Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Suðurfiskurinn (Piscis Austrinus) (stjörnumerki)

Suðurfiskurinn (Piscis Austrinus eða Piscis Australis) er eitt 88 stjörnumerkja himinhvelfingarinnar og eitt af 48 stjörnumerkjum Ptólmæosar. Líkt og nafnið bendir til er stjörnumerkið sunnan miðbaugs himins og sést því ekki frá Íslandi. Að öðru leyti er merkið sýnilegt milli 55. breiddargráðu norður og 90. breiddargráðu suður. Í Evrópu er merkið hæst á lofti við sjóndeildarhringinn í suðri í október og nóvember.

Suðurfiskurinn er ævafornt stjörnumerki. Sagt er að það sé upprunalega Fiskamerkið og tákni assýríska fiskaguðinn Dagon og babýlóníska guðinn Oannes. Arabar kalla merkið Al Hut al Janubiyy sem merkir Stóri Suðurfiskurinn. Útlínur merkisins eiga að sýna fisk sem liggur á bakinu og drekkur vatn úr vatnskerum Vatnsberans.

Bjarta stjarna merkisins er Fomalhaut. Nafn stjörnunnar er arabískt að uppruna, Fum al Hut, sem þýðir ,,munnur fisksins”. Fomalhaut er stjarna af 1. birtustigi, langbjörtust stjarnanna í Suðurfiskunum. Hún er A3 V stjarna í 25 ljósára fjarlægð frá sólinni okkar, rúmlega tvöfalt massameiri en sólin okkar og nokkru heitari eða um 8500°C. Árið 1983 uppgötvaðist rykskífa í kringum Fomalhaut sem sýndi sólkerfi í mótun. Tuttugu og fimm árum síðar (2008) var reikistjarna á sveimi í kringum Fomalhaut ljósmynduð í fyrsta sinn. Þessi fjarreikistjarna sem nefnist Fomalhaut b er líklega innan við þrefalt massameiri en Júpíter en er í um 115 stjarnfræðieininga fjarlægð frá Fomalhaut. Umferðartíminn (eitt ár) er mjög langur eða í kringum 875 jarðár.

Sjá nánar: Fomalhaut
Sjá nánar: Fyrstu myndirnar af reikistjörnum utan sólkerfisins

Kort af Suðurfisknum

 

 

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook