Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Hvað er að sjá á himninum í kvöld?

Efnisyfirlit

Það sem er svo skemmtilegt við þessa spurningu er að í hverjum mánuði koma í ljós ný stjörnumerki á kvöldin á meðan önnur hverfa undir sjóndeildarhringinn. Hér er fjallað stuttlega um það sem má sjá á næturhimninum yfir vetrartímann: stjörnumerkin, tunglið og reikistjörnunnar. Neðst í efnisgreinunum er vísað á stjörnumerki sem sjást vel á hverjum árstíma. Enn er langt í að öll stjörnumerkin séu komin með sérstaka umfjöllun hér á vefnum en stefnt er að því að komnar verði inn greinar um öll stjörnumerkin fyrir lok árs stjörnufræðinnar (des. 2009).

Neðst á síðunni er að finna kort af stjörnuhimninum yfir Íslandi eins og hann lítur út núna og mynd af virkni norðurljósanna þessa stundina.

Ágúst til október

Þegar líður að lokum sumars geta stjörnuáhugamenn farið að virða fyrir sér næturhimininn. Hátt á lofti er Sumarþríhyrningurinn og ættu áhugasamir stjörnuskoðarar að gefa sér góðan tíma til þess að njóta hans. Nú er kjörið tækifæri til þess að skoða bæði hringþokuna M57 í Hörpunni og tvístirnið Albíreó í Svaninum sem er eitt fegursta tvístirni á næturhimninum.

Við þokkalegar aðstæður má virða vetrarbrautarslæðuna fyrir sér sem er mjög áberandi á þessum árstíma. Hún lítur út eins og norðurljósarák yfir himininn en ólíkt norðurljósunum er hún kyrr á sínum stað. Við hvetjum að sjálfsögðu fólk til þess að reyna að komast út fyrir ljósmengunina undir dimman himinn á heiðskíru kvöldi og virða fyrir sér vetrarbrautaslæðuna og aðrar þær gersemar sem finna má meðal stjarnanna.

Vetrarbrautarslæðan liggur meðal annars í gegnum stjörnumerkið Litlaref. Litlirefur er lítið stjörnumerki sem þó er auðvelt að finna vegna þess að það liggur skammt sunnan Albíreó. Í Litlarefi eru tvö djúpfyrirbæri sem gaman er að skoða, annars vegar hringþokan M27 og hins vegar Herðatrésþyrpingin. Þau sjást bæði með handsjónauka en M27 er glæsileg á að líta í gegnum stjörnusjónauka.

Loks má minnast á tvær þyrpingar. Önnur þeirra er kúluþyrpingin M13 í stjörnumerkinu Herkúlesi. Hún er glæsilegasta kúluþyrpingin á norðurhveli himins og sést sem þokublettur með berum augum við góðar aðstæður. Hún er enn greinilegri í handsjónauka og í meðalstórum stjörnusjónauka má sjá hvernig stjörnurnar raðast í þyrpingunni.

Þegar komið er fram yfir miðnætti gægist Nautið upp fyrir sjóndeildarhringinn. Þá er tilvalið að skoða lausþyrpinguna Sjöstirnið. Þyrpingin er gullfalleg á að líta í handsjónauka og stjörnusjónauka með lítilli stækkun.

Sjá nánar: Harpan, Svanurinn, Örninn, Litlirefur, Stóribjörn (Karlsvagninn), Naðurvaldi, Steingeitin, Vatnsberinn

Nóvember til febrúar

Vetrarhiminn

Um miðjan vetur er kjörið tækifæri til þess að skoða mörg af þekktustu stjörnumerkjum og fyrirbærum á himninum. Stjörnumerkið Óríon (einnig nefnt Risinn) er áberandi í suðurátt á kvöldin og auðþekkt á stjörnunum þremur í beltinu sem nefndar eru Fjósakonurnar. Nokkru fyrir neðan beltið hangir sverð risans sem virðist í fyrst samsett úr þremur stjörnum. Við nánari skoðun sést að í miðju sverðsins er þokumóða sem hefur væntanlega vakið athygli fjölmargra stjörnuskoðenda í heitum pottum á kyrru vetrarkvöldi.

Óríonþokan eða Sverðþokan er risavaxið stjörnumyndunarsvæði eins og sést á myndum frá Hubble-geimsjónaukanum. Sakleysisleg tæki áhugamanna duga ekki til þess að skoða nýmynduð sólkerfi en í handsjónauka og litlum stjörnusjónauka má sjá móta fyrir móðu og nokkrum stjörnum í hnapp í miðjunni. Þegar skilyrði eru hagstæð má jafnvel sjá græna slykju yfir þokunni og við talsverða stækkun í stjörnusjónauka sést að helstu stjörnurnar í þokunni raða sér upp kunnulegt mynstur úr rúmfræði sem gengur undir því frumlega nafni Trapisan.

Þótt Fjósakonurnar séu áberandi komast þær ekki í hálfkvist við Rígel og Betelgás sem eru meðal björtustu stjarna á himinhvelfingunni. Betelgás virðist appelsínugul og er ein af fáum stjörnum sem sýna annan lit en hvítan. Þar fer saman að hún er rauður ofurrisi og svo björt á himninum að hún nær að virkja litfrumur augans sem liggja yfirleitt í dvala í náttmyrkrinu. Þótt Rígel sé bjartari en Betelgás er hún hvít að lit og sker sig ekki úr meðal stjarnanna. Fjósakonurnar í belti Óríons benda niður á við í átt til Síríusar í stjörnumerkinu Stórahundi. Hún er bjartasta sólstjarnan á næturhimninum og en tindrar oft með ýmsum litbrigðum vegna þess að ljósið frá henni þarf að fara langa leið í gegnum lofthjúpinn [sjá svar á Vísindavef Háskóla Íslands. Síríus myndar svonefndan Vetrarþríhyrning með Betelgás í Óríon og stjörnunni Prókýon í stjörnumerkinu LitlaHundi.

Ef dregin er lína upp á við frá Fjósakonunum þá liggur hún í átt að stjörnuþyrpingunni Sjöstirninu í Nautsmerkinu. Þyrpingin er auðþekkt sem glitrandi ský og yfirleitt sér fólk a.m.k. sex stjörnur með berum augum sem raða sér upp í lítinn Karlsvagn. Í handsjónauka eða stjörnusjónauka koma strax í ljós tugir stjarna sem eru í þyrpingunni en í henni eru yfir þúsund stjörnur þótt stór hluti þeirra sjáist ekki í sjónpípum áhugamanna. Sjöstirnið er prýðilegur byrjunarreitur fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu spor í stjörnuskoðun með á þessum árstíma, hvort sem það er með berum augum eða sjóntækjum. Gaman er að geta þess hér að Sjöstirnið nefnist Subaru á japönsku enda birtast sex björtustu stjörnurnar í merki bifreiðaframleiðandans.

Nokkru neðan við Sjöstirnið er appelsínugul stjarnan sem nefnist Aldebaran. Hún er bjartasta stjarnan í Nautsmerkinu og líkt og Betelgás í Óríon er hún nægilega björt til þess að örva litfrumur augans. Nokkrar daufari stjörnur í kringum Aldebaran mynda tilheyra stjörnuþyrpingu sem nefnist Regnstirnið. Það er auðþekkt á því að björtustu stjörnurnar mynda V-laga mynstur. Þótt Aldebaran sé í sömu sjónlínu þá er hún miklu nær okkur en þyrpingin og ekki hluti af henni. Regnstirnið er nálægasta stjörnuþyrpingin við sólina okkar og nær yfir myndarlegt svæði á himninum. Gaman er að bera stærð Regnstirnisins á himninum saman við stærð Sjöstirnisins sem er þrisvar sinnum lengra í burtu.

Margt fleira er að sjá á þessum árstíma og má þar nefna aðalstjörnurnar í Tvíburunum, Kastor og Pollux sem eru hátt á himni. Það hefur oft gerst að stjörnuáhugamenn hafi ruglað þeim saman við stjörnurnar í Litlahundi, Prókýon og Gómeisu en það meira jafnfræði í ljósstyrk á milli Tvíburanna en hjá stjörnunum í Litlahundi. Í Tvíburamerkinu og Ökumanninum er að finna nokkrar þyrpingar úr Messier-skránni sem eru tilvaldar fyrir skoðun í stjörnusjónauka.

Sjá nánar: Hrúturinn, Nautið, Tvíburarnir, Krabbinn, Ljónið, Stóribjörn (Karlsvagninn), Kassíópeia

Febrúar til apríl

Svæðið í kringum Karlsvagninn er mjög áhugavert og sést vel á þessum árstíma. Á kvöldin rís stjarnan Arktúrus í Hjarðmanninum í austri en hún er á meðal björtustu stjarna á himinhvelfingunni. Í suðri blasa Tvíburarnir Kastor og Pollux við en vinstra megin við þau er Krabbinn sem er lítið og tiltölulega dauft stjörnumerki. Í honum er að finna stjörnuþyrpingu sem nefnist Jatan eða Býflugnabúið (M44) sem auðvelt er að finna með aðstoð stjörnukorta og stórglæsileg í öllum gerðum stjörnusjónauka.

Fyrir unnendur vetrarbrauta er vorið tvímælalaust besta árstíðin. Konungur dýranna, Ljónið, sýnir klærnar fyrir neðan Karlsvagninn og minnir höfuð Ljónsins á sigð eða spurningamerki sem hefur verið speglað. Eftir því sem líður á kvöldið kemur stærsta stjörnumerkið í dýrahringnum í ljós en það er Meyjan.

Ljónið og Meyjan, ásamt stjörnumerkinu Bereníkuhaddi, geyma margar af þeim vetrarbrautum sem auðveldast er að skoða í meðalstórum stjörnusjónauka. Í Ljónsmerkinu er margrómaður vetrarbrautahópur sem nefnist Ljónsþrenningin og í Meyjunni er að finna miðju Meyjarþyrpingarinnar sem er nálægasta stóra vetrarbrautaþyrpingin. Hún geymir um tvö þúsund vetrarbrautir (sæmilegur fjöldi það!).

Stjörnumerkið Bereníkuhaddur er í miklu uppáhaldi hjá umsjónarmönnum Stjörnufræðivefsins. Það er helst að sjá á vorin en þar sem stjörnurnar í merkinu eru tiltölulega daufar nýtur það sín best utan þéttbýlisins. Flestar þeirra eru saman í stjörnuþyrpingu sem nefnist Haddþyrpingin og glitrar á næturhimninum eins og teppi skreytt perlum. Bereníkuhadd er að finna á svæðinu milli Arktúrusar í Hjarðmanninum, Ljónsins og Karlsvagnsins í Stórabirni. Þetta stjörnumerki eitt og sér ætti að vera næg ástæða til þess að gá til stjarna á vorin.

Sjá nánar: Nautið, Tvíburarnir, Krabbinn, Ljónið, Meyjan, VoginStóribjörn (Karlsvagninn), Steingeitin, Vatnsberinn

Svæðið umhverfis Pólstjörnuna

Stjörnumerkin í kringum Pólstjörnuna setjast ekki heldur eru alltaf á lofti (eru sögð vera pólhverf). Pólstjarnan er í stjörnumerkinu Litlabirni og staðsett beint yfir norðurpól jarðar. Hún var því leiðarstjarna sæfara fyrir tíð áttavitans. Pólstjarnan er kyrr á sínum stað á himninum en allar hinar stjörnurnar snúast einn hring umhverfis hana á hverjum sólarhring.

Tvö stjörnumynstur eru sérlega áberandi nálægt norðurpól himins: Karlsvagninn í Stórabirni og stjörnumerkið Kassíópeia. Karlsvagninn þekkja margir en útlit hans minnir á skaftpott eða leikfangavagn. Hann er ekki sérstakt stjörnumerki heldur svonefnt samstirni innan stjörnumerkisins Stórabjarnar. Auðvelt er að finna Pólstjörnuna út frá Karlsvagninum með því að draga línu í gegnum tvær fremstu stjörnurnar en línan endar á Pólstjörnunni. Ólíkt því sem mætti halda er Pólstjarnan ekki ein af björtustu stjörnum himins en er samt bjartasta stjarnan á svolitlu svæði umhverfis norðurpólinn. Í Karlsvagninum er fallegt tvíeyki vetrarbrauta sem ganga undir heitunum Bodesvetrarbrautin (M81) og Vindilsvetrarbrautin (M82). Hægt er að sjá þær í sama sjónsviði með því að nota litla stækkun í meðalstórum stjörnusjónauka. 

Stjörnumerkið Kassíópeia er auðþekkt á himninum líkt og Karlsvagninn. Hún þekkist best á því að stjörnurnar raða sér upp í „W“. Ein stjarnan er aðeins daufari en hinar en mynstrið leynir sér ekki við nánari skoðun. Skammt frá Kassíópeiu er að finna tvær stjörnuþyrpingar sem saman nefnast Tvíklasinn (e. Double Cluster). Með talsverðri stækkun má í stjörnusjónauka greina margar bláar stjörnur en það er einkenni ungra þyrpingra eins og þessarra tveggja í Tvíklasanum sem eru aðeins um nokkurra milljón ára gamlar.

Eins og sjá má á kortinu til hliðar eru stjörnumerkin Karlsvagninn og Kassíópeia hvort sínum megin við Pólstjörnuna. Þar sem stjörnur himinsins snúast umhverfis hana þá er Karlsvagninn lágt á lofti þegar Kassíópeia er hátt á himni (og öfugt). Þessar pælingar leiða af sér spurninguna: Hvenær árs er Karlsvagninn lágt á lofti á kvöldin og hvenær sést hann best? Svarið við þessari spurningu verður ekki gefið upp hér en með því að fara út nokkrum sinnum yfir veturinn má fá tilfinningu fyrir því hvernig kvöldhimininn breytist innan ársins.

Ferðalag jarðar í kringum sólina er ástæða þess að hún flyst frá okkur séð á milli þrettán merkja dýrahringsins (stjörnurnar í merkjunum eru samt í órafjarlægð á bak við sólina). Stjörnumerkið sem geymir sólina sést augljóslega ekki því það er á lofti að degi til á sama tíma og sólin (snýr beint að daghlið jarðarinnar). Stjörnumerkin hinum megin í dýrahringnum (u.þ.b. sex mánuðum fyrr/síðar) eru beint yfir næturhliðinni og sjást því vel á himninum (með þeirri undantekningu að Sporðdrekinn og Bogmaðurinn eru svo sunnarlega að þeir sjást varla frá Íslandi).

Sjá nánar: Stóribjörn (Karlsvagninn), Kassíópeia, Harpan, Svanurinn

Gangur reikistjarnanna árið 2009

Hér er örstutt yfirlit stöðu reikistjarnanna á himninum árið 2009. Ítarlegar upplýsingar um reikistjörnurnar, næturhimininn, göngu sólar og tungls innan ársins má finna í Almanaki Háskóla Íslands sem ætti að vera skyldueign allra stjörnuáhugamanna!

  • Merkúríus er innsta reikistjarnan og sú sem er erfiðast að skoða í innri hluta sólkerfisins. Ástæðan er sú að Merkúr er tiltölulega daufur í samanburði við hinar reikistjörnurnar og fer aldrei langt frá sólinni á himninum. Hann sést sem morgunstjarna í apríl og kvöldstjarna í september og október.
  • Venus er ægibjört á kvöldin í suðvestri frá janúar og fram í apríl. Um haustið (ágúst - nóvember) sést hún sem morgunstjarna í suðaustri fyrir sólarupprás.
  • Mars sést vel um haustið. Hann rís upp á himininn seint á kvöldin í september en sést æ betur þegar líður að áramótum. Mars ferðast eftir Dýrahringnum frá Nautsmerkinu yfir í Ljónið. Það er ekki skrýtið að reikistjarnan tákni herguðinn því hún er appelsínugul að lit.
  • Satúrnus er í Ljóninu um vorið og sést best á kvöldin frá febrúar fram í apríl. Hann flytur sig yfir í Meyjuna um sumarið og verður morgunstjarna frá síðari hluta október og fram að áramótum. [Kort]
  • Neptúnus sést aðeins í gegnum stjörnusjónauka en birtustig hans er í kringum +8. Hann er enn lægra á lofti frá Íslandi en Úranus en sést í Steingeitinni snemma að hausti. [Kort]

Tunglið

Tunglið er 29,5 daga að ganga í gegnum einn tunglmánuð. Fyrst er tunglið nýtt (sést ekki) þegar það er í sömu stefnu og sólin. Stöku sinnum getur orðið sólmyrkvi þegar tunglskífan fer fyrir framan sólina (yfirleitt fer hún fyrir ofan eða neðan sólina). Tunglið fer vaxandi eftir því sem líður á tunglmánuðinn og verður að lokum fullt. Þá sést það alla nóttina frá sólsetri til sólarupprásar. Svo fer það minnkandi uns það verður aftur nýtt.

Besti tíminn til þess að skoða tunglið er þegar það er vaxandi eða minnkandi. Á þeim tíma er auðveldar að koma auga á fjöll og skugga í gígum á yfirborðinu því tunglið er þá ekki yfirgnæfandi bjart. Með handsjónauka er gott að læra stærstu kennileitin á yfirborðinu, svo sem stærstu gígana sem eru ljósleitir og slétturnar sem kallast höf og eru dökkleit.

Í gegnum stjörnusjónauka getur verið gott að nota tunglsíu til þess að draga úr birtu tunglsins og skerpa á smáatriðum á yfirborðinu.

Stjörnuhiminninn yfir Íslandi þessa stundina

Þetta er gagnvirkt stjörnukort sem uppfærist í hvert skipti sem þú heimsækir síðuna. Stjörnukortið byggir á forriti sem nefnist AstroViewer og er að finna í íslenskri útgáfu á samnefndri vefsíðu.

Á vefsíðunni er einnig hægt að fá upp stærra kort þar sem stilla má dagsetningu og tíma að vild.

Sjást norðurljós í kvöld?

Ef rauðleitur norðurljósakragi er yfir Íslandi á þessari mynd ættu norðurljós að sjást í kvöld. Kortið sýnir núverandi útbreiðslu og staðsetningu norðurljósakragans og er byggt á nýjustu mælingum bandaríska POES-gervitunglsins. Eftir því sem kraginn er rauðleitari og breiðari, þeim mun öflugari norðurljóst ættu að sjást. Það eru rafhlaðnar agnir frá sólinni sem valda norðurljósum og er helst að sjá kraftmikil norðurljós þegar mikil virkni er á yfirborði sólar og margir sólblettir sýnilegir (sjá nánar um myndun sólar í svari á Vísindavef Háskóla Íslands).

Sjá nánar: Fréttir af sólinni og geimveðrinu

Heimildir:
  1. Þorsteinn Sæmundsson. 2008. Almanak fyrir Ísland 2009. Háskóli Íslands.
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook