Hvað er líf?

Ef við ætlum að setja niður fyrir okkur hvenær og hvernig lífið kviknaði á jörðinni er nauðsynlegt að ákveða hvað sé líf. Líffræðingar eru alls ekki sammála um hvernig eigi að skilgreina líf. Flestir þeirra myndu samþykkja að eftirfarandi tveir þættir (og e.t.v. fleiri) skyldu á milli lífs og lífvana efnis:

  • Hæfileikinn til þess að gera afrit að sjálfu sér

  • Hæfileikinn til þess að gangast undir darwiníska þróun

    Með seinni liðnum er (í mjög grófum dráttum!) átt við það þegar frábrigði við afritun erfðaefnis veita lífverum forskot í umhverfi sínu. Þessar lífverur komast betur af og ættu að eignast fleiri afkvæmi en aðrar lífverur sömu tegundar. Darwinísk þróun á sér stað þegar „góðu“ frábrigðin erfast á milli kynslóða og verða smám saman ráðandi.

    Þótt skilgreiningin hér að ofan eigi vel við í flestum tilfellum geta komið upp þær aðstæður að hún bregðist. Veirur geta t.d. ekki tekið afrit af sjálfum sér án þess að vera inni í hýsilfrumu. (Einnig má ímynda sér tölvuveirur sem pössuðu glettilega vel við lýsinguna hér að ofan!) Síðan má nefna múldýr (afkvæmi asna og hryssu) sem er í fullu fjöri en ófrjótt. Þrátt fyrir gallana er þessi skilgreining ágætt vegnesti við athugun á þróun lífsins og frumstæðum lífverum þar sem skilin eru oft ógreinileg á milli lifandi efnis og flókinnar samsuðu lífrænna efnasambanda.

    Heimild: An Introduction to Astrobiology. Gilmour, Iain og Sephton, Mark A. (ritstj.). 2004. Cambridge University Press.    Til baka á forsiðu

Opna Stjörnufræðivefinn í nýjum glugga
Til baka á forsiðu

Meira um stjörnulíffræði

Stjörnulíffræði á Stjörnufræðivefnum

Slóðir á aðra vefi: