Saga stjörnufræðinnar

Söguás sem sýnir yfirlit yfir sögu stjörnufræðinnar
   
 

Fornöld

Skipulegar athuganir á gangi himintunglanna fylgja í kjölfar landbúnaðarbyltingarinnar. Í stórríkjum fornaldar voru það oft prestar sem bjuggu yfir mestri þekkingu á þessu sviði. Notuðu þeir kunnáttu sína við gerð spádóma og á stjörnuspekin, fjarskyld frænka stjörnufræðinnar, rætur sínar að rekja til þessa tímabils. Nokkur af glæstustu mannvirkjum fornaldar tengjast stjörnufræðiathugunum, svo sem Píramítarnir og Stonehenge. Arfleifðin hefur einnig varðveist í gegnum stjörnumerkin sem eiga mörg hver uppruna sinn að rekja allt aftur í fornöld. Að öðrum þjóðum ólöstuðum eiga Grikkir hvað mestan þátt í að koma stjörnufræðinni á legg sem vísindagrein. Þeir veltu meðal annars fyrir sér stærð tunglsins og reiknuðu ummál jarðar.

 

Miðaldir

Flestar framfarir í stjörnufræði á miðöldum áttu sér stað utan Evrópu. Á blómatíma veldis araba áttu þeir marga færa stjörnufræðinga og má rekja mörg fræðiorð og stjörnuheiti til þeirra. Einnig lögðu Kínverjar og indíánaþjóðir mikla stund á stjörnufræði. Í Evrópu stóð ægivald kirkjunnar í vegi framfara en hún hélt því fram að jörðin væri miðpunktur alheimsins.

 

Endurreisn

Vísindaiðkun í Evrópu tók að eflast undir lok miðalda og var stjörnufræðin þar engin undantekning. Á fyrri hluta 16. aldar setti Pólverjinn Nikulás Kópernikus fram kenningu um að jörðin gengi um sólina en ekki öfugt. Nokkru síðar setti Johannes Kepler fram fræg lögmál um göngu reikistjarnanna um sólina. Byggði hann þar á nákvæmustu mælingum á færslu himintunglanna fram að þeim tíma sem framkvæmdar voru af Dananum Tycho Brahe. Forsvarsmenn kirkjunnar beittu ýmsum brögðum til að hindra framgang vísindanna og eru frægar deilur þeirra við Galileó Galilei. Hann hélt því fram að jörðin snerist um sólina og einnig er talið að hann hafi verið fyrstur til að beina sjónauka til himins. Það var svo Isaac Newton sem skýrði eðlisfræðina á bak við hreyfingar himintunglanna þegar hann setti fram þyngdarlögmálið árið 1687. Meðal annarra framlaga hans til stjörnufræðinnar má nefna smíði fyrsta spegilsjónaukans og útskýring á litrófinu.

 

Upphaf nútíma stjörnufræði

Á 18. og 19. öld þróuðust vinnubrögð vísindamanna frá skipulegum athugunum yfir í nákvæmnismælingar. Framfarir í gerð sjónauka studdu við þessa þróun og tilkoma ljósmyndatækninnar olli byltingu. Nýjar rannsóknir vörpuðu ljósi á stöðu okkar innan vetrarbrautarinnar og alheimsins og árið 1929 birti Edwin Hubble kenningar sínar um að heimurinn væri að þenjast út. Enn ein byltingin varð með tilkomu geimferða en þá var hægt að senda geimför til að kanna aðra hnetti sólkerfisins. Þekkingarleitin heldur áfram og gróskan innan stjörnufræðinnar hefur aldrei verið meiri en nú.

Umfjöllun um bandaríska stjörnufræðinginn Carl Sagan (1934-1996)

Opna Stjörnufræðivefinn í nýjum glugga