Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Þarsisbungan (Tharsis bulge)

Þarsissvæðið er stærsta eldfjallasvæðið á Mars. Þarsis er við miðbaug reikistjörnunnar, við vesturenda Marinergljúfranna og nær yfir 4000 km breitt svæði. Nafn svæðisins á rætur að rekja til biblíunnar og vísar þar til vestasta hluta veraldar sem nefndur var Tarsis.

Á Þarsis eru fjögur risaeldfjöll, Ólympusfjall þeirra stærst í norðvestri, þá Ascraeusfjall, síðan Pavonisfjall og loks Arsiafjall, talið frá norðri til suðurs, allt dyngjur. Önnur smærri eru inn á milli eins og Biblis Patera og Ulysess Patera. Austan Ascraeusfjall er hið 150 km breiða Þarsis Þolus og norðan þess þrjú smærri eldfjöll, þau Ceraunius Þolus, Uranius Þolus og Uranius Patera. Við norðurbrún svæðisins er svo risaadyngjan Alba Patera.

Þarsisbungan myndaðist við landris þegar möttulstrókur úr innviðum reikistjörnunnar steig upp. Við landrisið teygðist á skorpunni og Marinergljúfrin mynduðust. Á gangstæðri hlið reikistjörnunnar er smærri bunga, Arabia Terra, sem gæti hafa myndast af völdum þess gríðarlega massa sem er á Þarsis.

Arsiafjall, Pavonisfjall og Ascraeusfjall mynda nánast beina 1500 km langa línu. Milli þeirra er nokkurn veginn jöfn vegalengd, um 700 km og hæð þeirra er svipuð og hæð Ólympusfjalls. Hins vegar sitja eldfjöllin á Þarsisbungunni á nærri 10 km þykkum hraunlögum svo raunveruleg hæð þeirra er um 15 km. Öll virðast þau hafa myndast á svipuðum tíma og voru virk í langan tíma. Arsiafjall virðist lítið eitt eldra en Pavonisfjall sem aftur virðist örlítið eldra en Ascraeusfjall. Það bendir til þess að eldvirknin á Þarsissvæðinu hafi færst norður á bóginn með tímanum.

Kort

Hæðarkort MOLA í Mars Global Surveyor af Þarsisbungunni og svæðum í kring. Kort: www.Stjornuskodun.is

Heimildir:

http://www.planetary.org/blog/article/00000984/

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook