Stórkostlegar myndir af Föbe

14. júní

Síðastliðinn föstudag flaug Cassini framhjá tunglinu Föbe við Satúrnus. Var þetta eina skiptið sem Cassini heimsækir Föbe en síðast flaug Voyager 2 framhjá tunglinu árið 1981. Hins vegar var hann þá í um 1000 sinnum meiri fjarlægð en Cassini nú.

Föbe er örsmátt tungl, aðeins 1/15 af stærð tunglsins okkar. Cassini flaug framhjá því í aðeins 2.068 km fjarlægð á 20.900 km hraða á klukkustund. Fáeinum klukkustundum síðar sneri geimfarið sér og sendi þessar stórkostlegu myndir til jarðar.

Fyrstu myndir Cassini af Föbe voru ótrúlega skýrar og sýndu stórskorið yfirborð sem hefur valdið vísindamönnum heilabrotum. Fjöldi gíga af ýmsum stærðum bendir til þess að yfirborðið sé gamalt. Margir gíganna eru um einn km að stærð og það bendir til þess að margir loftsteinar innan við 100 metrar í þvermál hafi rekist á Föbe. Erfitt er að segja til um hvort loftsteinarnir eigi uppruna sinn að rekja til halastjarna eða smástirna, eða hvar árekstrarnir urðu við Satúrnus. Á næstu dögum eða vikum munu vísindamenn rýna í gögnin frá Cassini og ákvarða út frá þeim eðlismassa Föbe. Þá ætti að vera unnt að svara því hve hátt hlutfall af tunglinu er ís.

Þessar myndir voru teknar úr 143.068 km og 77.441 km fjarlægð. Á þeim sést vel stórskorið yfirborðið. Einnig má greina mismunandi endurvarp ólíkra yfirborðslaga. Á yfirborðinu sjást rásir og önnur kennileiti sem minna um margt á tunglið Fóbos sem er á braut um Mars.
Stærri mynd

Myndin hér að neðan er samsett úr tveimur myndum, sem teknar voru úr 32.500 km fjarlægð frá Föbe. Á myndinni sjást vísbendingar um að Föbe gæti verið íshnöttur, þakinn þunnu dökkleitu yfirborðslagi. Litlir bjartir gígar á myndinni eru líklega tiltölulega ungir en slíkir gígar sjást líka á öðrum ístunglum, t.d. á tunglinu Ganýmedesi við Júpíter. Þegar loftsteinar rákust á Föbe þeyttu þeir upp ljósleitu efni sem liggur undir yfirborðslaginu. Líklega er þetta ís sem er að finna undir yfirborðinu. Frekari vísbendingar um þetta sjást á sumum gígveggjum. Þar virðist sem dökkt yfirborðslagið hafi runnið niður hlíðarnar og afhjúpað ljósara lag undir yfirborðinu. Sum svæðin á myndinni eru óvenjubjört vegna oflýsingar.

 

Stærri mynd

 

Þegar Cassini nálgaðist Föbe komu sífellt áhugaverðari hlutir í ljós. Á þessari mynd, sem tekin var úr 13.377 km fjarlægð, sjást vísbendingar sem þykja renna stoðum undir kenninguna að Föbe sé íshnöttur, þakinn þunnu dökkleitu yfirborðslagi. Í gígnum rétt fyrir ofan miðju myndarinnar sjást tvö eða fleiri lög af björtu og dökku efni. Stjörnufræðingar telja þessi lög hafa myndast þegar gígurinn myndaðist. Efni þeyttist frá frá gígnum og féll á yfirborðið sem fyrir var, en það var þakið þunnu dökku setlagi yfir ísmöttli. Lægra, þunna, dökkalagið í gígveggjunum afmarkar grunn lagsins sem þeyttist í burtu, sem sjálft virðist hulið nýlegra, dökku yfirborðslagi.

 

Stærri mynd

 

Þessi stórkostlega mynd hér að neðan af gígum Föbe var tekin úr einungis 11.918 km fjarlægð. Á henni sést 13 km breiður gígur og berg á gígbotninum. Til vinstri sést hluti af öðrum álíka stórum gíg, en efst sést hluti af stærri gíg þakinn mörgum minni gígum. Rákirnar í gígnum eru tilkomnar vegna skriðufalla niður í gíginn. Efnið í skriðunum er trúlega það sama og þeyttist í burtu þegar gígurinn myndaðist. Á myndinni sjást berghnullungar sem eru um 50 til 300 metrar í þvermál. Ef til vill hafa þeir losnað frá yfirborðinu við stærri árekstra annars staðar á Föbe. Á myndinni eru engar sýnilegar vísbendingar um íslög, jarðvegsþekju eða harnaða skorpu, eins og á öðrum svæðum tunglsins.

 

Stærri mynd