Plútó á afmæli

21. febrúar 2005

Þann 18. febrúar voru 75 ár liðin frá því að Plútó fannst. Enn er margt á huldu varðandi þennan forvitnilega hnött og greinir stjörnufræðinga enn á um hvort skilgreina eigi hann sem reikistjörnu eða fyrirbæri úr Kuipersbeltinu.

Plánetan X

Leitin að Plútó hófst árið 1905 þegar bandaríski stjörnufræðingurinn Percival Lowell setti fram tilgátu um hugsanlega Plánetu X í ytra sólkerfinu. Lowell dó áður en landi hans Clyde Tombaugh fann reikistjörnuna 18. febrúar 1930, eftir að hafa grannskoðað himinninn í langan tíma. Tombaugh bar saman tvær myndir sem teknar voru frá Lowell-stjörnustöðinni og tók eftir hreyfingu hnattarins miðað við stjörnurnar í bakgrunni.

Tombaugh sagðist strax hafa vitað að ljóspunkturinn sem hann sá voru vísbendingar um Plánetuna X, en stjórnandi stjörnustöðvarinnar taldi réttast að hafa varan á. Tombaugh ætlaði að gera frekari rannsóknir við sólsetur 18. febrúar en ský komu í veg fyrir að hann gæti aflað frekari upplýsinga. Uppgötvunin var ekki tilkynnt opinberlega fyrr en á afmælisdegi Percivals Lowell, 13. mars 1930.

Myndin sem Clyde Tombaugh uppgötvaði Plútó á þann 18. febrúar 1930
STÆRRI MYND

Eftir að Tombaugh dó árið 1997 hafa margir stjörnufræðingar mælst til að Plútó verði „lækkaður um tign.“ Þegar fréttirnar um þetta náðu hámarki tóku stjórnendur Alþjóðsambands stjarnfræðinga sig til og sögðu að Plútó væri og yrði pláneta. Flestir stjörnufræðingar hafa samþykkt að veita Plútó „tvöfaldan ríkisborgararétt,“ kallað hann plánetu og fyrirbæri úr Kuipersbeltinu.

Hundurinn hans Mikka Mús?

Plútó er nefndur eftir guði undirheimanna í grískri goðafræði. Margir stungu upp á nafninu en heiðurinn af nafngjöfinni féll í skaut ellefu ára stúlku frá Englandi. Margir stungu upp á öðrum nöfnum, t.d. Mínerva, sem var gyðja þekkingar og jafnvel Constance til heiðurs konu Percivals Lowell.

Plútó er þess vegna ekki nefndur eftir hundinum hans Mikka. Sá góði hundur kom fyrst fram í teiknimyndinni „The Chain Gang“ árið 1930 - sama ár og plánetan fannst. Disney hundurinn Plútó hlaut nafnið sitt ári síðar, svo meiri líkur eru á að hundurinn hafi hlotið nafn reikistjörnunnar, enda var hún sífellt í fréttum á þeim tíma.

Dularfullur hnöttur á ílangri braut

Mynd Hubblesjónaukans af Plútó og Karoni
(HST)
STÆRRI MYND

Enn er ekki vitað nákvæmlega úr hverju Plútó er, hvernig hann myndaðist né hvers vegna braut hans er svo einkennileg samanborið við aðrar plánetur sólkerfisins. Plútó gæti haft önnur tungl sem enn hefur ekkert borið á og handan Plútó gæti tíunda reikistjarnan leynst - stærri eða minni en Plútó. Spurningin er hvort aðrir Plútóar eigi eftir að finnast eða hvort hann er einstakur.

Í flestum stjörnusjónaukum er Plútó lítið annað en ljósblettur, enda mjög langt í burtu og afar smár, svo erfitt er að leysa margar ráðgátur um hann. Stórir sjónaukar hafa þó á síðustu árum verið að rannsaka hann og hefur Hubblesjónaukinn þar komið í góðar þarfir.

Stærsti hluti brautar Plútós er utan við braut Neptúnusar. Brautin er hins vegar svo ílöng að Plútó er stundum nær sólu en Neptúnus (t.d. á árabilinu 1979-1999). Braut Plútós halla líka mjög mikið, um 17,1 gráðu miðað við sólbauginn, þann flöt sem aðrar plánetur liggja á.

Margar halastjörnur hafa, líkt og Plútó, mjög ílangar brautir. Þetta, ásamt smæð Plútós, hefur orðið til þess að margir stjörnufræðingar telja hann heldur eiga heima í Kuipersbeltinu en meðal plánetanna.

Fyrsti meðlimur Kuipersbeltisins fannst árið 1992 en í dag hafa yfir 1000 fyrirbæri fundist þar, sum hver með þvermál á við hálft þvermál Plútós. Rannsóknir á fyrirbærunum þar geta sagt okkur mikið um eðli sólkerfisins og umhverfið við Plútó.

Plútó hefur eitt tungl, Karon, sem fannst árið 1978. Það hlutfallslega stærsta tungl sólkerfisins, miðað við stærð móðurreikistjörnunnar. Sumir stjörnufræðingar hafa jafnvel kallað tvíeykið tvöfalda reikistjörnu.

Eina ókannaða plánetan

Plútó er enn sem komið er eina plánetan sem geimfar hefur ekki heimsótt. Það stendur allt til bóta en árið 2015 á geimfarið New Horizons að fljúga framhjá þessum fjarlæga hnetti eftir níu ára ferðalag.

Heimildir: Space.com

Til baka á forsíðu

Opna Stjörnufræðivefinn í nýjum glugga
Til baka á forsíðu

Slóðir á aðra vefi

Síða um Plútó á vef Coloradoháskóla