Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Fomalhaut (stjarna í Suðurfisknum)

Fomalhaut (α (alfa) Piscis Austrini) (frb. fómalhot) er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Suðurfiskurinn og 18. bjartasta stjarnan á næturhimninum. Nafnið er arabískt að uppruna og merkir „munnur fisksins”. Fomalhaut er í aðeins 25 ljósára fjarlægð frá sólinni okkar.

Fomalhaut er A3 V stjarna á meginröð Hertzsprung-Russell línuritsins. Hún er talin ung stjarna, aðeins á bilinu 200 til 300 milljón ára gömul. Stjarnan er 2,3 sinnum massameiri en sólin okkar; 1,7 til 1,8 sinnum stærri að þvermáli og 14 til 17 sinnum bjartari. Hitastig Fomalhaut er í kringum 8500°C en til samanburðar er sólin um 5500°C. Fomalhaut er því talsvert stærri og heitari en sólin okkar og mun hún klára vetnisforða sinn á aðeins milljarði ára. Á stuttu æviskeiði sínu mun hún annað hvort breytast í rauða riastjörnu eða sefíta sem þeytir burtu ytri efnislögum sínum og endar ævi sína sem hvítur dvergur.

Rykskífa

Árið 1983 uppgötvaði IRAS (Infrared Astronomy Satellite) rykskífu, um 370 stjarnfræðieiningar í þvermál sem umlykur stjörnuna, ekki ósvipuð þeirri skífu sem umlykur Vegu og Beta Pictoris. Þessi skífa er talin líkjast þeirri rykskífu sem umlék sólina þegar sólkerfið okkar var að myndast.

Fimmtán árum síðar eða árið 1998 tóku stjörnufræðingar fyrstu ljósmyndirnar af rykskífu Fomalhauts. Þessar myndir leiddu í ljós að agnirnar í skífunni voru bókstaflega agnarsmáar, innan við millímetri að stærð. Á myndunum mátti einnig greina stærðarinnar geil í miðri skífunni. Þótti það bendi til þess að hugsanlega hefði stór hluti efnisins nær stjörnunni þegar þést í reikistjörnur.

Árið 2004 sýndu myndir sem Hubblessjónaukinn tók af rykskífunni greinilegt rykbelti með óvenjulega skarpa innri brún sem auk þess vék talsvert frá massamiðju kerfisins. Stjörnufræðinga tók þá að að gruna að brún beltisins héldist svona skörp vegna þyngdartogs óséðrar reikistjörnu innan þess. Tæpum tveimur árum síðar tók Hubblessjónaukinn aðra mynd af Fomalhaut og rykbeltinu sem sýndi, svo ekki var um villst, reikistjörnu á sveimi í kringum stjörnuna. Var þetta í fyrsta sinn sem fjarreikistjarna var ljósmynduð með óyggjandi hætti. Tilkynnt var um þessa stórmerku uppgötvun í nóvember árið 2008.

Sjá nánar: Leit að fjarreikistjörnum
Sjá nánar: Fyrstu myndirnar af reikistjörnum utan sólkerfisins

Fomalhaut b

Fjarreikistjarnan sem um ræðir heitir því frumlega nafni Fomalhaut b. Fomalhaut b er geysilega langt frá móðurstjörnunni eða í að meðaltali 18 milljarða km fjarlægð (115 SE) á sporöskjulaga braut með miðskekkju upp á 0,11. Fjarlægðin og miðskekkjan segir okkur að reikistjarnan er 872 ár að ljúka einni hringferð umhverfis Fomalhaut. Væri Fomalhaut b í sólkerfinu okkar væri hún fjórum sinnum lengra frá sólinni en Neptúnus.

Líkön benda til þess að Fomalhaut b sé innan við þrefalt massameiri en Júpíter. Er massinn áætlaður út frá stærð (birtu og áætluðum massa) og brautareinkennum rykskífunnar sem sést á myndunum. Séu hins vegar fleiri reikistjörnur til staðar innan skífunnar er Fomalhaut b umtalsvert massaminni. Óvissan er með öðrum orðum mikil og gera neðri mörk massans ráð fyrir reikistjörnu á stærð við Neptúnus.

Umhverfis Fomalhaut b er rykskífa eða hringakerfi, miklu stórbrotnara en hringar Satúrnusar, þar sem fylgitungl eru sennilega að myndast. Segja má að Fomalhaut b líkist að mörgu leyti Júpíter í árdaga sólkerfisins þegar Galíleótunglin voru að myndast í kringum hann.

Mynd Hubblessjónaukans af rykbeltinu í kringum Fomalhaut. Stjarnan sjálf er gerð ósýnileg með svonefndri kórónusjá. Fomalhaut b sést innan rammans og eiginhreyfing hennar í kringum stjörnuna á tveimur árum. Mynd: NASA/ESA

Hugsanlegt sólkerfi

Rykskífan sem umlykur Fomalhaut b sýnir berlega sólkerfi í mótun. Viðbúið er að stjörnufræðingar muni koma til með að rannsaka þetta kerfi ítarlega á næstu árum.

Lífbelti Fomalhauts – það svæði þar sem hvorki er of kalt né heitt svo vatn getur haldist í fljótandi formi – er um fjórar stjarnfræðieiningar frá stjörnunni. Þessi fjarlægð er nokkurn veginn á milli Smástirnabeltisins og Júpíters í sólkerfinu okkar (stjarnan er jú stærri og heitari en sólin okkar). Sé reikistjörnu á stærð við jörðina að finna innan lífbeltisins væri hún 5,67 jarðár að snúast í kringum Fomalhaut. Væri líf að finna á þessum ímyndaða hnetti er líklegast að það einkenndist af frumstæðum einkjörnungum eða bakteríum. Aðstæður á þessum hnetti væru enda fremur óhagstæðar lífi þar sem hnötturinn verður fyrir stöðugum árásum smástirna og halastjarna, líkt og komið var fyrir jörðinni fyrst ármilljarðinn í sögu sólkerfisins. Þar sem engar þróaðari lífverur væru til staðar væri ekkert súrefni í lofthjúpnum og þar af leiðandi ekkert ósonlag til að verja lífið gegn skaðlegum geislum Fomalhauts.

Heimildir:

 

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook