Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook
 

Þverganga Venusar 8. júní 2004

Þverganga (transit) nefnist það þegar reikistjarna gengur þvert yfir skífu sólar eða stjörnu frá jörðu séð. Á þeim tíma sést reikistjarnan sem lítill dökkur blettur sem hreyfist hægt fyrir framan sólina. Frá jörðu séð geta aðeins Merkúríus og Venus gengið fyrir sólina, því þær eru fyrir innan okkur í sólkerfinu.

Þvergöngur eru tiltölulega sjaldgæfir atburðir. Að meðaltali gengur Merkúríus þrettán sinnum fyrir sólu á hverri öld (seinast 7. maí 2003), en enn sjaldgæfara er að Venus gangi fyrir sólu.

Frá því að sjónaukinn var fundinn upp hefur Venus gengið aðeins sex sinnum fyrir sólu: árið 1631, 1639, 1761, 1769, 1874 og síðast 1882. Á 20. öld var engin þverganga og þar af leiðandi hefur enginn núlifandi maður orðið vitni að þessu sjónarspili. Þetta breytist þriðjudaginn 8. júní 2004 þegar Venus gengur fyrir sólu í fyrra skiptið af tveimur á þessari öld. Sýndarþvermál Venusar, þegar hún gengur fyrir sólu, er aðeins 58 bogasekúndur í þvermál sem er allt of lítið til þess að framkalla sólmyrkva. Í staðinn lítur reikistjarnan út eins og stór hringlaga sólblettur.

Af hverju er þverganga Venusar svona sjaldgæf? Stærri mynd

Jörðin snýst umhverfis sólu á einu ári en Venus ferðast umhverfis hana á 224 dögum. Þetta þýðir að Venus er nokkurn veginn milli okkar og sólar á 19 mánaða fresti. Braut Venusar hallar hins vegar 3,4 gráður miðað við braut jarðar sem þýðir að Venus er nánast alltaf undir eða yfir skífu sólar frá okkur séð. Þverganga Venusar fyrir sólu getur þar af leiðandi aðeins orðið ef reikistjarnan er milli jarðar og sólar (í innri samstöðu) og sker brautarferil jarðar á sama tíma.

Allar þvergöngur verða í kringum 8. júní eða 9. desember, en þá mánaðardaga sker braut Venusar sólbauginn. Skurðpunktarnir kallast hnútpunktar og liggja um það bil 77 og 257 lengdargráður frá sólinni. Ef Venus er í innri samstöðu þegar lengdargráða hennar er nærri 77 gráður (í kringum 8. júní) og 257 gráður (í kringum 9. desember), verður þverganga.

Þegar þverganga Venusar á sér stað fylgir önnur venjulega átta árum síðar. Ástæðan er sú að Venus fer næstum nákvæmlega þrettán hringferðir um sólu á sama tíma og jörðin snýst átta sinnum umhverfis hana. Það þýðir að Venus er nokkurn veginn á sama stað á himninum á sama mánaðardegi átta árum síðar. Hins vegar sést þriðja þvergangan ekki eftir önnur átta ár, vegna þess að umferðartímarnir eru ekki alveg samsvarandi. Við þriðja tímabilið fer Venus nokkrum klukkustundum of snemma fyrir sólina til að þverganga sjáist frá jörðu.

Þvergöngurnar verða með annað hvort 105,5 ára eða 121,5 ára millibili á andstæðum hnútpunkti á braut Venusar, þá aftur tvær með átta ára millibili. Hér erum við komin með endurtekningarmynstrið 8 + 105,5 + 8 + 121,5 = 243 ár. Ef þú skoðar ártölin fyrir ofan sést mynstrið greinilega. Á vefsíðu Almanaks Háskóla Íslands ritar Þorsteinn Sæmundsson eftirfarandi útskýringu:

„Eftir 243 ár verður ennþá nákvæmari endurtekning í göngu Venusar. Þvergangan 2004 er því eins konar endurtekning á þvergöngunni sem varð árið 1761, og þvergangan 2012 endurspeglar þvergönguna 1769. Allar voru þær í byrjun júnímánaðar. En hvað má þá segja um þvergöngurnar 1874 og 1882? Þær voru báðar í byrjun desember og samsvöruðu þvergöngunum 1631 og 1639 (243 árum fyrr) sem líka voru í byrjun desember. Skýringin á tímasetningunum er sú, að júníþvergöngur verða þegar Venus gengur gegnum brautarflöt jarðar frá norðri til suðurs, en desemberþvergöngur verða þegar Venus gengur gegnum flötinn frá suðri til norðurs. Þetta gerist á andstæðum stöðum séð frá sól, og munar því hálfu ári á dagsetningunum. Tíminn frá síðustu þvergöngu (1882) til þvergöngunnar nú (2004) er 121½ ár, en tíminn frá næstu þvergöngu (2012) til þeirrar þarnæstu verður 105½ ár. Löngu biðtímarnir skiptast reglubundið á, svo að biðin milli þvergangna er fyrst 8 ár, svo 105½ ár, þarnæst 8 ár, síðan 121½ ár o.s.frv. Ef þessir fjórir biðtímar eru lagðir saman verður summan 243 ár, þ.e. endurtekningartíminn sem fyrr var nefndur.“

Þvergangan 2004

Ef veður leyfir sést öll þvergangan frá Evrópu, Afríku og Asíu. Upphaf þvergöngunnar sést frá Japan, Filippseyjum og Ástralíu en þar sest sólin áður en henni lýkur. Í austanverðri Norður-Ameríku, Karíbahafinu og stærstum hluta Suður-Ameríku sjást aðeins lok þvergöngunnar árla morguns þegar sólin er komin upp yfir sjóndeildarhringinn.

Þvergangan stendur í yfir sex klukkustundir en áhugaverðustu hlutarnir gerast á tveimur tuttugu mínútna köflum, þegar Venus gengur inn á og út fyrir sólarkringluna. Frá Reykjavík hefst þvergangan kl. 05:19, þegar Venus snertir fyrst rönd sólar og byrjar að ganga inn fyrir hana. Þetta kallast snerting I, en á þá er sólin lágt í norðaustri. Snerting II nefnist sú stund þegar reikistjarnan er öll komin inn fyrir sólröndina (kl. 05:39).

Klukkan 08:22 er þvergangan hálfnuð. Þegar Venus hefur ferðast yfir sólarkringluna og tekur að nálgast rönd sólar aftur, endurtekur upphafið sig, í öfugri röð þó. Snerting III markar þá stund er rönd Venusar snertir rönd sólar og reikistjarnan er þá ekki lengur algjörlega umlukin sólarljósi. Við snertingu IV, kl. 11:23, hverfur seinasti dökki hluti reikistjörnunnar frá sól og hún þá komin út fyrir rönd sólar. Venjulega er vísað til inngöngu með snertingu I og II á meðan snerting III og IV er vísað til útgöngu. Þvergöngunni er þá lokið.

Við útgöngu, þegar Venus hefur að hluta færst út fyrir skífu sólarinnar, gæti birst þunnur ljóshringur umhverfis reikistjörnuna. Þetta eru vel þekkt áhrif frá lofthjúpi Venusar, sem sást í fyrsta sinn í þvergöngunni 1761 af rússneska skáldinu og vísindamanninum Mikhail Lomonosov.

Örstuttu áður en snerting III á sér stað, gætu athugendur séð hvernig skuggamynd Venusar virðist tengjast við rönd sólarinnar - líkt og dropi sem er við það að drjúpa af steini. Þessi sjónskynvilla kallast dropaáhrifin. Menn greinir á um skýringuna á þessu fyrirbæri, en hún er að líkundum margþætt. Talið er að hún tengist ljósbroti í lofthjúpi jarðar, sjónauka og auganu, en lofthjúpur Venusar hefur ekkert að segja um þetta.

Myndir

 

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook