafi myndast við árekstur Plútós og annars fyrirbæris úr Kuipersbeltinu, á svipaðan hátt og tunglið okakr er talið hafa orðið til.

Tungl sem hvorki rís né sest

Fjarlægð Karons frá Plútó er aðeins 19.640 km, en til samanburðar er fjarlægðin milli jarðar og tunglsins í kringum 380.000 km. Snúningur Karons umhverfis Plútó er bundinn þannig að sama hlið beggja hnatta snýr ætíð að hvor annarri. Þetta þýðir að snúningstíma beggja hnatta og umferðartími Karons er sex dagar, níu klukkustundir og sautján mínútur eða 6,387 dagar. Geimfari á yfirborði Plútós sæi Karon aðeins frá annarri hlið reikistjörnunni en aldrei hinni sama hversu lengi hann beði eftir því. Á þeirri hlið Plútó sem snýr að Karon er tunglið sjö sinnum stærra á himninum en tunglið okkar séð frá jörðinni (þótt það sé miklu minna er það mun nær). Þar að auki svifi Karon alltaf á sama stað, hreyfingarlaus á himninum án þess að rísa hvorki né setjast, en ganga engu að síður í gegnum kvartilaskipti á 6,4 dögum. Hinum megin á Plútó rís tunglið aldrei yfir sjóndeildarhringinn. Þetta sést ágætlega á Flash-hreyfimyndinni hér fyrir neðan, sem fengin er að láni af vefsíðu NASA um New Horizons leiðangurinn.

Á myndinnin sést hvernig snúningi Karons umhverfis Plútó er háttað. Blái maðurinn á yfirborði Plútó sér alltaf Karon á sama stað á himninum á meðan rauði maðurinn sér Karon aldrei á næturhimninum.

Sameiginleg massamiðja

Plútó og Karon hafa sameiginlega massamiðju sem er rétt fyrir utan yfirborð Plútós. Þetta sést á Flash-hreyfimyndunum hér fyrir neðan.Heimildir:

 1. Freedman, Roger og Kaufmann, William. 2004. Universe, 7th Edition. W. H. Freeman, New York.
 2. Beatty, J. Kelly; Petersen, Carolyn Collins og Chaikin, Andrew (ritstj.). 1998. The New Solar System. Cambridge University Press, Massachusetts.
 3. McFadden, Lucy-Ann; Johnson, Torrence og Weissman, Paul (ritstj.). 2006. Encyclopedia of the Solar System. Academic Press, California.
 4. Vefsíða NASA um New Horizons geimfarið

Hvernig vitna skal í þessa grein

 • Sævar Helgi Bragason (2010). Karon. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/pluto/karon (sótt: DAGSETNING).Leita á vefnum


 

Fleygar setningar

- Gylfaginning, 8. kafli

Sól það né vissi - hvar hún sali átti,
máni það né vissi - hvað hann megins átti,
stjörnur það né vissu - hvar þær staði átti.

 

Vinir okkar

 • Hugsmiðjan
 • Sjónaukar.is
 • Portal To The Universe
 • Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness
 • Vísindavefurinn
 • Hubble spacetelescope
 • European Southern Observatory - ESOPóstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica