Jörðin

„Tilvera okkar er undarlegt ferðalag. Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.“
- Tómas Guðmundsson, Hótel Jörð.

Jörðin er þriðja reikistjarnan frá sólu og sú fimmta stærsta. Hún er að meðaltali í um 150 milljón km fjarlægð frá sólinni eða sem samsvarar einni stjarnfræðieiningu. Jörðin er 330.000 sinnum massaminni en sólin og þermálið er aðeins 1/109 hluti af þvermáli sólar. Ef sólin væri holótt kæmust meira en milljón jarðir fyrir innan í henni.

Tákn jarðarinnar

Jörðin hefur eitt fylgitungl sem nefnist tunglið eða máninn og er það stærsta fylgitunglið miðað við móðurreikistjörnuna í sólkerfinu ef tvíeykið Plútó og Karon er undanskilið.

Sjávarföll eru helsta birtingarmynd þyngdaráhrifa tunglsins á jörðina. Þau eiga einnig þátt í því að það hægir á snúningi jarðar um 2 millisekúndur á hverri öld. Þetta veldur einnig því að tunglið fjarlægist okkur um 4 cm á hverju ári. Fyrir 900 milljónum ára er talið að eitt ár hafi skipst í 481 dag sem hver um sig var 18 klukkustunda langur.

Jörðin er eina reikistjarnan sem ekki heitir eftir guði eða gyðju úr grískri eða rómverskri goðafræði. Nafnið er af germönskum uppruna þótt til séu hundruð annarra nafna á henni í öðrum tungumálum. Í rómverskri goðafræði var Tellus gyðja jarðarinnar - hins frjósama jarðvegs - og í Grikklandi til forna nefndist hún Gaia (terra mater = móðir jörð).

Það var ekki fyrr en á tímum Kóperníkusar á 16. öld sem viðurkennt var að jörðin gengur um sólina og er þannig í sama flokki og hinar reikistjörnurnar. Þó höfðu nokkrir grískir heimspekingar talið hana vera eina af plánetunum næstum 2000 árum fyrr.

Nýja bókasafnið í Alexandríu. Reist með dyggum stuðningi UNESCO til að minnast Bókasafnsins mikla sem var í borginni í fornöld.

Á þriðju öld fyrir Krist bjó í Egyptalandi fjölhæfur maður að nafni Eratosþenes. Hann stýrði bókasafninu mikla í Alexandríu og las þar í papírushandriti að í suðurjaðri borgarinnar Sýene í Suður-Egyptalandi vörpuðu lóðrétt prik engum skuggum á hádegi 21. júní. Á þeim degi eru sólstöður á norðurhveli og því lengsti dagur ársins. Eratosþenes vissi að ef jörðin var flöt þá myndu lóðrétt prik í Alexandríu ekki varpa neinum skugga á sama tíma. Svo var þó ekki og þá varð honum ljóst að jörðin væri annaðhvort bogin eða hnöttótt. Hann ímyndaði sér að prikin tvö næðu niður að miðju jarðar og mynduðu 7° horn í skurðpunktinum. Sjö gráður eru um 1/50 af 360° sem er ummál kúlu. Eratosþenes vissi að fjarlægðin milli Alexandríu og Sýene var um 800 km því hann réð mann til að mæla hana. Átta hundruð kílómetrar margfaldaðir með 50 eru 40.000 km sem hlaut að vera ummál jarðar.

Þetta svar er rétt og einu verkfæri Eratosþenesar voru prik, augu, fætur og heili, auk skynbragðs á tilraunir. Hann var fyrsti maðurinn til að mæla nákvæmlega stærð plánetu sem er ótrúlegt afrek fyrir 2200 árum.

Vissulega er jörðin mikið rannsökuð en það var hins vegar ekki fyrr en seint á 20. öld sem öll plánetan var kortlögð með hjálp gervitungla. Daglegar athuganir úr geimnum eru mjög mikilvægar til að spá fyrir um veður ásamt því að fylgjast með jöklum og ýmsum jarðfræðilegum fyrirbrigðum. Þar fyrir utan eru myndirnar afskaplega fallegar.

Innviðir jarðar

Út frá hegðun jarðskjálftabylgna getum við dregið þá ályktun að jörðin skiptist í þrjú meginlög: kjarna, möttul og jarðskorpu.

 • Jarðskorpan er föst fyrir og 10-70 km þykk

 • Möttullinn er fastur fyrir og nær niður á 2900 km dýpi

 • Ytri kjarninn er fljótandi og nær niður á 5100 km dýpi

 • Innri kjarninn er fastur og nær niður á 6370 km dýpi

Mestur hluti massa jarðar er í möttlinum en einnig er töluverður hluti í tvískiptum kjarnanum. Sá hluti jarðar sem við búum á, jarðskorpan, er aðeins lítið brot af jörðinni (tölur að neðan í x1024 kg):

 • Lofthjúpur = 0,0000051

 • Úthöfin = 0,0014

 • Jarðskorpan = 0,026

 • Möttullinn = 4,043

 • Ytri kjarni = 1,835

 • Innri kjarni = 0,09675

Innri gerð jarðar.
Stærri mynd.

Kjarninn er að líkindum mestmegnis samsettur úr járni en þó er mögulegt að léttari frumefni séu þar til staðar. Hitinn í miðjum kjarnanum er líklega um sex þúsund gráður en það er nokkru heitara en yfirborð sólar. Neðri möttullinn er líklega að mestu leyti úr kísli, magnesíum og súrefni ásamt járni, kalsíum og áli. Efri möttullinn er að mestu leyti úr járni og/eða magnesíum silíkötum, kalsíum og áli. Stór hluti þekkingar okkar á efnasamsetningunni kemur frá rannsóknum á jarðskjálftabylgjum og sýnum úr möttlinum sem koma upp á yfirborðið í kviku frá eldstöðvum. Skorpan er aðallega kvars (kísiloxíð), önnur silíköt og feldspat. Hún er þykkust undir fellingafjallgörðum en þynnst undir botni djúpálanna.

Yfirborð jarðar er mjög ungt vegna sífelldrar veðrunar og eldvirkni sem umbreytir yfirborðinu. Náttúruöflin hafa afmáð flest ummerki úr fortíðinni og því er lítið um árekstrargíga á jörðinni. Jörðin er um 4,6 milljarða ára gömul en elsta bergið sem fundist hefur er 3960 milljón ára gnæs. Berg eldra en 3 milljarðar er sjaldgæft. Elstu steingervingar lífvera eru um 3,9 milljarða ára. Engar heimildir eru til um tímabilið þegar lífið varð til.

Landrek

Skorpa jarðar skiptist í nokkra aðskilda fleka sem fljóta sjálfstætt á deighveli möttulsins. Flekakenning þýska veðurfræðingsins Alfreds Wegeners, sem hann setti fram árið 1912, lýsir þessu vel. Wegener hélt því fram að meginlöndin flytu á undirlagi sínu og gætu því flust úr stað. Þau hefðu því í upphafi, fyrir um 200 milljónum ára, verið ein heild sem hlotið hefur nafnið Pangaea eða Alland. Í fyrstu brotnaði Alland í tvö önnur lönd, Lárasíu og Gondvanaland, og svo koll af kolli í það sem við sjáum í dag. Nú er skorpan samsett úr sjö meginflekum:

Jarðskorpan skiptist í marga fleka. Hér má sjá hvernig þeir liggja. Jarðskjálftar eru algengastir á flekamótum.
Stærri mynd.

 • Norður-Ameríkuflekinn - Norður-Ameríka og Ísland að hluta til.

 • Suður-Ameríkuflekinn - Suður-Ameríka, Vestur- og Suður-Atlantshaf

 • Suðurskautsflekinn - Suðurskautslandið og hafið umhverfis

 • Evrasíuflekinn - Ísland að hluta til, Norður-Atlantshafið, Evrópa og Asía (að Indlandi undanskildu)

 • Afríkuflekinn - Indland, Ástralía, Nýja-Sjáland og mest allt Indlandshaf

 • Nazcaflekinn - Austur-Kyrrahaf við strendur S-Ameríku

 • Kyrrahafsflekinn - mest allt Kyrrahafið og suðurströnd Kaliforníu

Til viðbótar eru til smærri flekar eins og Arabíuflekinn, Kókosflekinn, Karabískiflekinn, Skótíaflekinn og Filippseyjaflekinn. Jarðskjálftar, eldvirkni og myndun fellingafjalla er algeng meðfram brúnum flekanna. Með kortlagningu á upptökum jarðskjálfta er auðvelt að sjá hvar flekaskilin liggja.

Fljótandi vatn er munaður sem við getum ekki verið án

„Hafið bláa hafið hugann dregur...“.

Við þurfum ekki að líta lengi í kringum okkur til þess að sannfærast um að jörðin sé blaut. Um 71% af yfirborði jarðar er þakið vatni. Jörðin er eina plánetan í sólkerfinu sem vitað er til að hýsi vatn í fljótandi formi í einhverjum mæli. Þó eru getgátur uppi um fljótandi metanhaf á Títan, haf undir Evrópu og nú hafa fundist merki um vatn á Mars. Fljótandi vatn er að sjálfsögðu eitt helsta skilyrðið fyrir lífi eins og við þekkjum það. Höfin eru einnig mikilvæg í að halda hitastiginu stöðugu og við miðlun varmans um hnöttinn (sbr. Golfstrauminn). Fljótandi vatn er auk þess helsta aflið við veðrun og rof á yfirborði jarðar.

Lofthjúpurinn

Skipting lofthjúpsins í hvolf. Smelltu á myndina til að sjá stærri mynd.

Tilvist óbundins súrefnis er fremur ótrúleg út frá efnafræðilegu sjónarmiði. Súrefni er mjög hvarfgjarnt gas og undir “venjubundnum„ kringumstæðum myndi það fljótlega hvarfast við önnur frumefni. Súrefni í lofthjúpi jarðar myndast og helst við með líffræðilegum ferlum. Án lífs væri ekkert hreint súrefni.

Koltvísýringur er mikilvægur við að halda uppi gróðurhúsaáhrifum sem auka hækka hitastigið úr nöpru -20°C frosti í þægilegar +15°C. Án smávægilegra gróðurhúsaáhrifa botnfrysu höfin og lífið yrði ómögulegt. Hins vegar lítur út fyrir að hitastig jarðar hafi hækkað af manna völdum síðastliðna áratugi vegna aukinnar losunar svonefndra gróðurhúsalofttegunda og vísindamenn spá aukinni hækkun á þessari öld. Hér þarf því að stíga varlega til jarðar eins og mörgu öðru sem tengist bláa hnettinum.

Orkumiklir árekstrar agna frá sólinni við sameindir lofthjúpsins valda háu hitastigi efst í lofthjúpnum (hitahvolfinu). Hafa skal samt í huga að loftið er margfalt þynnra efst í lofthjúpnum en þar sem við búum neðst í lofthafinu.

Segulsvið jarðar

Segulsvið jarðar.
Stærri mynd.

Jörðin hefur stöðugt segulsvið sem ver okkur fyrir sólvindinum. Áhrif sólvindsins á segulsviðið sjást best í segulljósum (norður- og suðurljósum) á pólsvæðum jarðar. Óregla í segulsviðinu veldur því að segulpólarnir hreyfast miðað við yfirborðið. Sem stendur er nyrðra segulskautið staðsett í Norður-Íshafi fyrir norður af Kanada.

Sumar agnir sólvindsins leka í gegn og festast í segulsviðinu. Þá mynda þær tvo risastóra kleinuhringslaga hringi umhverfis jörðina sem kallast Van Allen beltin. Innra beltið liggur í um 2000 til 5000 km hæð yfir jörðu og samanstendur aðallega af róteindum. Ytra beltið er um 6000 km þykkt er í um 16 þúsund km hæð yfir jörðu og inniheldur mestmegnis rafeindir.

Geimskipið jörð

Eitt ótrúlegasta einkenni jarðar er að hún er þakin lífi. Lifandi verur þrífast í margs konar umhverfi, allt frá dýpsta hafsbotni til fjallstoppa og frá köldum heimskautasvæðum til brennheitra eyðimarka. Þunna lagið sem umlykur jörðina og lífverur lifa í kallast lífhvolf.

Marga dreymir um að ferðast um geiminn og virða fyrir sér þau undur sem þar finnast. Í raun erum við öll geimfarar. Geimskipið okkar heitir jörð og ferðast á 108.000 km hraða á klukkustund eða 30 km á sekúndu. Hún er eina pláneta sólkerfisins sem við, mannkynið, og allar hinar lífverurnar getum lifað á og það er því skylda okkar að hugsa vel um hana.

Jörðin í tölum

Meðalfjarlægð frá sólu: 149.600.00 km = 1 SE*
Mesta fjarlægð frá sólu: 152.100.000 km = 1,017 SE
Minnsta fjarlægð frá sólu: 147.100.000 km = 0,983 SE
Miðskekkja brautar: 0,017
Meðalbrautarhraði: 29,8 km/s
Umferðartími: 365,256 dagar
Árstíðaár: 365,2422
Hringhreyfing möndulstefnu (pólvelta): 26 þúsund ár
Snúningstími: 23 klst. 56 mín. 4 sek.
Möndulhalli: 23,45°
Brautarhalli: 0°**
Þvermál: 12.756 km að meðaltali
Ummál: 40.007,8 km um heimskautin
40.075,0 km um miðbaug
Massi: 5,974 x 1024 kg
Eðlismassi: 5,52 g/m3
Þyngdarhröðun við miðbaug: 9,8 m/s2
Lausnarhraði: 11,2 km/s
Yfirborðshiti að meðaltali: u.þ.b. 15°C
mesti: 58°C
minnsti: -89°C
Meðalloftþrýstingur: u.þ.b. 1013 hP
Efnasamsetning lofthjúps:
Nitur (N2): 77%
Súrefni (O2): 21%
Argon (Ar): 1%
Koltvísýringur (CO2): ???0,017%
Aðrar lofttegundir: Ýmsar aðrar lofttegundir eru til staðar í lofthjúpnum s.s. vatnsgufa, óson, brennisteinstvíildi o.fl.
Efnasamsetning jarðar miðað við massa:
Járn (Fe): 34,6%
Súrefni (O): 29,5%
Kísill (Si): 15,2%
Magnesíum (Mg): 12,7%
Nikkel (Ni): 2,4%
Brennisteinn (S): 1,9%
Títan (Ti): 0,05%
  Nánast öll svonefnd „náttúruleg frumefni“ með sætistölu 92 eða lægri í lotukerfinu finnast hér á jörðinni (í mismiklum mæli)

Skýringar:

*SE=stjarnfræðieining: Meðalfjarlægð frá sólu til jarðar (u.þ.b. 150 milljón km)

**Brautarhalli reikistjarnanna miðast við jarðbrautarplanið og því er brautarhalli jarðbrautarinnar 0° samkvæmt skilgreiningu

Fylgihnöttur Meðalfjarlægð Þvermál: Massi
Tunglið/Máninn 384.400 km 3.476 7,348 x 1022 kg

Myndir af jörðinni

Bláa kristalskúlan

Tár hafa oft runnið niður kinnar geimfara sem hafa virt jörðina okkar fyrir sér utan úr geimnum. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að fara vel með hana enda engin önnur reikistjarna í sólkerfinu sem getur hýst líf.

Jörðin, Júpíter og sólin

Hér sést stærðarmunurinn milli jarðar, Júpíters og sólarinnar. Sólin er vitaskuld langstærsta fyrirbæri sólkerfisins og mest af massa þess efnis sem er utan sólarinnar er að finna í Júpíter. Inn í Júpíter kæmust 1000 jarðir en um 1.000.000 jarðir inn í sólina. Ellefu jarðir kæmust þvert í gegnum Júpíter en 109 jarðir þvert í gegnum sólina.

Jörðin séð frá Mars

Mars er fjær sólu en jörðin og tunglið svo hér sjást kvartilaskipti. Myndin var tekin 8. maí 2003 en þá voru tunglið og jörðin á kvöldhimni Mars. Sýndarbirtustig jarðar var þá -2,5 en tunglsins +0,9. Björtu svæðin á jörðinni eru ský yfir mið og austur Norður-Ameríku. Þar fyrir neðan er Mið-Ameríka og Mexíkóflói og bjarta kennileitið við miðju er meginland Suður-Ameríku.

Fölur blár punktur

Þessi mynd, sem kallast „Fölur blár punktur“, er hluti af fyrstu „portrettmyndinni“ af sólkerfinu. Myndina tók Voyager 1 úr 6,4 milljarða km fjarlægð frá jörðinni þann 14. febrúar 1990. Myndin hefur takmarkað vísindalegt gildi en er engu að síður ómetanleg og sýnir aðeins brot af smæð jarðar í alheiminum. Við búum í raun á rykkorni í geimnum.

Vísindamaðurinn Carl Sagan var aðalhvatamaður að því að þessi mynd var tekin og skrifaði bók sem heitir „Pale Blue Dot“. Hér er að finna stærri útgáfu af myndinni á vefsíðu Planetary Society, stærsta félags áhugamanna um stjörnufræði í heiminum, en Carl Sagan átti hvað stærstan þátt í að koma félaginu á fót.

Jöršin įsamt tveimur fylgifiskum sķnum

Myndin sżnir rśssnesku MIR-geimstöšina svķfa yfir jöršinni. Hśn er nś aflögš og var meginhluta hennar komiš af sporbaug og lįtinn falla ķ Kyrrahafiš įriš 2001. Ķ baksżn sést ķ tungliš.

Pólvelta jarðar

Möndull jarðar hallar um 23,5° miðað við sólkerfisplanið og veldur það árstíðaskiptum á jörðinni. Jörðin er jafnframt aðeins flatari við heimskautin en við miðbaug og því reyna tunglið og sólin að žvinga „mišbaugsbunguna“ til aš liggja ķ plani sólkerfisins. Í stað þess að mišbaugsbungan fęrist og möndulhallinn breytist verulega þá valda žessi þyngdarvægi frá tungli og sólu því að möndullinn færist heilan hring á 25.800 árum.

Núna bendir jarðmöndullinn á stjörnu sem við þekkjum undir nafninu Pólstjarnan í Litlabirni. Eftir um 12.000 ár verður Blástjarnan eða Vega í stjörnumerkinu Hörpunni bein yfir norðurpólnum og munu afkomendur okkar því þurfa að styðjast við hana þegar þeir vilja finna norðurátt á stjörnubjörtum kvöldum.

Júgóslavneski stærðfræðingurinn Milutin Milankovitch reiknaði út að styrkur geislunar frá sólinni ætti að sveiflast á tugþúsundum ára vegna pólveltunnar og breytinga á möndulhalla og sporbaug jarðar umhverfis sólu.

Skuggakeila tungls við almyrkva

Við almyrkva á sólu nær tunglið að skyggja algerlega á sólina þegar horft er í sólarátt frá tilteknu svæði á jörðinni. Eins og sést hér á myndinni er svæðið ekkert tiltakanlega stórt miðað við jörðina í heild (öfugt við tunglmyrkva sem sést frá allri næturhlið jarðarinnar). Skuggakeilan frá tunglinu fer hratt yfir og því stendur almyrkvi á sólu aldrei lengur en í u.þ.b. 7 mínútur á hverjum stað.

Eins og við Íslendingar þekkjum mætavel, er sólin oft lágt á lofti á heimskautasvæðunum. Svona leit skuggakeilan frá tunglinu út á Suðurskautslandinu við almyrkva 23. nóvember 2003.

Norður- og suðurljós

Segulljósin (samheiti yfir norður- og suðurljós) myndast í efri lögum lofthjúpsins þegar agnir frá sólvindinum rekast á með miklum hraða á sameindir andrúmsloftsins. Við þessa árekstra losnar mikil orka á formi ljóseindar, en athugandi á jörðu niðri sér ótal slíka árekstra sem samfelld norður- eða suðurljós.

Hér er hægt að sjá kragana umhverfis segulskautin þar sem helst er að búast við norður- og suðurljósum.

Hér er síðan vefslóð á fræga ljósmynd Sigurðar H. Stefnissonar af norðurljósum og eldgosi í Heklu.

Jörðin að nóttu til - ljósmengun

Jörðin að nóttu til er glæsileg. Hér sjást greinilega mannanna verk með tilheyrandi ljósmengun. Eins og sjá má er ljósmengun víða orðið mikið vandamál, jafnvel hér á Íslandi. Myndin er að sjálfsögðu samansett, enda getur öll jörðin ekki verið myrkvuð samtímis.

Dagur og nótt

Þessi mynd byggir á upplýsingum utan úr geimnum líkt og flestar myndirnar hér á síðunni. En hvernig fara menn að því að taka svona mynd? Er þetta upprunalega myndin eða er hún samsett í tölvu? Hér er að finna svar við þessum spurningum.

Rökkriš fęrist yfir

Eins og sjį mį eru skilin ekki mjög skörp milli dags og nętur į yfirborši jaršar. Myrkriš skellur samt miklu hrašar į viš mišbaug en į noršlęgum breiddargrįšum. Įstęšan er sś aš jöršin er kśla meš fast yfirborš sem snżst einn hring į sólarhring jafnt viš mišbaug sem nįlęgt noršurpólnum. Viš mišbaug fęrast skil dags og nętur hrašar eftir yfirboršinu en t.d. į Ķslandi. Žvķ tekur žaš miklu skemmri tķma aš birta og dimma ķ hitabeltinu en hér į landi.

Lundúnaborg að næturlagi

Hér sést greinilega hvernig byggðin er þéttust í miðri borginni og hvað ljósmengun er þar mikið vandamál. Aðalflugvellir borgarinnar, Heathrow og Gatwick, eru áberandi á myndinni, sem og sá hluti hringvegarins umhverfis borgina sem liggur á milli þeirra.

Mumbai á Indlandi

Mumbai á Indlandi (Bombay) er næststærsta borg heims á eftir Tókýó og búa þar um 23 milljónir manna. Hún er jafnframt einn þéttbýlasti staður á jörðinni. Nú er talið að um 48% mannkyns búi í borgum (tölur frá 2003) og fer þetta hlutfall hækkandi. Vöxturinn er mestur í borgum þriðja heimsins en þar eru innviðir borganna jafnframt hörlegastir. Leiðir það til þess að víða er skortur á rafmagni og rennandi vatni en einnig eru fráveitumál í algerum ólestri sem eykur líkurnar á smitsjúkdómum.

Fellibylurinn Ísabella

Fellibylurinn Ísabella fór um austurströnd Bandaríkjanna í lok september 2003 og olli miklum usla. Vindhraði hans mældist 67 metrar á sekúndu sem er álíka og mælst hefur í sterkustu vindhviðum á Íslandi. Hér (1, 2, 3) eru myndir sem sýna eyðilegginguna sem Ísabella olli og flóðin sem fylgdu í kjölfarið. Hér er síðan mynd frá flutningaskipi sem var statt nálægt miðju fellibylsins.

Skýstrokkar í Oklahóma

Hreyfimyndin er samsett úr myndum sem teknar voru á hálftíma fresti og sýna skýstrokka yfir Oklahomaríki í Bandaríkjunum þann 3. maí 1999. Þennan dag varð vart við 70 skýstrokka í miklu óveðri og týndu 38 manns lífi í veðurofsanum. Í hagléli sem fylgdi óveðrinu féllu högl sem voru allt að 10 cm í þvermál. Margir misstu hús sín og tjónið sem veðrið olli hefur verið metið á 40-80 milljarða íslenskra króna. Einn skýstrokkanna var í flokki F-5, en þar lenda aðeins öflugustu skýstrokkarnir. Getur vindhraðinn í þeim orðið yfir 120 m/s.

Myndirnar voru teknar af GOES-East veðurtunglinu.

Skżstrokkur og regnbogi

Myndin var tekin ķ Kansas ķ jśnķ 2004.

Ísland

Hér sést Ísland í heild sinni á mynd sem tekin var 28. janúar 2002. Á henni má sjá landið nánast allt þakið snjó og sandstormur sést blása ryki til hafs undan Skeiðarársandi á Suðausturlandi.

Breiðamerkurjökull hörfar

Helstu þættir sem ráða stærð jökla eru úrkoma, hitastigi og sólargeislun. Breytingar á jöklum fylgja breytingum í loftslagi og sést það vel á jöklum hér á landi. Þegar Breiðamerkurjökull náði hvað lengst fram um síðustu aldamót átti hann aðeins 1.500 metra ófarna út að sjó. Síðan 1930 hefur hann hörfað tiltölulega hratt og sýna þessar myndir breytinguna sem varð á milli áranna 1973 og 2000. Hér er að finna fallega ljósmynd af Breiðamerkurjökli og lóninu og hér er að finna fleiri myndir af hopi jökulsporðsins, auk fróðleiks um loftmyndir og fjarkönnun.

Jöklar tengjast einnig athugunum á loftslagi hundruð þúsunda ára aftur í tímann. Grænlandsjökull og íshettan á Suðurskautslandinu er frosin í gegn og varðveita því upplýsingar um loftslagsbreytingar sem hægt er að nálgast með því að bora í jökulísinn.

Eldgos í Etnu

Þessi mynd er af eldgosi í Etnu á Sikiley á Ítalíu. Myndin var tekin 22. júlí 2001 úr Alþjóðlegu geimstöðinni. Á þessum degi náði gosmökkurinn mestu hæð sinni, um 5,2 km. Etna er eitt þekktasta eldfjall í heiminum og saga eldgosa í henni nær til 1500 f.Kr.

Eldhringurinn

Mörg af stærstu eldfjöllum heims raðast í hring umhverfis Kyrrahafið sem gengur undir því kynngimagnaða nafni, „eldhringurinn“. Ástæðan fyrir þessu er sú að Kyrrahafið liggur víða að eyjabogum (Indónesía, Japan) og fellingafjöllum (Andesfjöll) sem hafa myndast við það að tveir flekar rekast saman. Á flekamótunum kemst kvika úr iðrum jarðar upp á yfirborðið.

Manicouaganvatn í norður Quebec í Kanada

Stóra hringlaga vatnið á myndinni er leifar eins stærsta árekstrargígs á jörðinni. Gígurinn er um 70 km í þvermál. Jöklar, eldgos og aðrir kraftar veðra mjög bergið á jörðinni og því varðveitast gígar ekki eins og t.d. á tunglinu. Upprunalegi gígurinn hér hefur verið um 100 km í þvermál. Áreksturinn sem myndaði Manicouagan er talinn hafa átt sér stað fyrir um 212 milljón árum og er talinn hafa valdið útdauða 60% af öllum dýrategundum. Smástirnið sem rakst á jörðina er talið hafa verið um 5 km að þvermáli.

Galapagoseyjar

Galapagoseyjar tilheyra Ekvador og eru í Kyrrahafi um 1000 km vestur af Suður-Ameríku. Stærsta eyjan heitir Ísabella. Á henni sjást þrír gígar, en eyjurnar urðu til við eldgos. Eyjurnar eru nánast ósnortnar og þar þrífast margar einstæðar dýrategundir. Meira en 95% af skriðdýrunum og nærri 1/3 fuglategundanna finnast hvergi annars staðar í heiminum. Galapagoseyjar eru friðaðar og á hverju ári heimsækja 60.000 ferðamenn eyjurnar.

Everestfjall

Everestfjall er hæsta fjall heims, 8850 m hátt. Þessi mynd af Everestfjalli og Lhotse er hluti af stærri mynd af Himalæjafjöllum sem tekin var í október 1993. Myndina tóku geimfarar um borð í STS058.

Śtsżni af Everestfjalli

Kanaríeyjar

Kanaríeyjar tilheyra Spáni en liggja við meginland Afríku, nánar tiltekið við Marokkó og Vestur-Sahara. Eyjurnar eru eldfjöll og á þeim eru fjórir af tíu þjóðgörðum Spánar. Teneríf er stærsta eyjan. Norðvestasta eyjan heitir La Palma og er náttúran þar stórfengleg. Fjallið nær í yfir 2000 m hæð yfir sjávarmáli en rís 6500 m upp frá hafsbotninum. Á tindi fjallsins eru staðsettir nokkrir stjörnusjónaukar. Þeirra á meðal Norræni stjörnusjónaukinn en Háskóli Íslands á 1% hlut í honum.

Pálmaey undan ströndum Dubai

Dubai-menn eru í miklum landvinningahugleiðingum og er Pálmaey skref í áttina að því að minnka vægi olíuframleiðslu. Eyjan er hugsuð fyrir ferðamenn og er fyllt upp með uppgreftri úr höfn sem verið er að dýpka þar hjá. Á eynni verða 1200 einbýlishús, sem öll munu liggja að sjónum, 600 fjölbýlishús, vatnsleikjagarður, kvikmyndahús, verslanamiðstöðvar og fleira

Brennandi regnskógar í Brasilíu

Eyðing skóga er með stórfelldustu umhverfisspjöllum hér á jörðinni. Íslendingar hafa átt sinn þátt í þessu, enda segir Ari fróði í Íslendingabók að landið hafi verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Vísindamenn hafa áætlað að birkiskógar hafi þakið um fimmtung landsins við landnám en nú þekja skógar aðeins um einn hundraðshluta af Íslandi.

Á síðustu áratugum hafa orðið mikil flóð í Evrópu og Bandaríkjunum (og reyndar víðar í heiminum) sem rekja má að nokkru leyti til eyðingar skóga. Bæði binda trén jarðveginn með rótum sínum og eins tempra skógarnir sveiflur í úrkomu. Sagt er að fyrir um tveimur öldum hefði íkorni getað stokkið milli trjáa alla leiðina frá París til Moskvu en eitthvað kæmist hann skemmra í dag.
Eyðing regnskóganna er vandamál af svipuðum toga og eyðing skóga í tempraða beltinu. Regnskógarnir eru ruddir eða brenndir í þeim tilgangi að selja viðinn úr landi og eða nýta landið til ræktunar eða kvikfjárbúskapar. Landið undir skóginum er oft ekkert sérlega frjósamt og því gefast menn oft upp á ræktuninni innan fárra ára. Þótt vísindamenn greini á um hlutverk skóganna í tengslum við gróðurhúsaáhrif, þá geta menn verið sammála um að eyðing þeirra dregur úr líffræðilegri fjölbreytni.

Á 12 mánaða tímabili á árunum 2002 til 2003 ruddu menn eða brenndu skóglendi í regnskógum Brasilíu , sem var á við fjórðunginn af flatarmáli Íslands (heimild). Því miður eru regnskógarnir þar ekki þeir einu sem eiga í vök að verjast, heldur er vandamálið útbreytt í þriðja heiminum. Alþjóðastofnanir, félagasamtök og stjórnvöld sumra ríkja hafa reynt að sporna gegn þessari rányrkju en árangurinn mætti vera betri.

Gat í ósonlaginu yfir Suðurskautslandinu

Ósonlagið er öllu lífi á jörðinni gríðarlega mikilvægt því það ver okkur gegn skaðlegum útfjólubláum geislum sólarinnar. Ósonsameindir eru úr þremur súrefnisatómum og mynda þunnt lag í um 10 og 29 km hæð yfir jörðinni. Gatið sem hér sést í ósonlaginu er þrisvar sinnum stærra en Bandaríkin eða u.þ.b. 28 milljón ferkílómetrar. Myndin var tekin 3. september 2000 og kom stærðin á gatinu vísindamönnum óþægilega á óvart.

Landið fýkur burt

Það þarf ekki að fara út fyrir landsteinana til að verða vitni að miklum umhverfisbreytingum af völdum manna. Við landnám voru birkiskógar útbreiddir á láglendi en nú er aðeins að finna skóg á stöku stað. Skógarhögg og slæm landnýting fyrr á tíð veiktu mótstöðu lífríkisins gegn óblíðum náttúruöflum svo sem öskufalli í kjölfar eldgosa og köldu veðurfari. Enn á sér stað mikið jarðvegsrof víða um land.

Heimildir

Nine Planets (vefur Bill Arnett)

Solar Views (vefur Calvin J. Hamilton)Til baka á forsiðu

Opna Stjörnufræðivefinn í nýjum glugga  
Til baka á forsiðu

Sólkerfið

Meira um jörðina:

Tunglið

Sólmyrkvar

Tunglmyrkvar

Slóðir á aðra vefi: