Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Vogin

 

Efnisyfirlit

Vogin er eitt hinna 88 stjörnumerkja sem þekja himinhvelfinguna. Vogin gægist upp fyrir sjóndeildarhringinn að næturlagi á vorin. Hún er í 29. sæti í stærðarröð stjörnumerkjanna.

Vogin liggur fyrir neðan miðbaug himins og markast af stjörnumerkjunum Vatnaskrímslinu í vestri, Meyjunni í norðvestri, Höggormshöfðinu í norðri, Naðurvalda og Sporðdrekanum í austri og Úlfinum í suðri. Vogin er eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um stjörnumerkin í dýrahringnum og er í Voginni á haustin. Afstaða stjörnumerkjanna hefur breyst á þeim tvö til þrjú þúsund árum síðan stjörnuspekikerfið kom fram og því er sólin nú innan marka Meyjunnar frá 30. október til 20. nóvember (en ekki frá 23. september til 23. október eins og segir í stjörnuspám). Þótt stjörnumerkin sjáist ekki að degi til er samt hægt að reikna út hvar sólin er stödd á himinum með aðstoð stjörnukorta. Það gerist svo einstaka sinnum að allir fá tækifæri til þess að sannreyna í hvaða stjörnumerki sólin er þegar tunglið gengur fyrir sólskífuna við almyrkva á sólu og myrkur skellur á um miðjan dag.

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Voginni.

Vogin á himninum yfir Íslandi

Vogin er það sunnarlega að einungis hluti hennar sést frá Íslandi. Efri hluti sést best um og upp úr miðnætti í mars og apríl. Vogin er sumarmerki sem þýðir að hún er í hágöngu (hæst á lofti) í suðri klukkan fjögur að nóttu þann 1. apríl. Þá er hins vegar farið að birta af degi og því betra að skoða hana fyrr þegar hún er lægra á lofti.

Stjörnumerkið Vogin á íslenska næturhimninum 1. apríl klukkan 1:00. Horft er í suður. Í austri er Naðurvaldi, Höggormshöfuðið í norðri og Meyjan í norðvestri. Myndin er úr Starry Night forritinu.

Auðveldast er að finna Vogina með því að finna fyrst Meyjuna sem rís á undan henni upp á himininn. Til þess að finna stjörnumerkin er best að draga bogalínu í framhaldi af handfangi Karlsvagnsins. Hún lendir fyrst á Arktúrusi í Hjarðmanninum og liggur síðan niður að Spíku í Meyjunni. Vogin er þá við sjóndeildarhring vinstra megin við Meyjuna.

Uppruni stjörnumerkisins

Stjörnumerkið Sporðdrekinn náði lengi vel yfir þetta svæði á himninum og táknuðu björtustu stjörnurnar klær Sporðdrekans. Vogin er yngsta merki dýrahringsins og eina merkið sem táknar ekki lifandi veru. Vogin vísar til vogar Astraeu, gyðju réttlætisins, en hún var ein margra gyðja sem tengdar hafa verið við stjörnumerkið Meyjuna.

Stjörnur í Voginni

Um 30 stjörnur í Voginni sjást með berum augum.

  • Zubenelgenubi (α (alfa) Librae) er eitt af fáum stjörnukerfum þar sem hægt er að aðskilja stjörnurnar með berum augum. Kerfið er í 77 ljósára fjarlægð og er bjartari stjarnan er með sýndarbirtustigið +2,75 en sú daufari sýndarbirtustigið +5,15. Hornbilið á milli stjarnanna er 4 bogamínutur sem þýðir að þær standa þétt saman. (Til samanburðar er bilið á milli Mízar og Alkor í Karlsvagninum 12 bogamínútur.) Daufari stjarnan er einnig tvístirni en vegalengdin á milli þeirra er það lítil að áhugamenn geta ekki greint þær í sundur.  Nafnið Zubenelgenubi kemur úr arabísku og merkir „suðurkló Sporðdrekans“ en löngum var litið á stjörnur Vogarinnar sem fremsta hluta stjörnumerkisins Sporðdrekans.
  • Zubeneschamali (β (beta) Librae) er bjartasta stjarnan í Voginni með birtustigið +2,61 og í 160 ljósára fjarlægð frá jörðu. Nafn hennar merkið „norðurklóin“ sem vísar til forsögu merkisins sem framhalds af Sporðdrekanum. Zubeneschamali er eina stjarnan sem virðist græn með berum augum en um þetta eru deildar meiningar og sjá sumir einungis hvítan lit. Í stjarneðlisfræðinni skína stjörnur í öllum regnbogans litum nema grænum. Litur stjarna ræðst af yfirborðshitastigi og eru heitustu stjörnurnar bláleitar og en neðst koma gular og rauðar stjörnur (köldustu stjörnurnar eru rauðar). Stjörnurnar klifra upp regnbogann með hækkandi hitastigi og því ættu stjörnurnar á milli bláu og gulu stjarnanna að vera grænar. Litarskynið blandar hins vegar öllum litunum saman um miðbik hitakvarðans og því virðast stjörnurnar hvítar en ekki grænar. Eina leiðin til þess að komast að því hvort stjarnan virðist græn eða hvít er að kíkja á hana einhverja nóttina.
  • Zubenhakrabi (σ (sigma) Librae eða γ (gamma) Scorpii) er ein þeirra stjarna sem tengir saman tvö stjörnumerki og fær því bókstaf í báðum merkjunum í samræmi við nafnakerfi Bayers sem úthlutar grísku bókstöfunum. Tvær þekktar stjörnur eru í sömu aðstöðu. Önnur þeirra er stjarnan Elnath (beta Tauri) í Nautinu sem ber einnig heitið gamma Aurigae en er nú talin til Nautsins. Hin er Alferatz (alfa Andromedae) sem er hluti af stjörnumerkinu Andrómedu. Hún er jafnframt ein fjögurra stjarna sem mynda stóra ferhyrninginn í vængfáknum Pegasusi og fékk því einnig nafnið Delta Pegasi. Nafnið Zubenhakrabi merkir kló Sporðdrekans og á því sama uppruna og heiti stjarnanna hér að ofan.

Djúpfyrirbæri í Voginni

Vogin er eina stjörnurmerkið í dýrahringnum þar sem ekki er að finna nein fyrirbæri úr Messier-skránni.

Stjörnukort

Góð stjörnukort er að finna í bók Snævarrs Guðmundssonar, Íslenskur stjörnuatlas. Við mælum með því að allir eignist þá fínu bók. Einnig er hægt að fá góð stjörnukort í Starry Night hugbúnaðinum en þar má prenta út hvaða hluta himinsins sem er á mjög einfaldan hátt. Starry Night hugbúnaðurinn fæst hjá Sjónaukar.is.

Hér eru nokkur kort sem hægt er að prenta út. Smellið á kortin til þess að fá upp stærri mynd.

Vogin (einfalt kort)

Vogin og stjörnumerki umhverfis hana.

Kortið er ekki mjög nákvæmt en sýnir ágætlega afstöðu Vogarinnar til stjörnumerkja í nágrenninu.


 

Heimildir:

  1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
  2. Vefsíða um Vogina á Wikipediu (skoðuð 31. ágúst 2008).
  3. Vefsíða stjörnufræðingsins James Kaler um stjörnur (skoðuð 31. ágúst 2008).
  4. Vefsíðan seds.org um djúpfyrirbæri (skoðuð 31. ágúst 2008).
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook