Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Sprengistjörnur

Efnisyfirlit

Sprengistjörnur má gróflega skipta í tvo flokka eftir orsökum hamfaranna. Greina má á milli mismunandi gerða út frá ólíkum litrófslínum í ljósi frá þeim.

Sprengistjörnur af gerð Ia

Hvítur dvergur í tvístirni dregur til sín efni frá förunaut sínum. Getur farið yfir Chandrasekharmörkin (>1,4 Msól) og splundrast þá í sprengingu. Blossinn sést víða að í alheiminum. Hægt er að nota þessa tegund sprengistjarna til að ákvarða fjarlægðir (=>fjarlægðarstiginn) því þær eru allar álíka bjartar (raunbirtustigið það sama). Eftir því sem sprengistjarna af gerð Ia virðist daufari þeim mun lengra er hún í burtu frá okkur.

Sprengistjörnur af gerð II

Krabbaþokan er leifar sprengistjörnu sem sást springa árið 1054.

Þegar járn tekur að safnast fyrir í kjarna massamikillar stjörnu (>8 Msól) eru endalokin skammt undan. Járn getur ekki losað orku við kjarnasamruna og því er engin geislun út á við til að vega upp á móti þyngdarkraftinum inn á við. Stjarnan endar ævi sína með þyngdarhruni þar sem kjarninn verður að nifteindastjörnu eða svartholi (myndast aðeins hjá massamestu stjörnunum) en ytri lögin þeytast í burtu og dreifast um nágrennið. Massamiklar stjörnur eru á þennan máta „endurvinnslustöðar“ stjörnuefnis.

Þróun vetrarbrauta

Leifar sprengistjarnanna eru mikilvægar fyrir þróun vetrarbrauta og sólkerfa og þróun lífsins á jörðinni. Í fyrstu stjörnunum sem mynduðust eftir miklahvell var aðeins vetni og helín (ásamt örlitlu af liþíni). Orkulosun þeirra fór því fram með róteindakeðjunni og síðan með 3α ferlinu. Það var ekki fyrr en með annarri kynslóð stjarna að CNO-hringurinn kom til sögunnar í stjörnum sem voru svipaðar og sólin okkar (eða stærri en hún).

Sprengistjörnur og lífið á jörðinni

Sprengistjarnan 1987a

Tengsl sprengistjarna við lífið á jörðinni eru augljós þegar við íhugum hvaða efni þurfa líklega að vera til staðar til að líf geti kviknað (t.d. H, O, C, N o.fl.). Einnig þarf sprengistjörnur til þess að framleiða járn og málma sem oft eru uppistaðan við myndun reikistjarna. Fyrstu sólstjörnurnar í sögu alheimsins höfðu því engar reikistjörnur.

Sprengistjarna af gerð II sást í Stóra-Magellanskýinu 23. febrúar 1987. Fyrst greindu fiseindanemar neðanjarðar örfáar fiseindir frá sprengingunni í kjarnanum en um 3 klst. síðar sást sprengingin á ljósmynd. Stóra- og Litla-Magellanskýið eru litlar vetrarbrautir sem fylgja Vetrarbrautinni okkar og sjást frá suðurhveli jarðar. Sprengistjarnan var nefnd SN 1987a (fyrsta „súpernóvan“ sem sást árið 1987). Stjarnan var í 170 þúsund ljósára fjarlægð sem þýðir að sprengingin átti sér stað fyrir 170 þúsund árum (einhvern tíma á ísöld) en ljósið var 170 þúsund ár að ferðast alla vegalengdina til jarðar.

Slæmir nágrannar

Orkuríkir geimgeislar berast stöðugt til jarðar frá misfjarlægum sprengistjörnum og eru ein af orsökum stökkbreytinga á lífverum á jörðinni. Nálæg sprengistjarna getur heft framþróun lífs og jafnvel boðað endalok þess í sólkerfum í allt að 30 ljósára fjarlægð.

Örlög stjarna út frá upphafs- og lokamassa

Mupphaf Gerð Mlok (ytri lög horfin) Lokastig
10-80 MJúpíter brúnn dvergur (ekki eiginleg sólstjarna)
0,08-8 Msól „venjulegar“sólstjörnur <1,4 Msól hvítur dvergur
8-30? Msól blár risi => rauður reginrisi 1,4-3 Msól nifteindastjarna
>30-50 Msól blár risi => rauður reginrisi >3 Msól svarthol

 

Myndir af sprengistjörnum og leifum þeirra

Leifar sprengistjörnu - N63A

Þessi geimþoka er leifar sprengistjörnu í Litla-Magellanskýinu sem er lítil óregluleg fylgivetrarbraut Vetrarbrautarinnar okkar. Hlutar gasþokunnar eru að þéttast og þar gætu myndast nýjar sólstjörnur í framtíðinni.

Leifar sprengistjörnu - Simeis 147

Þessi geimþoka í stjörnumerkinu Nautinu er leifar sprengistjörnu sem sprakk fyrir um 100 þúsund árum. Þokan nær yfir 3° svæði á himninum sem merkir að þvermál hennar er sex sinnunm meira en þvermál fulls tungls. Í miðju þokunnar er að finna nifteindastjörnu.

Leifar sprengistjörnu - NGC 6751

Þessi mynd af leifum sprengistjörnu í Erninum var valin sérstaklega til birtingar á 10 ára afmæli Hubblesjónaukans í aprílmánuði árið 2000.

Sprengistjarna í Svelgnum (M51)

Ef smellt er á myndina hér til hliðar sjást tvær myndir af gullfallegu þyrilvetrarbrautinni Svelgnum (M51). Á annarri myndinni má greina sprengistjörnu ef grannt er skoðað.
STÆRRI MYND

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook