Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Svanurinn               

 

Á haustin er tilvalið að skoða stjörnumerkið Svaninn. Svanurinn hefur mjög áberandi krosslögun og hefur því oft verið nefndur Norðurkrossinn.

Goðsögur sem tengjast Svaninum

Goðsögurnar sem fylgja Svaninum eru nokkuð á reiki. Sumir segja hann Seif í dulargervi þegar hann dró Ledu, móður Helenu frá Tróju, á tálar og rændi henni frá Spörtu. Aðrir telja hann Orfeus sem breytti sér í svan og settist á himininn nærri hörpunni sinni. Í annarri sögu er Svanurinn vinur Phaeþons, sonar sólarguðsins Apollo. Phaeþon féll í Eridanus-ána er hann ók vagni sólarguðsins. Svanurinn kafaði þá sífellt ofan í ána í leit að Phaeþon. Seifur vissi af þessu og í samúðarskyni breytti hann stráknum í svan. Á himninum flýgur Svanurinn suður eftir sumarvetrarbrautinni inn í Sumarþríhyrninginn.

Stjörnukort af Svaninum, Hörpunni, Litlarefi, Örinni og ýmsum djúpfyrirbærum
Stjörnukort af Svaninum, Hörpunni, Litlarefi, Örinni og ýmsum djúpfyrirbærum. Smellið á myndina til þess að ná í stærra kort.

Stjörnur Svansins

Stjörnur Svansins eru allar tiltölulega bjartar; flestar af öðru til fjórða birtustigi. Bjartasta stjarnan nefnist Deneb, en það er arabíska sem þýðir „stél“. Deneb er blá og ung risastjarna í 1600 ljósára fjarlægð, sem er 30 sinnum massameiri og 60 þúsund sinnum bjartari en sólin okkar. Hún er nítjánda bjartasta stjarna himinsins og myndar Sumarþríhyrninginn ásamt stjörnunum Vegu í Hörpunni og Altair í Erninum.

Tvístirnið Albíreó

Deneb myndar línu við næst björtustu stjörnu og höfuð svansins, Albíreó. Nafnið á henni er í raun hálfgerð mistök. Í sextándu aldar útgáfu Almagest, bókar Ptólmæosar, var nafnið skrifað „ab ireo“ sem ekki er vitað hvað þýðir en Arabar kölluðu hana „Al Minhar al Dajajah“, sem þýðir „goggur hænunnar“.

Við nánari skoðun sést að Albíreó er stórglæsilegt tvístirni, þar sem bjartari stjarnan er gul (birtustig 3,1) en sú daufari bláleit eða jafnvel blágræn (birtustig 5,1). Raunar er hér um að ræða eitt fallegasta tvístirni himinsins því litamunurinn er greinilegur og kalla sumir stjörnufræðingar parið tópas og safír. Fjarlægðin til Albíreó er um 385 ljósár en þegar betur er að gáð kemur í ljós að stjörnurnar eru í mismunandi fjarlægð frá okkur og einungis í sömu sjónlínu. Þessar stjörnur virðast með öðrum orðum nærri hvor annarri á himninum en eru alls ótengdar. Þetta kallast sýndartvístirni. Bjartari stjarnan (gula) er risi, 760 sinnum bjartari en sólin okkar og mjög þétt tvístirni sem ekki er hægt að aðgreina í sjónauka. Daufari stjarnan í Albíreó (bláa) er 120 sinnum bjartari en sólin. Í gegnum góðan handsjónauka eða stjörnusjónauka sjást báðar stjörnurnar greinilega.

Þriðja bjartasta stjarnan (gamma Cygni) kallast Sadr sem þýðir „bringa“ og er í miðju merkisins. Sadr hefur fylgistjörnu af birtustigi 9,9 og er því erfitt að greina hana í sjónauka.

Fjórða bjartasta stjarnan nefnist Gienah sem þýðir „vængur“. Þessi stjarna er líka tvístirni, mun þéttari en Albíreó, þar sem sú bjartari er af birtustigi 2,9 en sú daufari er af birtustiginu 6,3.

Þokur og þyrpingar

Þótt Svanurinn liggi í Vetrarbrautarslæðunni eru óvenju fáar áhugaverðar þokur og stjörnuþyrpingar í merkinu. Þó er vert að minnast á lausþyrpinguna M29 sem er um 1,5° suður af Sadr og inniheldur um 50 stjörnur. Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier kortlagði hana fyrstur hinn 29. júlí 1764. Þyrpinguna er nokkuð erfitt að aðgreina frá stjörnumergðinni í bakgrunninum. Hún er í um 4000 ljósára fjarlægð og nálgast okkur á um 28 km hraða á sekúndu. Aldur hennar er talinn um 10 milljón ár. Sýndarbirta björtustu stjörnunnar er 8,6 og er hún 160 þúsund sinnum bjartari en sólin.

Hægt er að sjá þyrpinguna með handsjónauka. Í hefðbundnum stjörnusjónaukum er best að nota minnsta stækkun. Fjórar björtustu stjörnurnar mynda ferhyrning og aðrar þrjár mynda þríhyrning. Nokkrar daufari stjörnur eru í kringum þær en þyrpingin virðist nokkuð einangruð, sérstaklega í litlum sjónaukum.

Lausþyrpingin M39

M39 er mjög stór en mjög dreifð lausþyrping í um 800 ljósára fjarlægð. Hún er talin vera á milli 230 og 300 milljón ára gömul og inniheldur um 30 stjörnur á svæði sem er sjö ljósár í þvermál. Hún nálgast okkur með 28 km hraða á sekúndu. Bjartasta stjarnan er af sýndarbirtustigi 6,8.

Charles Messier skráði þyrpinguna 24. október 1764 en sumir eigna uppgötvun hennar landa hans Guillaume Le Gentil árið 1750. Hins vegar er talið að Grikkinn Aristóteles hafi skráð þyrpinguna hjá sér árið 325 f.Kr. sem daufan þokukenndan blett.

Best er að skoða þyrpinguna með lítilli stækkun vegna þess að hún nær yfir nokkuð stórt svæði af himninum. Við góðar aðstæður er hægt að sjá hana með berum augum. Auðvelt er að koma auga á hana með litlum handsjónauka þar sem lögunin er greinileg: jafnhliða þríhyrningur með bjartri stjörnu í hverju horni; stjarna af níunda birtustigi í norðurhorninu og ein af sjöunda birtustigi í suðaustur- og suðvesturhornunum. Um 25 daufari stjörnur eru innan þríhyrningsins. Þyrpingin er afar falleg þótt hún sé dreifð og vel aðgreinanleg frá bakgrunnsstjörnum Vetrarbrautarinnar. Með meiri stækkun er hún ekki jafn glæsileg.

Norður-Ameríkuþokan (NGC 7000)

Norður-Ameríkuþokan (NGC 7000) dregur nafn sitt af löguninni. Hún er afar dauf en sést með handsjónauka undir mjög dimmum himni og góðum kringumstæðum. Talið er að enski stjörnufræðingurinn William Herschel hafi fundið hana árið 1786 eða John Herschel, sonur hans, árið 1833. Hún var hins vegar fyrst mynduð hinn 12. desember 1890 af Max Wolf og þykir kjörin fyrir stjörnuljósmyndara. Þokan er talin vera í 1600 ljósára fjarlægð og liggur þrjár gráður frá Deneb.

Blæjuþokan „Veil Nebula“ (NGC 6960 og NGC 6992)

NGC 6960 og NGC 6992 eru leifar sprengistjörnu sem sprakk fyrir meira en 30.000 árum og kallast í dag Slörþokan (Veil Nebula). Austari og bjartari hluti þokunnar er skráð NGC 6992 en vestari hlutinn NGC 6960. Við bestu aðstæður er hægt að sjá austari þokuna með handsjónauka. Einungis er hægt að sjá þokuna í heild sinni á ljósmyndum. Fjarlægðin til hennar er um 1500 ljósár.

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook