Rannsóknir Cassinis skýra uppruna Föbe

26. júní

Þetta stafræna líkan sýnir að þrátt fyrir óreglulögun Föbe er tunglið tiltölulega hnattlaga. Líkanið útbúið úr myndunum sem Cassini tók þann 11. júní 2004.
Stærri mynd

Í síðustu viku (miðvikudaginn 23. júní) birti NASA nýjar og stórglæsilegar myndir af Föbe sem teknar voru af Cassini-farinu. Geimfarið hefur einnig rannsakað tunglið hátt og lágt og benda niðurstöður þeirra rannsókna til þess að Föbe sé upprunnin mjög utarlega í sólkerfinu, líklega Kuipersbeltinu, en síðar hafi tunglið verið fangað af aðdráttarkrafti Satúrnusar.

Torrence Johnson, einn vísindamanna sem starfa við verkefnið hjá JPL í Pasadena í Kaliforníu segir að upplýsingarnar frá Cassini varpi ljósi á innri gerð þessa furðulega tungls. „Það sem við höfum lesið úr gögnunum er að Föbe sé samansafn íss, bergs og líklega kolefnasambanda. Við teljum að tunglið beri mörg þeirra einkenna sem algeng eru á hnöttum í ytra sólkerfinu á borð við Plútó og Tríton, tungl Neptúnusar. Með öðrum orðum er þetta í fyrsta sinn sem við lítum á einn íbúa ystu afkima sólkerfisins, sem við höfum hingað til aðeins séð úr mikilli fjarlægð.“

Flugið framhjá Föbe var mjög árangursríkt. Geimfarið sjálft og öll tæki störfuðu óaðfinnanlega og árangurinn hefur ekki látið á sér standa.

Þessar myndir voru teknar þann 11. júní 2004, þegar Cassini flaug framhjá Föbe. Myndirnar sýna staðsetningu og dreifingu vatnsís, járnoxíðs, koldíoxíðs og annarra óþekktra efna á tunglinu. Fyrsta myndin er einungis til samanburðar.
Stærri mynd

Það er fleira í niðurstöðum Cassini-geimfarsins bendir til þess að tunglið eigi rætur að rekja til Kuipersbeltisins. Dr. Roger Clark, vísindamaður frá Jarðfræðistofnun Bandaríkjanna sem starfar við verkefnið segir að „allar vísbendingar benda til þess að yfirborð Föbe sé úr vatnsís, vatnstengdum steintegundum, koldíoxíði, hugsanlega leir og að í blettum á yfirborðinu séu frumstæð lífræn efnasambönd. Á litrófsmyndum sjáum við jafnframt merki um efni sem við höfum enn ekki getað greint.“

Einnig bendir margt til að Föbe sé efnafræðilega skyld halastjörnum, og styrkir það grun manna um að tunglið sé upprunnið úr Kuipersbeltinu. Tilvist koldíoxíðs rennir jafnframt frekari stoðum undir það vegna þess að koldíoxíð finnst ekki á smástirnum. Þess vegna er Föbe örugglega ekki smástirni.

Eðlismassi Föbe er 1,6 gramm á rúmsentímetra sem þýðir að það er eðlisþyngra en hreinn ís, en eðlisléttara en flestar bergtegundir. Hlutfall vatnsíss og bergs í Föbe er svipað og hjá Plútó og Tríton.

Hér sést útfjólublá mynd af Föbe (til hægri) sem tekin var úr 31.000 km fjarlægð. Á henni sést óreglulagað yfirborðið og bjart gígasvæði (hvíta svæðið). Björtu svæðin benda til vatnshélu á yfirborðinu. Stóri gígurinn sést greinilega á vinstri myndinni.
Stærri mynd

„Við teljum að fyrir 4,5 milljörðum ára, þegar sólkerfið okkar var að myndast, hafi margir hnettir á borð við Föbe verið í ytra sólkerfinu,“ sagði Johnson. „Síðan hafa flestir þessir hnettir annað hvort safnast saman og orðið hlutar af Júpíter, Satúrnusi, Úranusi og Neptúnusi, eða þeyst út í jaðar sólkerfisins vegna þyngdaráhrifa frá stóru reikistjörnunum. Satúrnus virðist hins vegar hafa læst klóm sínum í Föbe.“

Kort yfir hitastig á yfirborðinu voru gerð út frá innrauðum litrófsmælingum. Þau sýna að yfirborðið er mjög kalt, aðeins um -163°C, og að á næturhliðinni sé hitastigið enn lægra. Það bendir til þess að yfirborðsefnin séu létt og yfirborðslagið sé gljúpt.

Í þessari stuttu heimsókn framhjá þessu óvenjulega tunglið, náði Cassini að afla meiri gagna um Föbe en vísindamenn hafa aflað síðustu hundrað árin.

Til baka á forsíðu

Opna Stjörnufræðivefinn í nýjum glugga