Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook
tunglid

Tunglið

„Tunglið, tunglið, taktu mig og berðu mig upp til skýja."
- Theodóra Thoroddsen

Efnisyfirlit
Meira um tunglið

Tunglið eða máninn er eina náttúrulega tungl jarðarinnar og jafnframt nálægasta fyrirbæri himinsins ef frá eru talin geimför og gervitungl. Tunglið er bjartasti hnötturinn á næturhimninum og sá eini þar sem við getum skoðað landslagið með berum augum. Saga tunglsins er nátengd sögu jarðarinnar enda er talið að það hafi myndast þegar hnöttur á stærð við Mars rakst á jörðina skömmu eftir myndun sólkerfisins. Tunglið hefur líka sögulega þýðingu fyrir okkur mannfólkið því það er eini hnötturinn þar sem menn hafa stigið niður fæti utan jarðarinnar. Tunglið okkar er fimmta stærsta tungl sólkerfisins á eftir Ganýmedesi, Títan, Kallistó og Íó. Það er hlutfallslega stærsti fylgihnöttur sólkerfisins sé miðað við stærð móðurreikistjörnunnar, að Plútó og Karoni undanskildum.

Tákn tunglsins

Tákn tunglsins

Tunglið hefur skipað stóran sess hjá ýmsum menningarþjóðum. Rómverjar til forna nefndu tunglið Luna en Grikkir nefndu það Selenu og Artemis. Önnur heiti á tunglinu eru til í mörgum öðrum trúarbrögðum. Þannig nefna Hindúar tunglið Chandra, Arabar Hilal, Astekar Tecciztecatl, Inkar Mama Quilla og kínverska tunglgyðjan nefnist Heng O. Máni var persónugervingur tunglsins í norrænni goðafræði. Hann var sonur Mundilfara og bróðir Sólar. Á næturnar ferðaðist hann í hestvagni yfir himinninn og ákvarðaði þannig hvort tunglið væri vaxandi eða minnkandi. Úlfurinn Hati elti Mána og þegar hann greip í tunglið varð tunglmyrkvi. Það olli talsverðri skelfingu og beittu menn ýmsum brögðum til hrekja úlfinn burt.

Íslensku orðin mánudagur og mánuður eru dregin af heiti tunglsins. Íslenska orðið tungl er einnig eitt þeirra orða í íslensku máli sem á sér ekkert rímorð. Gríska orðið „Luna“ er rót enska orðsins „lunatic“ sem þýðir brjálæðingur en merkti upphaflega tunglsjúkur (flogaveikur).

Jarðfræði tunglsins

Menn hafa um aldir velt því fyrir sér hvernig sé umhorfs á yfirborði tunglsins. Sú hugmynd kom fram að dökku svæðin á tunglinu væru úthöf eins og á jörðinni. Athuganir með sjónaukum leiddu síðar í ljós að „höf“ tunglsins eru fornar hraunbreiður, alsettar gígum, en þrátt fyrir þessa uppgötvun eru dökku svæðin nefnd höf enn þann dag í dag. Árið 1959 sendu Sovétmenn af stað þrjú Luna-geimför sem lentu á tunglinu og mörkuðu upphafið á athugunum á yfirborði tunglsins. Þær náðu hámarki með Apolló-leiðöngrunum sem komu geimförum til tunglsins.

Við fyrstu könnun yfirborðsins koma í ljós tvö stór atriði sem eru mismunandi á milli jarðarinnar og tunglsins: Annars vegar er enginn lofthjúpur á tunglinu, því það er með of lítinn massa til að geta haldið í hraðfara gassameindir. Hins vegar er þar ekkert fljótandi vatn en vatn gæti verið að finna undir yfirborðinu á pólsvæðunum. Einnig er tunglið það sem kallað er „kulnaður hnöttur“. Þar eru engin eldfjöll og ekki neinar flekahreyfingar í skorpunni. Segja má að tunglið sé risastór steingervingur sem varðveiti sögu sólkerfisins í milljarða ára. Á tunglinu hafa ummerki síðustu ármilljarða því ekki afmáðst líkt og á jörðinni og fótspor geimfaranna munu því varðveitast um langa hríð.

Fjærhlið tunglsins

Augljós munur sést á myndum af nærhlið og fjærhlið tunglsins. Mörg höf (hraubreiður) eru á nærhliðinni sem setja mikinn svip á hana. Fjærhliðin er hins vegar að langmestu leyti hálendi og fá höf að sjá. Fjærhliðin vísar stöðugt frá jörðu en þó sjáum við aðeins inn á fjærhliðna vegna tunglvaggs (sjá umfjöllun neðar á síðunni).

Nærhlið tunglsins Fjærhlið tunglsins

 

Kvartilaskiptin

Breytingar á útliti tunglsins innan tunglmánaðarins nefnast kvartilaskipti. Þau stafa af því að við sjáum misstóran hluta af því svæði tunglsins sem sólin lýsir upp. Heitið kvartilaskipti er dregið af erlenda orðinu kvarter sem merkir fjórðungur. Nýtt tungl markar upphaf tunglmánaðarins. Þá sést tunglið ekki því sólin lýsir upp fjærhlið tunglsins sem snýr frá jörðinni. Tunglið gengur síðan í gegnum tvö kvartil uns það verður fullt. Þá lýsir sólin upp alla nærhliðina sem snýr að jörðu

Á skýringarmyndinni hér að neðan ímyndum við okkur að við horfum ofan á tunglið og jörðina (athugið að fjarlægðin milli jarðar og tungls er miklu meiri eins og sést á skýringarmynd neðar á síðunni). Gulu örvarnar tákna geisla sólar en hún er til vinstri og sést ekki á myndinni.

Kvartilaskipti

Kvartilaskipti tunglsins innan tunglmánaðarins. Horft ofan á jörðina og tunglið. Geislar sólar berast frá vinstri.

Tunglvagg

Oft er talað um að einungis sé hægt að sjá annan helming tunglsins en að hinn helmingurinn (fjærhliðin) snúi alltaf frá okkur. Þetta er ekki alls kostar því í raun er hægt að sjá jaðra fjærhliðarinnar í hverjum tunglmánuði eins og sést á myndinni hér að neðan. Reiknað hefur verið út að fræðilega sé hægt að sjá 59% af yfirborði tunglsins frá jörðu en það sér ekki í öll svæðin í hverjum tunglmánuði.

tunglvagg

Tunglvagg

Tunglvaggið ber vitni um þá tíma þegar tunglið snerist heilan hring séð frá jörðu eftir myndun þess. Með tímanum hægði á snúningnum vegna þyngdaráhrifa frá jörðinni og er nú talað um að hann sé „læstur“. Þó eimir enn eftir af sjálfstæðum snúningi í tunglvagginu. Mikilvægt er að hafa í huga að þótt tunglið virðist ekki snúast þá snýst það samt einn hring í hverjum tunglmánuði þegar það lýkur einni hringferð umhverfis jörðina. Hægt er að sjá hann fyrir sér með því að horfa í huganum á tunglið og jörðina ofan frá og sjá hvernig tunglið snýr alltaf sömu hlið að jörðinni.

Karlinn í tunglinu

Menn hafa að sjálfsögðu alla tíð þekkt tunglið enda er það næstbjartasta fyrirbæri himinsins á eftir sólinni. Flestir hafa séð að á tunglinu skiptist á dökk og ljós svæði. Menn hafa jafnvel talið sig sjá einhverjar myndir út úr mynstrinu. Karlinn í tunglinu er dæmi um slíkt en hjá öðrum þjóðum sjá menn aðrar fígúrur t.d. tala íbúar Ekvador um kanínuna í tunglinu.

Kvartilaskipti

Hægt er að sjá ýmsar myndir út úr uppröðun hafanna á tunglinu

Tölulegar upplýsingar

Meðalfjarlægð frá jörðu: 384.399 km
Mesta fjarlægð frá jörðu:
405.696 km
Minnsta fjarlægð frá jörðu:
363.104 km
Miðskekkja brautar:
0,0549
Meðalbrautarhraði um jörðu: 1,022 km/s
Umferðartími miðað við fastastjörnur: 27,321 dagur = 27 d. 7 klst. 43 mín.
Lengd tunglmánaðar: 29,531 dagur = 29 d 12 klst. 44 mín.
Brautarhalli miðað við plan sólkerfisins: 5,145°
Brautarhalli miðað við miðbaug jarðar:
á bilinu 18,29° til 28,58°
Þvermál:
3.474 km
Þvermál (jörð=1):
0,273
Massi:
7,347 x 1022 kg
Massi (jörð=1):
0,0123
Eðlismassi:
3,346 g/cm3
Þyngdarhröðun:
1,622 m/s2 (0,165 g)
Lausnarhraði: 2.38 km/s
Meðalhitastig yfirborðs:

u.þ.b. -50°C við 0° (miðbaug)
u.þ.b. -140°C við 85°N (nærri norðurpól)

Hæsti yfirborðshiti:

u.þ.b. +120°C við 0° (miðbaug)
u.þ.b. -40°C við 85°N (nærri norðurpól)

Lægsti yfirborðshiti:

u.þ.b. -170°C við 0° (miðbaug)
u.þ.b. -200°C við 85°N (nærri norðurpól)

Endurskinshlutfall:
0,12
Sýndarbirtustig: -12,74 (fullt tungl að meðaltali)
Hornstærð: 29,3' til 34,1'

Heimildir

http://en.wikipedia.org/wiki/Far_side_of_the_Moon
Kort af nærhlið tunglsins: http://ralphaeschliman.com/luna/lnslamasm.jpg
Ekki jafnnákvæmt: http://en.wikipedia.org/wiki/Near_side_of_the_Moon

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook