Tunglmyrkvar

Sól- og tunglmyrkvar geta aðeins orðið þegar sólin, jörðin og tunglið liggja hér um bil í beinni línu. Myrkvinn á sér þá stað þegar skuggi jarðar fellur á tunglið (tunglmyrkvi) eða skuggi tunglsins á jörðina (sólmyrkvi). Myrkvarnir eru með tilkomumestu stjarnfræðilegu atburðum sem sjást með berum augum.

Myrkvar geta aðeins orðið þegar tungl er fullt eða nýtt (þá eru sól, jörð og tungl í beinni línu). Þeir gerast þó ekki á tveggja vikna og 29,5 daga fresti (fullt eða nýtt tungl í tunglmánuðinum) því brautarplan tunglsins og brautarplan jarðar eru ekki samsíða. Tunglbrautin hallar um 5° frá braut jarðar og vegna hallans fellur skuggi tunglsins yfirleitt undir eða yfir jörðina.

Tvö eða þrjú myrkvatímabil á ári

Það eru því aðeins tvö eða þrjú tímabil á ári sem myrkvar geta orðið. Þá eru sólin, jörðin og tunglið í beinni línu, ásamt því að vera í sama plani þannig að jörðin og tunglið geti varpað skugga hvort á annað.

Tunglmyrkvar verða aðeins þegar tungl er fullt og fer inn í skugga jarðar. Jörðin er þá á milli tungls og sólar og nær að skyggja á tunglið og myrkva það. Tunglmyrkvar sjást frá allri næturhlið jarðarinnar.

Sólmyrkvar verða aðeins þegar tungl er nýtt og fer fyrir sólina og varpar skugga á takmarkað svæði á yfirborð jarðar. Tunglið er þá milli jarðar og sólar og nær að skyggja á sólina.

Stjörnufræðin bjargaði Kólumbus

Þegar Kristófer Kólumbus og áhöfn hans strandaði á Jamaíka árið 1503 ákváðu eyjaskeggjar að færa þeim ekki mat. Ekki var unnt að gera við skipin svo skipverjarnir neyddust til að dvelja um sinn á eyjunni og lifa á landinu.

Stuttu síðar, þegar Kólumbus skoðaði siglingatöflur sínar tók hann eftir því að almyrkvi á tungli myndi verða 29. febrúar 1504. Kólumbus ákvað að færa sér og áhöfn sinni þetta í nyt. Hann ákvað að segja eyjaskeggjum að guð reiddist svo meðferðin á skipverjunum að hann ákvað að fjarlægja tunglið af himninum og sýna þannig vanþóknun sína. Innan fáeinna mínútna byrjaði skuggi jarðar að færast yfir tunglið. Þetta heppnaðist hjá Kólumbusi svo eyjaskeggjar ákváðu að færa þeim mat en aðeins ef guð setti tunglið aftur á himininn.

Þrjár gerðir tunglmyrkva

Þrjár gerðir tunglmyrkva.
Stærri mynd.

Til eru þrenns konar tunglmyrkvar: almyrkvar, deildarmyrkvar og hálfskuggamyrkvar. Gerð myrkvans hverju sinni fer eftir því hvernig tunglið færist inn í skugga jarðar. Skuggi jarðar skiptist í alskugga og hálfskugga. Alskugginn er dimmasti hluti jarðskuggans og þar sést sólin alls ekki. Hálfskugginn er hins vegar ekki eins dimmur en innan hans sést hluti sólar.

Ef tunglið fer alveg inn í alskuggann verður almyrkvi á tungli. Flestir sjá tunglmyrkva aðeins þegar tunglið fer inn í alskuggann en það tímabil kallast alskuggatímabil. Þá virðist vanta hluta tunglskífunnar. Ef aðeins hluti tunglsins fer í gegnum alskuggann verður svokallaður deildarmyrkvi. Oftast fer tunglið hins vegar aðeins í gegnum hálfskuggann og þá verður svonefndur hálfskuggamyrkvi. Þegar slíkur myrkvi á sér stað er enginn hluti tunglsins algjörlega skyggður og fæstir taka eftir myrkvanum. Þá virðist tunglið einungis örlítið dimmara en venjulega þótt fullt sé. Rétt eins og við almyrkva á sólu er deildarmyrkvi á tungli bæði fyrir og eftir almyrkva á tungli. Í öllum tunglmyrkvum á sér stað hálfskuggamyrkvi en það er aðeins við hentuga uppstillingu að deildarmyrkvi eða almyrkvi á sér stað.

Lengd tunglmyrkva ræðst af því hvort tunglið ferðast beint í gegnum alskuggann eða ekki. Hraði tunglsins í gegnum skuggann er um 1 km á sekúndu sem þýðir að almyrkvi getur staðið í allt að 1 klukkustund og 42 mínútur.

Blóðrautt tungl

Fylgst með tunglmyrkva frá Stonehenge.

Mestur hluti þess sólarljóss sem fer í gegnum þennan örþunna hring á gufuhvolfinu er rautt, þar sem það tvístrast síður en hinir litirnir, og af því leiðir að tunglið virðist rautt á meðan á almyrkva stendur. Þegar myndir af tunglmyrkvum eru skoðaðar sést rauði liturinn aðeins þegar tunglið er í alskugganum um miðbik myrkvans, en ekki í síðari hlutanum því þá er tunglið að færast úr alskugganum og rauði liturinn hefur dofnað verulega.

Litur tunglsins við almyrkva er háð magni skýja, ryks og mengunar í lofthjúpi jarðar, þ.e. hversu hreinn hann er. Stundum hverfur tunglið nánast alveg vegna óhreininda. Þegar Pínatúbófjall á Filippseyjum gaus í júní 1991 spúði það miklu magni af ryki og gasi í efri hluta lofthjúpsins sem dreifðist yfir norðurhvelið á næstu mánuðum. Agnirnar drógu í sig sólarljós og kældu norðurhvelið um nokkrar gráður. Í deildarmyrkvanum í júní 1992 var tunglið t.d. alveg svart og grátt í almyrkvanum sex mánuðum síðar.

Tunglmyrkvi á jörðinni felur í sér sólmyrkva á tunglinu

Eins og fram hefur komið felst almyrkvi á tungli í því að fullt tungl gengur inn í skugga jarðar. Hann hindrar sólarljós í því að falla á tunglið og frá jörðinni sést dökkur skuggi færast yfir tunglskífuna.

Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvað bæri fyrir augu athuganda sem staddur væri á yfirborði tunglsins. Þegar jarðarbúar sjá hálfskuggamyrkva færast yfir tunglið (sést varla með berum augum) þá er jörðin að ganga fyrir sólina séð frá tunglinu og þar er því deildarmyrkvi á sólu. Þegar almyrkvinn færist yfir tunglskífuna séð frá jörðu þá er almyrkvi á sólu séð frá yfirborði tunglsins. Geimfari á tunglinu gæti því upplifað almyrkva á sólu sem stæði yfir í meira en eina klukkustund (almyrkvi á tungli getur varað í allt að 1 klst. 42 mín.) á meðan hámarkslengd almyrkva á sólu á yfirborði jarðar er einungis um sjö og hálf mínúta.

Geimfari á yfirborði tunglsins getur séð móta fyrir útlínum jarðarinnar þrátt fyrir að það sé næturhlið jarðarinnar sem snúi að tunglinu við tunglmyrkva. Ástæðan er sú að hluti sólarljóssins nær að endurvarpast frá ögnum í gufuhvolfinu á yfirborð tunglsins við almyrkvann (samanber umfjöllunina um blóðrautt tungl hér að ofan). Gæti tunglfarinn því séð daufa rauðleita bogalínu við jaðar jarðkringlunnar og á sama tíma og jarðarbúar sjá rauðleitan blæ á tunglinu. Jafnframt er það áhugavert að velta fyrir sér hvort tunglfarinn sæi elda vegna brennslu afgangsgass við olíulindir á Persaflóa, Nílardalinn, Tókýóborg í Japan eða skógarelda í Brasilíu.

Tíðni tunglmyrkva

Almyrkvi á tungli sést að meðaltali á 2-3 ára fresti frá tilteknum stað á jörðinni. Á hverri öld verða að meðaltali 243 tunglmyrkvar og þar af 68 almyrkvar. Mest geta þrír almyrkvar á tungli orðið á einu ári en slíkt er þó mjög sjaldgæft. Síðast gerðist það 1982 og sáust þá tveir af þremur frá Reykjavík. Næst gerist það árið 2485.

Nánar má lesa um tíðni sólmyrkva í Almanaki Háskóla Íslands, sem er í umsjá Þorsteins Sæmundssonar stjörnufræðings.

Myndir

Almyrkvi á tungli

Þessar myndir tók Fred Espenak á sömu filmu við upphaf, miðbik og enda almyrkva á tungli 6. júlí 1982. Þar sem myrkvar bera ekki sérstök heiti (eins og til að mynda fellibyljir) þá var Espenak (eða Hr. Myrkvi eins og hann er nefndur) heiðraður með því að smástirni var nefnt eftir honum í mars 2003.
(2003 Fred Espenak)

Tunglmyrkvi - hreyfimynd

Á vefsíðu NASA er að finna samskeytta mynd sem sýnir nokkur stig tunglmyrkva; hálfskuggamyrkva, deildarmyrkva, almyrkva, deildarmyrkva og loks hálfskuggamyrkva á ný. Um miðbik myrkvans roðnaði tunglið aðeins vegna endurvarps sólarljóss frá lofthjúpi jarðar. Geimfari, sem þá væri staddur á tunglinu í niðamyrkri, sæi rauðleitan hring umhverfis jörðina.Til baka á forsiðu

Opna Stjörnufræðivefinn í nýjum glugga
Til baka á forsiðu

Meira um myrkva

Tunglmyrkvi aðfaranótt 28. október 2004

Sólmyrkvar

Myrkvar sem tengjast sögulegum atburðum

Jörðin

Tunglið