Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Sporðdrekinn

 

Efnisyfirlit

Sporðdrekinn er eitt hinna 88 stjörnumerkja sem þekja himinhvelfinguna. Hann lendir í 33. sæti þegar stjörnumerkjunum er raðað eftir stærð. Hann sést ekki nema að örlitlu leyti frá Íslandi. Sporðdrekinn er ólíkur flestum öðrum stjörnumerkjum að því leyti að auðvelt er að sjá mynd hans út frá uppröðun björtustu stjarnanna.

Sporðdrekinn liggur fyrir sunnan miðbaug himins og er syðst á sólbaugnum ásamt Bogmanninum. Austan megin við Sporðdrekann eru Bogmaðurinn og Suðurkórónan. Naðurvaldi er norðaustan við Sporðdrekann og Vogin norðvestan megin hans. Úlfurinn er vestan megin við Sporðdrekann fyrir neðan Vogina, Hornmátið í suðvestri og Altarið í suðri. Sporðdrekinn er eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um stjörnumerkin í dýrahringnum og er í Sporðdrekanum um miðbik vetrar á haustin. Afstaða stjörnumerkjanna hefur breyst á þeim tvö til þrjú þúsund árum síðan stjörnuspekikerfið kom fram og því er sólin nú innan marka Sporðdrekans frá 20. nóvember til 29. nóvember (en ekki 24. október til 22. nóvember). Þótt stjörnumerkin sjáist ekki að degi til er samt hægt að reikna út hvar sólin er stödd á himinum með aðstoð stjörnukorta. Það gerist svo einstaka sinnum að allir fá tækifæri til þess að sannreyna í hvaða stjörnumerki sólin er þegar tunglið gengur fyrir sólskífuna við almyrkva á sólu og myrkur skellur á um miðjan dag.

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Sporðdrekanum.

Sporðdrekinn á himninum

Sporðdrekinn er það sunnarlega á himinhvelfingunni að einungis er hægt að sjá örlítinn hluta merkisins frá Íslandi. Þeir sem eiga leið um Bandaríkin eða Mið- og Suður-Evrópu að sumarlagi ættu að líta til himins og sjá hvort Sporðdrekinn sjáist ekki á himninum í suðurátt. Hann er auðþekkjanlegur á Antaresi og halanum.

Stjörnumerkið Sporðdrekinn á næturhimninum eins og hann birtist í löndum sunnar á hnettinum. Austan megin við Sporðdrekann eru Bogmaðurinn og Suðurkórónan. Naðurvaldi er norðaustan við Sporðdrekann og Vogin norðvestan megin hans. Úlfurinn er vestan megin við Sporðdrekann fyrir neðan Vogina, Hornmátið í suðvestri og Altarið í suðri. Myndin er úr Starry Night forritinu.

Þótt Sporðdrekinn sé bjart og auðþekkjanlegt stjörnumerki er hægt að nota nokkrar leiðir til þess að auðvelda sér leitina að honum á himninum. Stjörnur Bogmannsins við hlið Sporðdrekans raðast upp í mynstur sem minnir á teketil. Ef skilyrði eru góð má rekja sig eftir Vetrarbrautarslæðunni frá Svaninum og Erninum niður að Sporðdrekanum. Einnig er hægt að ferðast eftir dýrahringnum frá Ljóninu og Meyjunni í gegnum Vogina niður í Sporðdrekann (með viðkomu í neðsta hluta Naðurvalda).

Uppruni stjörnumerkisins

Sem fyrr segir er Sporðdrekinn eitt fárra stjörnumerkja sem bera nafn með rentu og líta út eins og fyrirmyndin. Í grískri goðsögn sendi Hera sporðdreka til þess að drepa veiðimanninn Óríon. Þetta kann að virðast furðulegt því Sporðdrekinn og Óríon eru andspænis hvor öðrum á himinhvelfingunni. Sporðdrekinn rís upp á himininn þegar Óríon sest. Röðin snýst við þegar Sporðdrekinn sest en þá rís Óríon upp á himininn. Heiti á björtustu stjörnunum í stjörnumerkinu Voginni vísar til þess að þær hafi stundum áður fyrr verið hluti af klóm Sporðdrekans.

Ýmsar aðrar sögur eru til af Sporðdrekanum. Ein þeirra greinir frá því að gríski guðinn Apolló hafi sent Sporðdrekann til þess að drepa Óríon. Í annari segir af því þegar Fæþon, sonur sólarguðsins Helíosar, missti stjórn á sólvagninum. Hestarnir sem drógu vagninn ruku af stað en urðu enn ólmari þegar þeir mættu Sporðdrekanum. Að lokum laust Seifur Fæþon eldingu til þess að skakka leikinn.

Kínverskar goðsagnir greina frá Azure drekanum. Hann var vorboði en Sporðdrekinn rís upp á himininn um lágnættið þegar líða tekur á vorið.

Stjörnur í Sporðdrekanum

Sporðdrekinn er bjart stjörnumerki sem er áberandi á himninum. Bjartasta stjarnan er rauði stórrisinn Antares (α (alfa) tauri) sem er með birtustigið +1,09. Hann er allt að 700 sinnum breiðari en sólin. Væri Antares settur í mitt sólkerfið í stað sólarinnar myndi hann ná út fyrir Júpíter og því gleypa fimm innstu reikistjörnurnar.

Djúpfyrirbæri í Sporðdrekanum

Sporðdrekinn er mjög nálægt miðju Vetrarbrautarinnar (sem er í Bogmanninum). Bjartasti hluti Vetrarbrautaslæðunnar liggur í gegnum merkið og þar er að finna fjögur Messierfyrirbæri er að finna í Sporðdrekanum (M4, M6, M7 og M80). Auk þeirra má auðveldlega greina bjartar geimþokur sem sjást umhverfi stjörnurnar fyrir neðan höfuð Sporðdrekans.

  • M4 er björt kúluþyrping með birtustigið +5,6. Hún sést með berum augum við góð skilyrði og tilvalin til skoðunar í litlum stjörnusjónauka. Auðvelt er að finna þyrpinguna á himninum vestan megin við rauða stjörnuna Antares.
  • M6 (Fiðrildisþyrpingin) er falleg lausþyrping með birtustigið +4,2. Nafn sitt dregur hún af því að útlínur þyrpingarinnar minna á fiðrildi. Um 80 stjörnur eru í þyrpingunni sem er um 25 ljósár í þvermál. Hún er talin vera um 50-100 milljón ára gömul.
  • M7 (Þyrping Ptólmæosar) er önnur falleg lausþyrping sem sést auðveldlega með berum augum í halda Sporðdrekans. Birtustig þyrpingarinnar er +3,3 og hún glitrar fallega inni í miðri Vetrarbrautarslæðunni.
  • M80 er kúluþyrping með birtustigið +8,0. Hún er í um 33 þúsund ljósára fjarlægð frá sólu og svipar til halastjörnu án hala í stjörnusjónauka.

Stjörnukort

Góð stjörnukort er að finna í bók Snævarrs Guðmundssonar, Íslenskur stjörnuatlas. Við mælum með því að allir eignist þá fínu bók. Einnig er hægt að fá góð stjörnukort í Starry Night hugbúnaðinum en þar má prenta út hvaða hluta himinsins sem er á mjög einfaldan hátt. Starry Night hugbúnaðurinn fæst hjá Sjónaukar.is.

Hér eru nokkur kort sem hægt er að prenta út. Smellið á kortin til þess að fá upp stærri mynd.

Sporðdrekinn (einfalt kort)

 

Heimildir:

  1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
  2. Vefsíða um Sporðdrekann á Wikipediu (skoðuð 5. september 2008).
  3. Vefsíða um Antares á Wikipediu (skoðuð 5. september 2008).
  4. Vefsíða stjörnufræðingsins James Kaler um stjörnur (skoðuð 5. september 2008).
  5. Vefsíðan seds.org um djúpfyrirbæri (skoðuð 5. september 2008).
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook