Huygens-kanninn

Huygens-kanninn er smærri eining Cassini-Huygens geimfarsins. Kanninn er 319 kg og hannaður og byggður af Evrópsku geimferðastofnuninni (ESA) til þess að framkvæma ítarlegar rannsóknir á lofthjúpi og yfirborði Títans. Títan er næststærsta tungl sólkerfisins og hið eina sem hefur þykkan, metanríkan niturlofthjúp, og því afar áhugavert frá vísindalegu sjónarhorni. Huygens-kanninn kemur til með að falla í lofthjúp hnattar fjær jörðu en nokkur annað geimfar hefur gert hingað til.

Huygens-kanninn er nefndur eftir hollenska stjörnufræðingnum Christiaan Huygens (1629-1695) sem fann tunglið Títan þann 25. mars 1655 og var jafnframt fyrstur manna til að varpa ljósi á eðli hringjanna og hvers vegna útlit þeirra breytist á nokkurra ára fresti.

Kanninn var fastur á Cassini-brautarfarinu á sjö ára ferðalagi til Satúrnusar. Á þessum tíma, á sex mánaða fresti, fór hann í gegnum fjölda mikilvægra prófana þar sem gengið var úr skugga um að allt starfaði eðlilega, en það er mjög mikilvægt vegna þess að fjarlægðin frá jörðu er of mikil til að senda merki og skipanir ef eitthvað fer úrskeiðis á ögurstund. Þetta þýðir að forritun farsins þarf að vera mjög nákvæm til þess að það virki alveg sjálfvirkt svo dýrmæt gögn geti komist til Cassini og þaðan til jarðar. Mest getur Huygens sent 8 kílóbit á sekúndu af upplýsingum til Cassini.

Huygens losnar frá Cassini-brautarfarinu 25. desember 2004 og hefst þá 22 daga ferðalag í átt til Títans. Það eina sem situr þá eftir á Cassini er stuðningstæki kannans, sem fylgist með ferðum hans og safnar upplýsingunum saman. Í janúar 2005, einungis 45 mínútum áður en farið fellur inn í lofthjúp Títans, hringja vekjaraklukkur í tölvubúnaðinum og vekja kannann.

Við ferðina inn í lofthjúpinn er kanninn varinn af hitaskildi sem getur þolað allt að 18.000°C hita. Hitinn verður tæplega svo hár en þrátt fyrir það mun mikill varmi myndast vegna núnings Huygens við þykkan lofthjúp Títans. Þrenns konar fallhlífar hægja ferðina nóg til að veita mælitækjunum stöðugt umhverfi til vísindarannsókna. Kanninn fellur svo á yfirborð Títans, um tveimur og hálfri klukkustund síðar, og verður þá fyrsta geimfarið sem lendir á hnetti í ytra sólkerfinu. Talið er að árekstrarhraðinn nemi um 5-6 metrum á sekúndu en vonast er til að Huygens þoli áreksturinn og endist í að minnsta kosti fáeinar mínútur. Þá ætti tækjunum að gefast nægur tími til að gera mælingar á lendingarstaðnum þar til rafhlöðurnar tæmast.

Tækin um borð í kannanum eru sex talsins en þau eiga að veita okkur upplýsingar um efnasamsetningu lofthjúpsins, veðurfarið, skýjafarið og yfirborðið. Vísindamenn vænta stórkostlegra mynda og gagna á meðan á ferðalaginu stendur (og vonandi einnig frá yfirborðinu). Tækin hafa verið þróuð af mismunandi starfshópum í Evrópu og Bandaríkjunum. Til dæmis bjó Parísarháskóli, með dyggri aðstoð vísindamanna frá öðrum löndum, til tæki til rannsóknar á eðlisþáttum lofthjúpsins og hljóðnema sem tekur upp hljóðin í lofthjúpnum.

Gögnin sem til verða úr ferðalagi Huygens inn í lofthjúp Títans gætu geymt vísbendingar um uppruna lífsins á jörðinni. Talið er að kolefnisrík efnasambönd sem talin eru líkjast lífrænu súpunni á jörðinni í árdaga hennar, séu þar varðveitt í djúpfrystum lofthjúpi Títans.

Til baka á forsiðu

Opna Stjörnufræðivefinn í nýjum glugga
Til baka á forsiðu

Meira um Cassini-leiðangurinn

Cassini-leiðangurinn

FRÉTTIR

Cassini-brautarfarið

Markmið Cassini-leiðangursins

Satúrnus

Títan

Hringar Satúrnusar

Sólkerfið

Slóðir á aðra vefi

Umfjöllun á NASA-vefnum

Umfjöllun á ESA-vefnum

Umfjöllun á Space.com